Fréttir

24.11.2015

Skiptineminn Sophie

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg fóstrar tævanska skiptinemann Sophie Chiang á yfirstandandi skólaári. Klúbburinn hefur reglulega fóstrað erlenda skiptinema, síðast svissnesku stúlkuna Daria Wittwer veturinn 2013-2014. Sophie mætti á fund í klúbbnum 23. nóvember 2015 og sagði örlítið frá sér.

Sophie er 17 ára. Hún heitir réttu nafni Feng-Yun en kýs að kalla sig Sophie. Hún býr í borginni Taichung City í vesturhluta Tævans. Íbúar borgarinnar eru rúmlega 2,7 milljónir.

Faðir Sophie, Tzu-Hang, er dósent við háskóla í borginni. Móðir hennar, Wei-Chun, er heimavinnandi. Sophie á eldri bróður og yngri systur.

Sophie stundar nám í framhaldsskóla í heimaborg sinni. Hún er á matreiðslubraut. Auk námsgreina sem tengjast matreiðslu á ýmsa lund, lærir hún kínversku, ensku, sögu, landafræði, listir o.fl. Hún leggur sérstaka áherslu á eftirrétti í náminu. Helstu áhugamál hennar eru eftirréttir, flautuleikur og ljósmyndun.

 Á meðan Sophie dvelur á Íslandi sækir hún Menntaskólann í Kópavogi. Þar leggur hún stund á íslensku, matreiðslu, frönsku og bókmenntir.