Fréttir

24.10.2015

Hátíðarmálstofa til heiðurs Vigdísi

Dagana 22.-23. október 2015 var haldin alþjóðleg ráðstefna um borgaraleg réttindi kvenna í 100 ár í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna hér á landi. Ráðstefnan var haldin í Hörpu. Einn hluti af ráðstefnunni var hátíðarmálstofa til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands. Vigdís er félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg.

Ári eftir að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands árið 1980 tók Gro Harlem Brundtland við embætti forsætisráðherra Noregs. Á þessum tíma höfðu aðeins örfáar konur gegnt sambærilegum embættum í heiminum og aldrei á Norðurlöndunum. Á hátíðarmálstofunni deildu Vigdís og Gro Harlem Brundtland minningum frá tíma þeirra í embætti forseta og forsætisráðherra. Laura Ann Liswood, framkvæmdastjóri Council of Women World Leaders, tók einnig þátt í umræðunum en hún og Vigdís stóðu saman að stofnun samtakanna árið 1996.

Tan Lin, forstöðukona Women‘s Studies Institute of China og stjórnarkona í All-China Women‘s Federation flutti ávarp á hátíðarmálstofunni.

Jeb McAllister, lögfræðingur og fyrrum fréttaritari Time Magazine í Hvíta húsinu og fyrrum ritstjóri Time í London stýrði hátíðarmálstofunni.