Fréttir

29.9.2015

Heimsókn umdæmisstjóra

Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri íslenska rótarýumdæmisins 2015-2016 og eiginkona hans, Steinunn Ingólfsdóttir, heimsóttu Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg á klúbbfundi 28. september 2015. Magnús fjallaði um ýmsa þætti í sögu og starfi rótarýhreyfingarinnar og gerði grein fyrir áherslum íslenska rótarýumdæmisins á yfirstandandi starfsári.

Í ávarpi sínu rifjaði Magnús upp sögu rótarýhreyfingarinnar, markmið og grundvallarreglur. Hann nefndi að vaxtarbroddurinn væri í Asíulöndum. Hann fjallaði um ungmennastarfið í rótaract-klúbbum fyrir fólk á þrítugsaldri og í interact-klúbbum fyrir ungt fólk á framhaldsskólastigi. Hann gat þess að þessir ungmennaklúbbar hefðu ekki náð fótfestu hér á landi með sama hætti og víða erlendis.

Magnús benti á að K.R. Ravindran, alþjóðaforseti rótarýhreyfingarinnar hefur á stefnuskrá sinni að fjölga rótarýklúbbum og félögum í hreyfingunni. Hann hefur einnig beint því til klúbbanna að nýta internetið sem mest. Það sé samskiptamáti sem höfði til ungra félaga. Magnús nefndi í þessu sambandi að hann legði mikla áherslu á að íslensku rótarýklúbbarnir og rótarýumdæmið sjálft efldu vefsíður sínar.