Fréttir

7.9.2015

Frumkvöðlasetrið heimsótt

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg heimsótti Frumkvöðlasetrið (Innovation House) á Eiðistorgi, Seltjarnarnesi 7. september 2015. Þar tók María Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri setursins á móti hópnum. Einnig sóttu fundinn ellefu félagar í rótarýklúbbnum Tromsø Syd í Noregi ásamt tíu mökum og einn félagi í rótarýklúbbnum Stege í samnefndum bæ í Danmörku.

Íslendingurinn Bjarni Sigurðsson er núverandi forseti rótarýklúbbsins Tromsø Syd. Hann og Rannveig Gunnarsdóttir, forseti Miðborgarklúbbsins skiptust á klúbbfánum. Bjarni gat þess að klúbburinn Tromsø Syd hafi verið stofnaður 1970. Klúbbfélagar eru 38.


María Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Frumkvöðlaseturs benti á að Ísland og Noregur tengdust skemmtilega í setrinu því stofnandi þess væri hálf-Íslendingurinn og hálf-Norðmaðurinn Jon von Tetzchner. Í setrinu eru 16 nýsköpunarfélög um þessar mundir. Jón hefur einnig stofnað frumkvöðlasetur í þorpinu Magnolia í Gloucester, Massachusettes í Bandaríkjunum. Þar geta félög í íslenska frumkvöðlasetrinu haft tímabundna aðstöðu þegar þörf krefur.

Fulltrúar þriggja félaga í Frumkvöðlasetrinu kynntu starfsemi þeirra. Gunnar Helgi Gunnsteinsson sagði frá viðskiptahugmyndinni að baki greiðslulausninni Sway (www.swayapp.is). Geir Gunnarsson sagði frá vafranum Vivaldi (www.vivaldi.com) sem er verkefni á vegum Jóns von Tetzchner. Aðalsteinn Haukur Sverrisson sagði frá leikjafyrirtækinu Solid Clouds (www.solidclouds.com) sem er að þróa leikinn PROSPER.


Að loknum kynningunum var formlegum rótarýfundi slitið. Þá tók við spjall Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og félaga í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg við norsku rótarýfélagana sem höfðu sérstaklega óskað eftir að fá að hitta hana.


Ýmsar myndir af fundinum: