Fréttir

22.7.2015

Sumarferð 2015

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg fór í sína árlegu sumarferð 25.-28. júní 2015. Þetta var 18. sumarferðin (sjá lista yfir ferðirnar). Að þessu sinni var gist á Hóteli Bjarkalundi í Reykhólasveit í Austur-Barðarstrandasýslu og farið víða um sveitina. Ferðin var skipulögð af ferðanefnd klúbbsins, þeim Láru V. Júlíusdóttur, Margréti Guðmundsdóttur og Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur. Þórunn tók saman eftirfarandi ferðalýsingu.

Ferðinni var heitið að Hóteli Bjarkalundi fimmtudaginn 25. júní 2015. Fólk koma á staðinn á tímabilinu kl. 18.00- 24. Meirihluti hópsins var kominn vestur tímanlega fyrir yndælis kjötsúpu.

Um kvöldið var farin létt ganga umhverfis Berufjarðarvatn sem er beint niður af Bjarkalundi. Mikið fuglalíf er við vatnið.

Að morgni 26. júní lá leiðin niður að Reykhólum. Þar hitti hópurinn Svein Ragnarsson sem varð staðarleiðsögumaður hópsins. Gengið var niður að Langavatni með söguskýringum á leiðinni um byggðarlagið og síðan fuglalífið á þessu svæði.

Komið var til baka í hádegisverð á Hlunnindasýningunni á Reykhólum. Frábær heimalöguð „bátasúpa“ beið hópsins,  þ.e. paprikusúpa með brauði og kaffi á eftir en snætt var inn á safninu milli gamalla báta með sögufléttu frá safnstjóranum, Hörpu Eiríksdóttur. Hún sagði m.a. frá lífi æðarfuglsins frá pörun til dúnsængur í Dubæ. Ánægjuleg upplifun.

Að þessu loknu var ekið að kirkjustaðnum að Stað. Þar var gengið að hyrnunni fyrir ofan bæinn. Þetta var snörp ganga. Að henni lokinni kynntist hópurinn „beint frá býli hugsuninni“ og nokkrir keyptu sér reyktan rauðmaga, rúllupylsu eða reyktan sauð. Ekki beint hollustufæði.

Eftir þessa upplifun var farið í sund í Grettislaug á Reykhólum. Kvöldið var notalegt eftir fiskmáltíð, aðeins sungið og mikið spjallað og mörg þjóðmál leyst. Rannveig Gunnarsdóttir, verðandi foresti klúbbsins setti rótarýfund.

Á laugardeginum 27. júní var lagt upp í göngu að Vaðalfjöllum og jafnvel upp alla leið. Gengnir voru stígar upp og þá blasti við óviðjafnanlegt útsýni yfir Breiðafjörð og nærliggjandi firði.

Hluti hópsins lét duga að fara að gígtöppunum sem mynda strýtuna á Vaðalfjöllum. Hin hluti hópsins gekk alla leið upp. Hægt er að aka langleiðina að toppnum og voru tvö úr ferðinni þannig stödd með vandræði í hnjám.

Þegar hópurinn var kominn til baka að Bjarkalundi var haldið út að Borgum í stutta og snarpa för að álfa- og fuglabyggð á ægifögrum tanga sem gengur fram milli Króksfjarðar og Berufjarðar. Að því loknu héldu margir enn í sund á Reykhólum.

Kvöldverðurinn að þessu sinni var lambalæri og huggulegheit. Að því loknu tók við hinn frægi samsöngur klúbbsins við undirleik Tryggva Pálssonar og Þórhalls Runólfssonar sem báðir eru makar klúbbfélaga. Þeir hafa haldið uppi gítarspili og söng árum saman auk annarra tónlistarmanna sem hafa komið af og til í sumarferðir klúbbsins. Á ný var settur rótarýfundur undir stjórn Rannveigar verðandi forseta.

Veðrið lék við hópinn alla ferðina. Það hefði varla getað verið betra; sól og mikil blíða alla dagana þótt stundum blési nokkuð.

Ferðanefndin fékk enn og aftur hrós fyrir að finna árlega nýja og áhugaverða áfangastaði. Á lokakvöldinu kynnti nefndin Skagafjörð sem áfangastað næsta árs.