Fréttir

1.7.2015

Nýtt starfsár, ný stjórn

Þann 1. júlí 2015 hófst nýtt starfsár í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg. Samtímis tók við ný stjórn undir forystu Rannveigar Gunnarsdóttur. Stjórnarskiptin voru innsigluð með táknrænum hætti á stjórnarskiptafundi 29. júní. Í nýrri stjórn klúbbsins sitja Rannveig Gunnarsdóttir forseti, Thomas Möller viðtakandi forseti, Pétur Blöndal ritari, Árni Gunnarsson gjaldkeri, Sigríður Snæbjörnsdóttir stallari og Jón Bergmundsson fráfarandi forseti. Rannveig, Sigríður og Thomas hafa áður gegnt trúnaðarstörfum fyrir klúbbinn. Rannveig var ritari 2004-2005, Sigríður var gjaldkeri 2001-2002 og Thomas var ritari 2005-2006 og aftur 2013-2014.

Á stjórnarskiptafundi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg 29. júní 2015 voru stjórnarskipti í klúbbnum innsigluð með táknrænum hætti þegar Jón Bergmundsson, fráfarandi forseti hengdi forsetakeðjuna um háls Rannveigar Gunnarsdóttur, nýs forseta.


Í ávarpi sínu á fundinum fór Jón yfir það helsta í starfsemi klúbbsins á liðnu starfsári. Haldnir voru 42 fundir á starfsárinu. Fimm fundanna voru haldnir annars staðar en á Nauthóli, reglulegum fundarstað klúbbsins. Fimm klúbbfélagar héldu starfsgreinaerindi á starfsárinu. Haldið var klúbbþing þar sem innri mál klúbbsins voru rædd. Einnig var haldinn fundur með þjóðfundarfyrirkomulagi þar sem tiltekin atriði í starfsemi klúbbsins voru brotin til mergjar. Eins var gerð rafræn skoðanakönnun meðal klúbbfélaga. Árleg sumarferð klúbbsins var farin dagana 25.-28. júní 2015 um nágrenni Bjarkalundar.

Þrír nýir félagar voru teknir í klúbbinn á starfsárinu, þau Gunnhildur Arnardóttir, Svanhildur Blöndal og Sævar Kristinsson. Þá flutti Ásdís J. Rafnar sig í klúbbinn úr Grafarvogsklúbbnum. Tveir félagar gengu úr klúbbnum á starfsárinu vegna skuldbindinga sem skarast á við fundartíma klúbbsins. Þetta voru þau Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson. Í lok starfsársins eru klúbbfélagar 84, 39 karlar og 45 konur. Meðalaldur klúbbfélaga er tæp 60 ár, þar af eru tíu félagar 70 ára og eldri, 39 milli 60 og 69 ára, 16 milli 50 og 59 ára og 19 félagar undir fimmtugu. Í lok starfsársins eru 14 félagar undanþegnir mætingarskyldu því samanlagður líf- og klúbbaldur hefur náð 85 árum.

Samtals lagði klúbburinn tæplega 1,1 m.kr. til samfélagsverkefna á starfsárinu. Þar af runnu rúmlega 400 þús.kr. til Rótarýsjóðsins (Annual Fund) og tæplega 100 þús.kr. til baráttu rótarýhreyfingarinnar gegn lömunarveiki (PolioPlus Fund). Innanlands styrkti sjóðurinn Umhyggju - félag til stuðnings langveikum börnum, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, ungmennastarf íslenska rótarýumdæmisins og söfnun íslenska rótarýumdæmisins vegna höfuðljósa til notkunar á skurðstofum Landspítala háskólasjúkrahúss.

Hér má finna ávarp Jóns Bergmundssonar á stjórnarskiptafundinum: Arsskyrsla-2014-2015

Að ávarpi Jóns loknu fór Pétur Magnússon, gjaldkeri klúbbsins yfir reikninga hans fyrir starfsárið 2014-2015. Voru reikningarnir samþykktir af viðstöddum klúbbfélögum. 

Þá innsiglaði Jón stjórnarskiptin formlega með því að hengja forsetakeðjuna um háls Rannveigar Gunnarsdóttur, nýs forseta. Að því búnu sagði hún nokkur orð.