Fréttir

28.4.2015

Nýr klúbbfélagi

Á fundi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg 27. apríl 2014 var Sævar Kristinsson, verkefnastjóri á ráðgjafarsviði KPMG tekinn í klúbbinn. Hann verður fulltrúi starfsgreinarinnar starfsemi höfuðstöðva, starfsemi við rekstrarráðgjöf. Að Sævari meðtöldum eru klúbbfélagar 84, þar af 45 konur og 39 karlar.

Sævar Kristinsson (1960) lauk prófi í viðskiptafræði (cand. oecon.) frá Háskóla Íslands 1985. Hann lauk MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2003. Sama ár lauk hann burtfararprófi í einsöng frá Söngskóla Sigurðar Demetz.
 
Á námsárum í viðskiptafræðinni og að prófi loknu starfaði Sævar sem framkvæmdastjóri MAX-Vinnufatagerðar Íslands. Þaðan lá leiðin til Iðntæknistofnunar þar sem hann starfaði sem rekstrarráðgjafi og verkefnastjóri 1996-2000. Árið 2000 stofnaði Sævar ásamt öðrum ráðgjafarfyrirtækið Netspor. Þar gegndi hann starfi framkvæmdastjóra og rekstrarráðgjafa. Starfsemi þess sameinaðist KPMG 2013 og síðan hefur Sævar verið verkefnastjóri á ráðgjafarsviði KPMG með áherslu á stefnumótun og sviðsmyndir.

Samhliða ráðgjafarstörfum hefur Sævar miðlað þekkingu til annarra. Fyrst sem stundakennari í rekstrarstjórnun við Tækniskólann og Háskólann á Akureyri 1995-2000. Á tímabilinu 2012-2014 var hann jafnframt stundakennari í stefnumótun og sviðsmyndafræðum við Háskólann á Bifröst. Auk þess hefur hann komið að ritun greina og bóka, einkum um málefni tengd sviðsmyndum.

Sævar er í sambúð með  Ólöfu Kristínu Sívertsen, lýðheilsufræðingi og fagstjóra hjá heilsuskólum Skóla. Þau eiga tvo syni. Fyrir á Sævar tvo syni.