Fréttir
Heimsókn til Skeljungs
Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg heimsótti höfuðstöðvar Skeljungs í Reykjavík mánudaginn 23. mars 2015. Valgeir M. Baldursson, forstjóri félagsins tók á móti hópnum. Um tuttugu klúbbfélagar og makar sóttu fundinn.
Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs tók á móti hópnum og leiddi hann um húsnæði félagsins á efstu hæð að Borgartúni 26. Valgeir tók við starfi forstjóra í apríl 2014 en áður hafði hann gegst starfi framkvæmdastjóra neytendasviðs hjá félaginu og starfi fjármálastjóra. Eftir að hópurinn hafði þegið léttar veitingar rakti Valgeir sögu félagsins. Hún nær aftur til 1955 þegar félagið tók við starfsemi HF Shell á Íslandi sem starfað hafði frá 1928. Hann nefndi einnig að tíðar eigendabreytingar hefðu einkennt starfsemi félagsins síðustu ár. Núverandi eigendur eru að mestu leyti stofnanafjárfestar. Þeir eignuðust félagið í desember 2013.
Valgeir fór yfir starfsemi Skeljungs sem er býsna fjölbreytt. Hún nær ekki aðeins til bensíns og olíuvara heldur einnig áburðar í landbúnaði og ýmiss konar matvæla- og iðnaðarhráefnis. Þannig er félagið t.d. umsvifamikill innflytjandi sykurs. Þá á Skeljungur olíufélagið Magn í Færeyjum sem rekur þar fjölda bensínstöðva auk þess að sinna fyrirtækjamarkaði og selja gasolíu til húshitunar.
Valgeir nefndi að núverandi stjórn og stjórnendur legðu áherslu á að skerpa starfsemi Skeljungs. Í því fælist einkum að einbeita sér að því sem félagið er best í og hætta öðrum rekstri. Þannig hefði verið ákveðið í fyrra að félagið myndi hætta rekstri þægindaverslana á bensínstöðvum félagsins. Þess í stað var samið við rekstrarfélag 10-11 um að annast þann rekstur. Þá fylgdist félagið grannt með viðhorfum viðskiptavina og m.a. á grundvelli skoðana þeirra hefði verið á kveðið að leggja meiri áherslu á vörumerkið Orkuna fremur en Shell. Því væru Orku-bensínstöðvar mun fleiri en Shell-bensínstöðvar.Breyttar og skarpari áherslur í starfsemi félagsins hefðu skilað aukinni arðsemi.