Fréttir

9.2.2015

Starfsgreinaerindi Írisar hjá Landsneti

Fundur í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg 9. febrúar 2015 var haldinn í höfuðstöðvum Landsnets við Gylfaflöt í Grafarvogi í Reykjavík. Fundurinn var haldinn í boði Írisar Baldursdóttur, deildarstjóra kerisstjórnar og markaða sem jafnframt eru félagi í rótarýklúbbnum. Á fundinum flutti Íris starfsgreinaerindi. Rúmlega tuttugu klúbbfélagar og makar sóttu fundinn. 

Í erindi sínu fór Íris yfir stofnun Landsnets 2005 og hlutverk fyrirtækisins lögum samkvæmt. Meginhlutverk þess er að flytja raforku og stjórnun raforkukerfisins sem spannar allt landið. Fyrirtækið hefur einkarétt á þessu sviði. Hins vegar eru nokkrir aðilar sem framleiða og selja raforku til stórnotenda, annarra fyrirtækja og almennings. Auk reksturs raforkukerfisins er fyrirtækinu heimilt að selja sérfræðiþekkingu, reka stundarmarkað með raforku (e. spot market) og gefa út vottorð sem staðfesta að raforka sé framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Erlend fyrirtæki hafa keypt slík vottorð í vaxandi mæli á síðari árum.


Íris fór yfir skipurit Landsnets. Meginsvið fyrirtækisins eru kerfisþróun, framkvæmdir, netrekstur og kerfisstjórn/markaður. Hjá því starfa um 120 manns samanborið við rúmlega 80 þegar fyrirtækið var stofnað. Fjölgunin skýrist fyrst og fremst af því að fyrirtækið hefur yfirtekið ýmis verkefni sem áður var úthýst til Landsvirkjunar.

Íris gat þess að Landsnet eigi að tryggja að jafnvægi ríki á milli framboðs orku og eftirspurnar. Raforkuframleiðslunni er stýrt með hliðsjón af þessu. Umframorku sem enginn notar er ekki hægt að geyma. Hún gat þess að fyrirtækið ætti að viðhalda hæfni flutningskerfisins til lengri tíma. Öryggi, umhverfi og verðmætasköpun eru þættir sem lagðir eru til grundvallar þegar útfærsla framtíðarflutningskerfisins er mótuð.

Fram kom að Landsnet bæri ábyrgð á rekstraröryggi raforkukerfisins í heild. Til að sinna því hlutverki leggur fyrirtækið áherslu á þróun hátæknilausna sem veita rauntímaupplýsingar um stöðugleika raforkukerfisins. Íris gat þess að einn helsti gallinn á raforkukerfinu væri takmörkuð geta til að flytja raforku milli landshluta, kerfið væri einfaldlega ekki nógu afkastamikið. Þessu væru gerð rækileg skil í nýjustu kerfisáætlun fyrirtækisins. Hver kerfisáætlun tekur til tíu ára.  

Landsnet á í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila um þróun snjallnetslausna fyrir raforkukerfið. Íris gat þess að þrátt fyrir smæð raforkukerfisins væri það tæknilega vel búið í samanburði við ýmis nágrannalönd og mun meira um sjálfstýringu og fjarstýringu.

Loks ræddi Íris um þær hættur sem gætu fylgt eldsumbrotum í Bárðarbungu. Fyrirtækið fór í ítarlega áhættugreiningu sem m.a. leiddi til þess að í janúar 2015 var eitt háspennumastur í Sigöldulínu 3 flutt um 32 metra úr gömlu farvegi Þjórsár.