Fréttir
Heimsókn til Flugfélagsins
Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg heimsótti Flugfélag Íslands 27. október 2014. Þar tók Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri félagsins og félagi í rótarýklúbbnum á móti hópnum. Árni flutti erindi um starfsemi Flugfélagsins og málefni Reykjavíkurflugvallar.
Fundurinn var haldinn í flugskýli 4. Þar er viðgerðaaðstaða fyrir þrjár flugvélar. Í skýlinu voru tvær Fokker-flugvélar, önnur í meiriháttar skoðun en hin í daglegu eftirliti. Auk tveggja Fokker-flugvéla má koma einni Dash-flugvél fyrir í skýlinu. Skrifstofubygging Flugfélagsins er áfest flugskýlinu.
Í erindi sínu fór Árni yfir þróun innanlandsflugs síðustu áratugi. Áfangastöðum hefur fækkað mikið en farþegum hefur fjölgað. Flugfélagið flýgur núorðið eingöngu til þriggja staða innanlands, Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða. Auk þess fljúga Ernir til Bíldudals, Gjögurs, Hafnar í Hornafirði, Húsavíkur og Vestmannaeyja og Norlandair til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar. Flugfélagið flýgur til fimm staða á Grænlandi og til Þórhafnar í Færeyjum.
Árni greindi frá helstu atriðum í starfsemi Flugfélagsins, þ.á m. kannanir sem félagið hefur gert á erindum farþega, hverj greiðir fyrir ferðina og viðhorf farþega til ýmissa atriða. Þá ræddi hann um málefni Reykjavíkurflugvallar og rifjaði m.a. upp grein sem birtist í tímaritinu Flug fyrir tæplega sjötíu árum þar sem fjallað var um framtíðarstaðsetningu á innanlandsfluginu, þ.á m. hvort það skyldi flutt til Keflavíkurflugvallar eða nýr flugvöllur byggður í nágrenni Reykjavíkur. Þetta sýnir vel að núverandi vangaveltur um þetta efni eru síður sen svo nýjar af nálinni. Einnig ræddi hann um þriðju flugbrautina (neyðarbrautina) og skipulagsmál á flugvallarreitnum.