Fréttir
Heimsókn til Flugfélagsins
Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg heimsótti Flugfélag Íslands 27. október 2014. Þar tók Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri félagsins og félagi í rótarýklúbbnum á móti hópnum. Árni flutti erindi um starfsemi Flugfélagsins og málefni Reykjavíkurflugvallar.
Fundurinn var haldinn í flugskýli 4. Þar er viðgerðaaðstaða fyrir þrjár flugvélar. Í skýlinu voru tvær Fokker-flugvélar, önnur í meiriháttar skoðun en hin í daglegu eftirliti. Auk tveggja Fokker-flugvéla má koma einni Dash-flugvél fyrir í skýlinu. Skrifstofubygging Flugfélagsins er áfest flugskýlinu.
Árni greindi frá helstu atriðum í starfsemi Flugfélagsins, þ.á m. kannanir sem félagið hefur gert á erindum farþega, hverj greiðir fyrir ferðina og viðhorf farþega til ýmissa atriða. Þá ræddi hann um málefni Reykjavíkurflugvallar og rifjaði m.a. upp grein sem birtist í tímaritinu Flug fyrir tæplega sjötíu árum þar sem fjallað var um framtíðarstaðsetningu á innanlandsfluginu, þ.á m. hvort það skyldi flutt til Keflavíkurflugvallar eða nýr flugvöllur byggður í nágrenni Reykjavíkur. Þetta sýnir vel að núverandi vangaveltur um þetta efni eru síður sen svo nýjar af nálinni. Einnig ræddi hann um þriðju flugbrautina (neyðarbrautina) og skipulagsmál á flugvallarreitnum.