Fréttir

18.9.2014

Tveir nýir klúbbfélagar

Tveir nýir klúbbfélagar voru teknir í Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg á klúbbfundi 15. september 2014. Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísis og stundakennari við Háskólann í Reykjavík er fulltrúi starfsgreinarinnar starfsemi höfuðstöðva, starfsemi við rekstrarráðgjöf. Svanhildur Blöndal, sérþjónustuprestur á Hrafnistu í Reykjavík og Hrafnistu í Hafnarfirði er fulltrúi starfsgreinarinnar umönnun á dvalarheimilum. Með inngöngu Gunnhildar og Svanhildar fjölgar klúbbfélögum í 85, þar af eru 46 konur og 39 karlar. Er þetta trúlega eini rótarýklúbburinn á landinu þar sem konur eru í meirihluta.

Gunnhildur Arnardóttir (1957) nam stjórnmálafræði við Háskóla Íslands 1994-1996. Hún lauk B.Sc.-prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík 2005 og MBA-prófi frá sama skóla 2008.

Gunnhildur var viðskiptastjóri hjá Prentsmiðjunni Odda 1976-1987, skrifstofustjóri og mannauðsstjóri hjá Samvinnuferðum-Landsýn 1987-2000 og í sambærilegu starfi hjá ZOOM 2000-2002. Hún var framkvæmdastjóri mannauðssviðs Securitas 2005-2010 þegar hún tók við starfi framkvæmdastjóra Stjórnvísis, félags um framsækna stjórnun. Sama ár stofnaði Gunnhildur ráðgjafarfyrirtækið CEO Huxun með Trausta Harðarsyni.

Gunnhildur hefur kennt námskeiðið Leiðir til úrlausna kerfjandi starfsmannamála við Hákskólann í Reykjavík um árabil. Hún sat í stjórn Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga 2005-2009, í stjórn Embla 2009-2011 (stjórnarformaður 2010-2011) og í fagráði MBA-náms í Háskólanum í Reykjavík frá 2009.

Gunnhildur er gift Hafsteini Jónssyni, múrarameistara. Þau eiga þrjú uppkomin börn og þrjú barnabörn.

 

Svanhildur Blöndal (1957) lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 2002. Hún hefur þjónað sem sérþjónustuprestur frá 2005 á Hrafnistu í Reykjavík,  Vífilsstöðum og á Hrafnistu í Hafnarfirði. Svanhildur er fyrsti presturinn sem ráðinn er í fullt starf hjá Hrafnistuheimilum. Prestþjónustan felst í sálgæslu, stuðningsviðtölum, bænastundum, helgihaldi, handleiðslu og fræðslu. Sem prestur sinnir hún andlegri og trúarlegri þjónustu við heimilisfólk, aðstandendur þeirra og starfsfólk. 

Svanhildur lauk hjúkrunarprófi 1979 og starfaði bæði á gjörgæsludeild og geðdeild Landspítalans. Einnig starfaði hún um skeið á borgarsjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn og í Blóðbankanum. Hún lauk sérnámi í heilsugæsluhjúkrun og hefur sérfræðileyfi á því sviði. Eftir sérnámið starfaði hún á barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.

Svanhildur sat í stjórn Heilsugæslufélagsins, í stjórn Nýrrar dögunar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð og hefur setið í stjórn Ellimálanefndar Þjóðkirkjunnar.  Þá var hún önnur stofnenda Tvíburafélagsins (nú Fjölburafélagsins).

Svanhildur er gift Júlíusi Vífli Ingvarssyni, borgarfulltrúa. Þau eiga þrjú uppkomin börn. Fyrir átti Júlíus Vífill einn son. Barnabörnin eru fjögur.