Fréttir

25.8.2014

Nýr klúbbfélagi

Ásdís J. Rafnar, hæstaréttarlögmaður hefur flutt sig í Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg. Hún var áður í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Grafarvogur (síðan 10. júní 2008). Ásdís hefur lengst af unnið við lögmannsstörf en tók sér hlé frá þeim störfum 2011 vegna annarra verkefna.

Ásdís lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands 1979. Hún stundaði framhaldsnám við London School of Economics 2002-2004 í evrópurétti (stjórnskipun og stjórnsýslurétti), samanburðarsifjarétti og þróun löggjafar með nýrri tækni í læknavísindum. Þá nam hún sáttamiðlun 2007.

Ásdís var fréttmaður á RÚV, blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar lögfræðingur hjá Félagi einstæðra foreldra fram að stofnun lögfræðistofunnar Lögmannsstofunnar 1986 sem hún átti og rak í félagi við aðra lögmenn um árabil. Hún var framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands 1999-2002. Að loknu framhaldsnámi í London sneri hún sér að lögmennsku á ný, fyrst í eigin nafni og 2006-2011 á vettvangi Borgarlögmanna í félagi við aðra lögmenn.

Ásdís hefur sinnt félagsstörfum og störfum í þágu samfélagsins. Hún hefur m.a. setið í stjórnum Lögfræðingafélags Íslands og Lögmannafélags Íslands (varaformaður 1993-1994) og var framkvæmdastjóri Tímarits lögfræðinga um skeið. Hún sat í Útvarpsréttarnefnd 2004-2011, var formaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa 2005-2013 og hefur setið í Rannsóknarnefnd samgönguslysa frá 2013. Þá hefur hún setið í áfrýjunarnefnd um tiltekin mál tengd þjóðkirkjunni frá 1999.

Ásdís er gift Jóni B. Stefánssyni, skólameistara Tækniskólans. Hún á tvær uppkomnar dætur og þrjú barnabörn.