Fréttir

11.7.2014

Sumarferð 2014

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg fór í sína árlegu sumarferð 26.-29. júní 2014. Þetta var 17. sumarferð klúbbsins (sjá lista yfir ferðirnar). Að þessu sinni var gist að Geirlandi í nágrenni Kirkjubæjarklausturs og farið um Landbrot, Meðalland og Lakasvæðið. Ferðin var skipulögð af ferðanefnd klúbbsins, þeim Margréti Guðmundsdóttur, Ernu Bryndísi Halldórsdóttur, Láru V. Júlíusdóttur og Þórunni Sveinbjörnsdóttur. Lára tók saman stutta ferðalýsingu.

Sumarferð miðborgarklúbbsins þetta árið var að Klaustri og var áherslan annars vegar á byggðir undan Síðu, Landbrot og Meðalland, en hins vegar á Lakasvæðið. Gist var að Geirlandi.

Hópurinn safnaðist saman á fimmtudagskvöldið og haldið var inn dalverpið ofan við Geirland.  Þar kom í ljós fallegur foss í Merkuránni sem hafði verið virkjaður í árdaga virkjanaframkvæmda hér á landi. Mjög fróðlegt fyrir rafmagnsverkfræðinginn í hópnum.

Næsta morgun bættist í hópinn leiðsögumaður, Jóna Björk Jónsdóttir frá Mörtungu, sem þekkti allt og alla í sveitinni auk þess sem hún var hafsjór af fróðleik um jarðfræði, plöntur og fleira. Í Landbrotinu var skoðaður manngerður garður, Bjarnargarður,  sem talið er að sé frá því fyrir skráð landnám, komið við í Tröllshyl, sem er hluti af gömlum árfarveg Skaftár og ekið fram hjá  glæstum býlum og örrætiskotum.  Á Hnausum í Mellalandi hittum við fræðaþulinn Vilhjálm Eyjólfsson sem kominn er á tíræðisaldur og býr þarna einn.  Hann bauð okkur á baðstofuloftið hjá sér þar sem hann hélt fyrir okkur fyrirlestur um sveitina sína, minnisverða atburði og þá starfsemi sem lengi var rekin þarna á loftinu að líkna þeim sem lágu fyrir dauðanum. Hann telur bæinn að Hnausum vera mjög gamlan og elsta hluta hans jafnvel frá 12. öld. Við snæddum nestið við kirkjuna í Langholti og hlýddum á söguna af flutningi kirkna á svæðinu vegna Skaftáreldanna 1783, en áður hafði kirkjustaðurinn verið í Hólmaseli. Við gengum í átt til strandar og skoðuðum eyðibýlið í Sandaseli og gengum í átt að  Söndum, sem nú stendur á hólma úti í Kúðafljóti.  Á leiðinni til baka var stoppað að Leiðvelli sem er fornt höfuðból við Kúðafljót, en er nú komið í eyði, fór undir sand 1944. Síðasta stoppið var að Hólmi og Sverrir Valdimarsson bróðursonur Bjarna Runólfssonar í Hólmi sóttur heim. Að Hólmi er vagga rafvirkjunar á Íslandi og Bjarni frægur virkjanasmiður. Þarna eru mikil mannvirki, reisulegt íbúðarhús, skólahús og smiðja.  Allt er þetta í mikilli niðurnýðslu og ekki vildi betur til en svo að einn ferðafélaginn féll niður í sprungu á hlaðinu og fótbrotnaði illa.

Hin ágæta hljómsveit ferðaklúbbsins var nokkuð fáliðuð í þetta skiptið en slegið var upp hljómleikum utan dyra í blíðunni um kvöldið.

Næsta dag var svo haldið inn í Laka.  Þótt leiðin sé ekki löng í kílómetrum talið er hún seinfarin og ævintýri líkast að mjakast úr byggð inn á heiðar, fylgjast með og heyra sögur eyðibýlanna sem eru þarna lengst inn eftir öllu, Heiðarsel og Eintúnaháls. Loks komum við inn að Laka, sem eins og kunnugt er stendur í miðri gígaröðinni sem varð til í Skaftáreldagosinu 1783.  Gígarnir eru sagðir vera um 100 á um 25 km langri sprungu. Veður var bjart og stillt en sól ekki mikil. Við gengum á fjallið sem er á miðri sprungunni og hún gengur í raun þar í gegn.  Fjallasýn var ákjósanleg og stórkostlegt að standa á toppi Laka og virða fyrir sér fjallahringinn, horfa á Vatnajökul og sjá hvar Skaftá rennur á breiðum eyrum langa vegu, fjöllin í kringum Langasjó, Sveinstind, virða fyrir sér Skaftártungurnar og Mýrdalsjökul og hlýða á fróðleik um hamfarirnar sem þarna urðu fyrir 230 árum. Áfram var haldið og gígarnir skoðaðir.  Við stoppuðum við Tjarnargíg og gengum og skoðuðum hvar hraunelvan hafði gengið.

Á laugardagskvöldið var svo fínasta veisla á Geirlandi sem endaði með söng og tralli.

Sunnudaginn notaði fólk svo til heimferðar í besta veðri.

Ferðanefndin þakkar öllum sem komu að málum, gestgjöfum, fararstjóra og ferðafélögum fyrir samstarfið og samveruna.