Fréttir

1.7.2014

Nýtt starfsár, ný stjórn

Þann 1. júlí 2014 hófst nýtt starfsár í Rótarýklúbbnum Reykjavík Miðborg. Samtímis tók við ný stjórn undir forystu Jóns Bergmundssonar. Stjórnarskiptin voru innsigluð á stjórnarskiptafundi 30. júní.

Í nýrri stjórn Rótarýklúbbsins Reykjavík-Miðborg sitja:

Jón Bergmundsson forseti, Rannveig Gunnarsdóttir viðtakandi forseti, Guðrún Ragnarsdóttir ritari, Pétur Magnússon gjaldkeri, Jóhanna Gunnlaugsdóttir stallari og Kristín Guðmundsdóttir fráfarandi forseti.

Jóhanna, Jón og Rannveig hafa áður gegnt trúnaðarstörfum fyrir klúbbinn. Jóhanna var ritari starfsárið 2000-2001, Rannveig var ritari 2004-2005 og Jón var stallari 2009-2010.

Á stjórnarskiptafundi á Nauthóli 30. júní 2014 voru stjórnarskiptin innsigluð þegar Kristín Guðmundsdóttir, fráfarandi forseti hengdi forsetakeðjuna um háls Jóns Bergmundssonar, nýs forseta.

Í ávarpi sínu á fundinum fór Kristín yfir það helsta í starfsemi klúbbsins á liðnu starfsári. Haldinn var 41 fundur að viðbættum stjórnarskiptafundinum í lok starfsársins. Sex af þessum fundum voru haldnir annars staðar en á Nauthóli, reglulegum fundarstað klúbbsins. Árleg sumarferð klúbbsins var farin dagana 27.-29. júní um nágrenni Kirkjubæjarklausturs.

Þrír nýir félagar voru teknir í klúbbinn á starfsárinu, þau Ari Kristinn Jónsson, Hrefna Sigríður Briem og Íris Baldursdóttir. Þá gengu þær Anna Sigríður Pálsdóttir og Hanna Kristín Guðmundsdóttir til liðs við klúbbinn á ný eftir að hafa hætt fyrir nokkrum árum vegna starfa sinna. Tveir félagar gengu úr klúbbnum á starfsárinu, þá Guðjón Friðriksson og Steinunn Sigurðardóttir. Erna Bryndís Halldórsdóttir lést 17. júní 2013. Í lok starfsársins eru klúbbfélagar 82, 39 karlar og 43 konur. 21 félagi er undir fimmtugu, 18 á milli fimmtugs og sextugs, 36 á milli sextugs og sjötugs og sjö eldri en sjötugt. Meðalaldur klúbbfélaga er 59 ár og meðalklúbbaldur þeirra 12,2 ár.

Á starfsárinu styrkti klúbburinn Umhyggju, Styrktarfélag krabbameinsveikra barna, Bleiku slaufuna og háskólanema til að kaupa sérhæfða tölvu vegna náms auk þess sem klúbburinn lagði fé í Rótarýsjóðinn.

Klúbburinn fóstraði skiptinemann Daria Megdalena Wittwer, 16 ára stúku frá Sviss. Hún bjó megnið af dvalartíma sínum í Garðabæ hjá foreldrum íslensks skiptinema og gekki í Fjölbrautaskóla Garðabæjar. Undir lokin bjó hún hjá klúbbfélaganum Hönnu Maríu Siggeirsdóttur.

Klúbburinn fagnaði 20 ára afmæli 30. maí 2014. Á hátíðarsamkomu rakti Sólveig Pétursdóttir, fyrsti forseti klúbbsins aðdragandann að stofnun hans. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur og maki eins klúbbfélaga flutti hátíðarræðu.

Hér má finna ávarp Kristínar Guðmundsdóttur á stjórnarskiptafundinum í heild sinni:  Arsskyrsla-2013-2014

Að ávarpi Kristínar loknu fór Esther Guðmundsdóttir, gjaldkeri yfir reikninga félagsins fyrir starfsárið 2013-2014. Voru reikningarnir samþykktir af viðstöddum klúbbfélögum. 

Þá innsiglaði Kristín stjórnarskiptin formlega með því að hengja forsetakeðjuna um háls Jóns Bergmundssonar nýs forseta. Að því búnu sagði hann nokkur orð.