Fréttir

28.5.2014

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg fagnar tuttugu ára afmæli

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg fagnaði tuttugu ára afmæli sínu á veglegri afmælishátíð 26. maí 2014. Fjöldi klúbbfélaga og gesta sótti afmælishátíðina. Björn Bjarndal Jónsson, umdæmisstjóri íslenska rótarýumdæmisins flutti klúbbnum afmæliskveðju frá rótarýhreyfingunni, greindi frá  því að rótarýumdæmið hefði lagt fé til Rótarýsjóðsins í tilefni afmælisins og afhenti klúbbnum skjal frá forseta Rotary International með þakklæti fyrir að vinna í samræmi við kjörorð hreyfingarinnar. Sólveig Pétursdóttir, fyrsti forseti klúbbsins ryfjaði upp stofnun klúbbsins. Geir H. Haarde, maki klúbbfélaga og félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur flutti ávarp á léttu nótunum. Loks var flutt tónlist. Hátíðin var undir styrkri stjórn Kristínar Guðmundsdóttur, forseta klúbbsins og veislustjórans Gunnars Svavarssonar sem jafnframt er stallari klúbbsins. 

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg var stofnaður 30. maí 1994 í Gyllta salnum á Hótel Borg eftir undirbúningsfund 25. apríl 1994. Á stofnfundinum voru teknir inn 22 félagar og 13 bættust við síðar þannig að stofnfélagar voru 35. Fyrsti reglulegi fundur klúbbsins var haldinn 3. október 1994. Á fundi 12. desember 1994 var samþykkt tillaga Daða Guðbjörnssonar, listmála að fána klúbbsins sem er með tveimur öndvegissúlum auk merkis Rotary International og nafns klúbbsins. 

Fullgilding klúbbsins af hálfu Rotary International tók gildi 1. júlí 1995. Fullgildingarhátíð hans var haldin 16. nóvember 1995 í Gyllta salnum á Hótel Borg.

Sólveig Pétursdóttir, fyrsti forseti klúbbsins ryfjaði þessa sögu upp í ávarpi sínu á afmælishátíðinni 26. maí 2014. Auk hennar sátu í fyrstu stjórninni Birgir Ómar Haraldsson, varaforseti, Kristín Guðmundsdóttir, gjaldkeri (núverandi forseti klúbbsins), Brynjólfur Helgason, ritari og Garðar Siggeirsson, stallari. Sólveig nafngreindi nokkra einstaklinga í Rótarýklúbbi Reykjavíkur, móðurklúbbs hins nýja klúbbs, og íslenska rótarýumdæminu sem tóku virkan þátt í stofnun klúbbsins: Birgi Ísleif Gunnarsson, Pál Sigurjónsson, Jón Hákon Magnússon, Eirík Hans Sigurðsson, Ólaf Helga Kjartansson, Valdimar Ólafsson og Steinar Friðgeirsson.

Sólveig gat þess að á fullgildingarhátíð klúbbsins 16. nóvember 1995 hefði Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands verið tekin í klúbbinn. Var hún 38. klúbbfélaginn. Svo skemmtilega vill til að Vigdís var líklega fyrsta konan til að flytja fyrirlestur í móðurklúbbnum Rótarýklúbbi Reykjavíkur. Lesa má um stofnun klúbbsins í grein sem Sólveig ritaði í blað klúbbsins, Punkta og pistla, sem kom út í maí 1996.

Í ávarpi sínu gat Geir Haarde þess að hann og Inga Jóna Þórðardóttir, ein af stofnfélögunum í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg hefðu dregið það í mörg ár að fara í hina árlegu sumarferð klúbbsins. Eftir fyrstu ferðina var hins vegar ekki aftur snúið og hafa þau átt margar ánægjustundir í þessum ferðum hins síðari ár. Annars sló Geir á létta strengi og fékk glaðlegar undirtektir.

Að borðhaldi loknu söng Þórunn Pálína Jónsdóttir (Tóta) nokkur lög við gítarundirleik Ragnars Emilssonar.