Fréttir

5.5.2014

Starfsgreinaerindi Péturs í Hrafnistu

Fundur í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg 5. maí 2014 var haldinn á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hrafnistu í Reykjavík. Um 30 klúbbfélagar og makar sóttu fundinn. Gestgjafi var Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu en hann er jafnframt félagi í rótarýklúbbnum. Á fundinum flutti Pétur starfsgreinaerindi.

Í starfsgreinaerindi sínu rakti Pétur aðdraganda að stofnun Sjómannadagsráðs í nóvember 1937. Starfsemi á vegum ráðsins hefur stóreflst í áranna rás, þ.á m. sá þáttur sem lítur að því að reisa og reka dvalarheimili, hjúkrunarheimili, vistunar- og endurhæfingaraðstöðu, íbúðir og leiguíbúðir, einkum fyrir aldraða sjómenn og sjómannsekkjur.


Pétur nefndi að Hrafnista, sem hann er í forsvari fyrir, væri eitt af nokkrum fyrirtækjum í eigu Sjómannadagsráðs. Önnur væru t.a.m. Happdrætti DAS og Laugarásbíó. Hrafnista rekur hjúkrunar- og dvalarheimili á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, við Laugarás í Reykjavík, í Hafnarfirði og í Kópavogi. Íbúar á þessum þremur stöðum eru rúmlega 500. Þá veitir Hrafnista íbúum í leiguíbúðum á vegum Sjómannadagsráðs og íbúðum fyrir aldraða á vegum annarra í nágrenni Hrafnistuheimilanna ýmiss konar þjónustu. Að starfsfólki meðtöldu er Hrafnista samfélag um 2.000 einstaklinga.

Pétur fór yfir þær breytingar sem orðið hafa á öldrunarvistun í áranna rás. Elliheimili í hefðbundnum skilningi þess orðs heyra nánast sögunni til. Þess í stað er áhersla lögð á heimahjúkrun og heimaþjónustu við aldraða eins lengi og unnt er og síðan taka við hjúkrunarheimili. Hann sagði frá breytingum sem orðið hafa á aðbúnaði íbúa á Hrafnistu, t.a.m. að herbergi hafa verið stækkuð og einstaklingsbúseta orðið ráðandi. Loks fór hann yfir framtíðarsýn Hrafnistu í ljósi fyrirliggjandi spár um mannfjöldaþróun hér á landi.

Að loknu erindi Péturs fóru hann og Sigrún Stefánsdóttir, forstöðumaður heimilins í Laugarásnum með hópinn í skoðunarferð um húsakynnin.