Fréttir

3.3.2014

Tveir nýir klúbbfélagar

Tveir nýir félagar voru teknir í Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg á klúbbfundi 3. mars 2013. Hrefna Sigríður Briem, forstöðumaður í Háskólanum í Reykjavík er fulltrúi starfsgreinarinnar fræslustarfsemi og Íris Baldursdóttir, deildarstjóri hjá Landsneti er fulltrúi starfsgreinarinnar starfsemi arkitekta og verkfræðinga. Með inngöngu Hrefnu Sigríðar og Írisar fjölgar klúbbfélögum í 83, þar af eru 44 konur og 39 karlar.

Hrefna Sigríður Briem (1969) lauk B.Sc.-prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 2002 og meistaraprófi í faginu frá sama skóla 2004. Á námsárunum starfaði hún í fjármáladeild Netverks. Að námi loknu starfaði hún um skeið sem sérfræðingur í hagdeild Húsasmiðjunnar en réðst sem viðskiptastjóri til Byrs sparisjóðs 2005. Frá 2007 hefur Hrefna verið forstöðumaður B.Sc.-náms við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík ásamt því að kenna við deildina og sitja í ráðum, starfshópum og nefndum á vegum skólans. Samhliða aðalstörfum sínum hefur hún kennt á námskeiðum hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, við Spariskóla sparisjóðanna, hjá Endurmenntun Háskóla Íslands auk stundakennslu við verkfræðideild Háskóla Íslands. 

Sambýlismaður Hrefnu Sigríðar er Bjarni Þór Þórólfsson. Hún á tvö börn og eina stjúpdóttur.

Íris Baldursdóttir (1976) lauk B.Sc.-prófi í rafmangs- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands 1999. Hún lauk meistaraprófi í rafmagnsverkfræði frá KTH (Kungliga Tekniska Högskolan) í Stokkhólmi 2001. Að námi loknu starfaði Íris hjá ABB í Svíþjóð, fyrst sem sérfræðingur og síðar sem verkefnastjóri, m.a. í Mexíkó í eitt ár. Íris hóf störf hjá Landsneti 2006. Í upphafi var hún yfirmaður áætlanagerðar, síðar deildarstjóri kerfisþróunardeildar og frá 2010 hefur hún verið deildarstjóri kerfisstjórnar og markaðar. 

Íris var formaður raforkuspárnefndar 2006-2010, sat í verkefnisstjórn Grænu orkunnar 2011-2012 og frá 2009 hefur hún setið í stýrinefnd vindorkuverkefnis á vegum Norðurlandaráðs og frá 2013 í stýrinefnd viðamikils evrópsks rannsóknarverkefnis um öryggi raforkukerfa sem m.a. er fjármagnað af rannsóknaráætlun Evrópusambandsins.

Íris er gift Ólafi Magnússyni og eiga þau tvær dætur.