Fréttir

10.1.2014

Endurkoma sr. Önnu Sigríðar

Sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, dómkirkjuprestur hefur á ný gengið til liðs við Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg eftir nokkurra ára hlé vegna anna. Hún gekk upphaflega í klúbbinn í júlí 1998.

Anna Sigríður lauk kennaraprófi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1968. Hún starfaði sem myndmenntakennari við Barnaskóla Garðabæjar 1969-1971 og Hvassaleitisskóla 1970-1973. Eftir búsetu í London 1973-1975 kenndi hún við æfingadeild Kennaraháskóla Íslands 1975-1985.

Á þessum tíma hlaut Anna Sigríður þjálfun sem ráðgjafi fyrir aðstandendur áfengis- og fíkniefnaneytenda og starfaði sem slíkur 1985-1988. Á árunum 1988-1991 sá hún um fjölskyldufræðslu fyrir aðstandendur sjúklinga á meðferðarheimilinu að Fitjum á Kjalarnesi. Þeir voru frá Svíþjóð, Noregi, Færeyjum og Grænlandi.

Anna Sigríður hóf nám við guðfræðideild Háskóla Íslands 1991 og lauk embættisprófi haustið 1996. Hún starfaði við fjölskylduráðgjöf samhliða námi. Hún var vígð prestur Grafarvogssafnaðar í september 1997. Áratug síðar í september 2007 var hún valin dómkirkjuprestur. Samhliða prestsstarfinu nam hún handleiðslu og handleiðslutækni við Endurmenntun Háskóla Íslands og lauk því vorið 2000. Í kjölfarið hefur hún veitt kennurum, námsráðgjöfum, félagsráðgjöfum og nemendum í fjölskyldumeðferðarnámi við Endurmenntun handleiðslu.

Anna Sigríður hefur setið í stjórn Fjölskylduþjónustu krikjunnar. Þá vann hún með starfshópi sem leiddi samfylgdarkerfi guðfræðinema og bar ábyrgð á starfsþjálfun prestsefna. Hún var fulltrúi presta í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra á kirkjuþingi 2002 og sat á þinginu til 2005. Hún var valin annar varamaður í kirkjuráð á kirkjuþingi 2006.

Anna Sigríður er fráskilin, á þrjá uppkomna syni og níu barnabörn.