Fréttir

25.11.2013

Endurkoma Hönnu Kristínar

Hanna Kristín Guðmundsdóttir

Hanna Kristín Guðmundsdóttir hefur á ný gengið til liðs við Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg eftir nokkurra ára fjarveru.

Hanna Kristín lauk prófi í hársnyrtifræði frá Iðnskólanum í Reykjavík 1969. Ári síðar stofnaði hún hársnyrtistofuna KRISTU sem hefur verið stærsta hársnyrtistofa landsins síðustu tvo áratugi. Hún hefur verið faglegur framkvæmdastjóri stofunnar frá stofnun.

Hanna Kristín hefur verið atkvæðamikil í fagi sínu. Hún hefur haldið nánast óteljandi námskeið og væntanlega kennt og útskrifað fleiri hársnyrtinema en nokkur annar hársnyrtimeistari hér á landi. Hún var listrænn fulltrúi hársnyrtivöruframleiðandans Sebastian fyrir Evrópu 1985-1997, forseti Íslandsdeildar Haute Coiffure Francaise, listrænn stjórnandi Íslandsdeildar Intercoiffure og hefur setið í prófnefnd og samninganefnd Hárgreiðslumeistarafélags Íslands auk þess að vera formaður félagsins um skeið.

Hanna Kristín hefur tekið þátt í fjölmörgum virtum sýningum tengdum fagi sínu um allan heim, s.s. í New York, Los Angeles, Orlando, París, London, Zurich og Stokkhólmi, auk fjölda sýninga á Íslandi. Árið 1990 hlaut hún viðurkenninguna Diplome de Chevalier og 1995 viðurkenninguna Diplome de Officier frá alþjóðasamtökum hársnyrtifræðinga (Order de la Chevalerier Intercoiffure).

Hanna Kristín er gift Sveini Grétari Jónssyni, framkvæmdastjóra. Þau eiga tvö uppkomin börn og þrjú barnabörn.