Fréttir

11.11.2013

Heimsókn á listasýningu hjá LEX

Þórunn Guðmundsdóttir, LEX 11-11-2013

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg heimsótti lögmannsstofuna LEX 11. nóvember 2013. Heimsóknin var í boði Þórunnar Guðmundsdóttur hrl. sem er ein af meðeigendum LEX og félagi í rótarýklúbbnum. Á fundinum sagði hún stuttlega frá lögmannsstofunni og listsýningum á hennar vegum. Sverrir Kristinsson, fasteignasali og listaverkaunnandi og -safnari fræddi hópinn um listaverkin á sýningunni.

 

Saga LEX nær aftur til ársins 1959 þegar Sveinn Snorrason hóf rekstur lögmannsstofu. Síðan hefur stofan eflst verulega og er um þessar mundir ein af stærstu lögmannsstofum landsins. Lögmenn LEX veita alhliða lögmannsþjónustu fyrirtækjum, opinberum aðilum, bönkum og einstaklingum hér á landi og erlendis. Meðal sviða þar sem lögmenn stofunnar hafa verið í fararbroddi má nefna banka- og fjármálarétt, samkeppnisrétt, skattarétt, félagarétt og loks orku- og auðlindarétt sem gæti verið mikill vaxtarbroddur hér á landi. LEX á aðild að alþjóðlegum samtökum lögmannsstofa World Service Group (WSG) og Energy Law Group (ELG). 

Rótarýfundur 11-11-2013 bÞegar LEX flutti í núverandi húsnæði að Borgartúni 26 vorið 2008 var efnt til listaverkasýningar í húsakynnum stofunnar. Auk eigin listaverka voru þá til sýnis verk sem stofan fékk lánuð eða leigð hjá utanaðkomandi aðilum. Stóð sú sýning í tvö ár. Á haustdögum 2010 var breytt til, ný sýning sett upp og ný verk sýnd í bland við þau sem fyrir voru. Samhliða þessum sýningum voru gefnar út gallerískrár.

Haustið 2012 var enn lagt af stað í nýja vegferð þegar þriðja myndlistarsýning LEX var sett upp. Að þessu sinni eru sýnd 68 verk eftir 22 listamenn. Auk verka eldri kynslóðar íslenskra myndlistarmanna eru verk eftir Karl Kvaran áberandi sem og verk nokkurra yngri myndlistarmanna.

Listráð LEX hefur haft veg og vanda af sýningunum. Í ráðinu sitja Þórunn Guðmundsdóttir hrl. og Karl Axelsson hrl. Listrænn ráðunautur er Sverrir Kristinsson, fasteignasali og listaverkaunnandi og -safnari. Hann á jafnframt fjölda þeirra verka sem eru á sýningunni. 

 

Rótarýfundur 11-11-2013 dRótarýfundur 11-11-2013 cRótarýfundur 11-11-2013