Fréttir

4.11.2013

Ungmennastarf og skiptinemi

Hanna María Siggeirsdóttir, Daria Wittwer og Kristín GuðmundsdóttirÁ fundi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg 4. nóvember 2013 var fjallað um ungmennaþjónustu. Hanna María Siggeirsdóttir, formaður ungmennanefndar klúbbsins og formaður æskulýðsnefndar rótarýumdæmisins, fór yfir ungmennastarf á vegum rótarýhreyfingarinnar. Sérstaklega ræddi hún um nemendaskiptin en Íslendingar hafa nýtt sér þau umfram annað ungmennastarf. Í vetur fóstrar klúbburinn Daria Wittwer, svissneska stúlku sem stundar nám í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Á yfirstandandi vetri dvelja fjórir íslenskir nemendur erlendis á vegum rótarýhreyfingarinnar, í Bandaríkjunum, Ekvador, Frakklandi og Sviss. Á móti dvelja þrír erlendir nemendur hér á landi, frá Bandaríkjunum, Ekvador og Sviss.

Hanna María SiggeirsdóttirHanna María rifjaði upp að Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg hefði fóstrað Abbigail Seasly frá Bandaríkjunum veturinn 2010-2011 og nú fóstraði hann Daria Wittwer frá Sviss. Hvatti hún til þess að klúbburinn efldi þennan þátt í starfseminni enn frekar því hann væri svo gefandi. Fræðast má um ungmennastarf rótarýhreyfingarinnar á vef umdæmisins (smellið hér).

Daria kynnti sjálfa sig og heimaslóðirnar á ótrúlega góðri íslensku eftir aðeins tveggja mánaða dvöl hér á landi. Hún er 16 ára og á eina eldri systur. Foreldrar hennar, Andreas og Barbara, eru hljóðfæraleikarar og tónlistarkennarar. Fjölskyldan býr í Untersiggenthal sem er um 7.000 manna bær rétt norðvestur af Baden.

Daria hefur lokið einu ári í menntaskólanum Kantonsschule Wettingen sem er í nágrenni við heimabæ hennar. Hún gerir ráð fyrir að halda áfram á þriðja ári eftir dvölina á Íslandi og námið í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Daria Wittwer á fundi hjá RRM 4-11-2013 - bDaria er á tungumálabraut en tónlistin á einnig hug hennar. Hún lærir bæði á fiðlu og píanó og syngur auk þess í kór. Fiðlan fylgdi henni til Íslands og sækir hún fiðlutíma í Tónlistarskóla Garðabæjar. Þá hefur hún gengið til liðs við Gradualekór Langholtskirkju.

Auk tónlistarinnar hefur Daria stundað fimleika í áraraðir, snjóbretti og reiðmennsku, þar sem hún kynntist íslenska hestinum. Vonandi fær hún næg tækifæri í vetur til að fara á snjóbretti í Bláfjöllum og kynnast íslenska hestinum betur því hana langar til að fara á hestbak á meðan hún dvelur hér á landi.

Daria segir að sig hafi langað til að fara til Íslands sem skiptinemi vegna þess að hún vildi fara á norðurslóðir, hún vildi læra nýtt tungumál og hún vildi kynnast einhverju óvenjulegu. Þess vegna varð Ísland fyrir valinu fremur en eitthvert hinna Norðurlandanna. 

Daria Wittwer á fundi hjá RRM 4-11-2013 - aDaria er ánægð með dvölina hingað til. Hún viðurkennir að það hafi komið sér á óvart að aginn í skólanum sé nokkru minni en hún eigi að venjast í Sviss. Henni líkar útivist, fjallgöngur, myndatökur á víðavangi eða bara að njóta náttúrunnar. Daria vonast til að komast sem oftast út fyrir höfuðborgarsvæðið og að hún fái að sjá sem mest af landinu á meðan hún dvelur hér.

Að lokum bauð Daria klúbbfélögum upp á svissneskt súkkulaði, besta súkkulaði í heimi að hennar sögn! 

 

Rótarýfundur 4-11-2013 - fRótarýfundur 4-11-2013 - eRótarýfundur 4-11-2013 - d

Rótarýfundur 4-11-2013 - cRótarýfundur 4-11-2013 - bRótarýfundur 4-11-2013 - a