Fréttir

29.8.2013

Heimsókn til Ölgerðarinnar

RRM 28-8-2013 1

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg heimsótti Ölgerðina Egil Skallagrímsson 28. ágúst 2013. Þar tók Októ Einarsson, starfandi stjórnarformaður félagsins á móti hópnum. Ölgerðin fagnar aldarafmæli sínu í ár.

Rúmlega 20 félagar í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg lögðu leið sína í Ölgerðina. Októ Einarsson, starfandi stjórnarformaður félagsins hélt stutta kynningu á félaginu. Hann stiklaði á stóru í einnar aldar sögu og hvernig margar af framleiðslu- og innflutningsvörum félagsins eru fyrir löngu orðnar hluti af íslenskri menningu. Hann greindi frá helstu þáttum í starfsemi félagsins og fjárhagsstærðum, samruna Ölgerðarinnar og heildverslunarinnar Danól í ársbyrjun 2008 og hremmingar í kjölfar bankahrunsins í október sama ár. Fram kom að reksturinn hafi gengið afar vel síðustu misseri. 

RRM 28-8-2013 2Að loknu erindi Októs gekk hann með hópnum um húsnæði félagsins að Grjóthálsi. Leiðin lá um skrifstofurými þar sem allt starfsfólk er í opnu rými, átöppunarsali, bjórframleiðslusal og risavaxið lagerhúsnæði. Göngutúrinn endaði í Bjórskólanum og þar var boðið upp á fast og fljótandi fæði.RRM 28-8-2013 3

Í máli Októs kom m.a. fram að Ölgerðin hefði í tvö sumur (2012 og 2013) boðið erlendum ferðamönnum upp á bjórheimsókn til Ölgerðarinnar gegn gjaldi. Þar fengju þeir að smakka sérbjór, bjórlíki sem Íslendingar neyttu í nokkrum mæli í aðdraganda bjórfrelsins 1989 og íslenskt brennivín. Þessar smökkunarferðir hafa notið mikilla vinsælda og komu um 1.200 manns sumarið 2012.

RRM 28-8-2013 4