Fréttir

31.7.2013

Sumarferð 2013

RRM sumarferð1

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg fór í sína árlegu sumarferð 27.-30. júní 2013. Þetta var 16. sumarferð klúbbsins (sjá lista yfir ferðirnar). Að þessu sinni lá leiðin á Vatnsnes í Vestur-Húnavatnssýslu. Ferðin var skipulögð af ferðanefnd klúbbsins. Í henni sitja Margrét Guðmundsdóttir, Erna Bryndís Halldórsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjörnsdóttir. Um 40 manns tóku þátt í ferðinni. Þórunn hefur tekið saman stutta ferðalýsingu.

Dagana 27.-30. júní 2013 var haldið norður að Laugarbakka í Miðfirði. Rotaryklúbburinn, Reykjavík Miðborg, hafði ákveðið að sumarferð þessa árs yrði norður á Vatnsnes með mörgum skoðunarferðum og göngum. Síðdegis komu flestir ferðafélaganna að Hótel Eddu Laugarbakka en þar beið hópsins indælis kjötsúpa. Eftir að fólk hafði snætt og komið sér fyrir kom Karl A. Sigurgeirsson leiðsögumaður sem hafði verið fenginn til að vera hópnum til leiðsagnar hluta ferðarinnar. Haldið var heima að Bjargi í Miðfirði en Karl er ættaður þaðan. Gengið var að minnismerki Ásdísar, móður Grettis Ásmundarsonar. Hann ólst þar upp og átti þar sín bernskubrek og ætíð síðan athvarf þegar á móti blés á æviskeiði hans. Karl gekk með hópnum að Grettistaki og útskýrði vel hvernig ætla má að þarna hafi verið búið í tíð Ásdísar og fjölskyldu.

 

RRM sumarferð2Næsta dag var svo ferðinni haldið áfram og farinn skoðunarhringur frá Kolugljúfri að Borgarvirki með gönguferðum og sögustundum. Þaðan að Hvítserk og áfram að Krossanesi þar sem gengið var niður að sjó með nestið. Veðrið lék við hópinn, rigndi þegar setið var inni í bíl og sól í gönguferðunum. Eftir áningu var haldið framhjá Hindisvík sem er alveg lokuð ferðamönnum. Í nágrenni Tjarnarkirkju var tekin ganga dagsins niður að sjó og út með Vatnsnesi vestanverðu. Þaðan að kirkjugarðinum á Vatnsnesi þar sem vitjað var leiðis Agnesar og Friðriks og saga þeirra þar rifjuð upp. Eftir það lá leiðin að Illugastöðum þar sem gengið var niður að sjó. Þar hefur verið komið upp skýli með sjónaukum til að skoða selalátur. Allar aðstæður til mikilllar fyrirmyndar. Þá var ekið að Geitafelli til Roberts Jacks yngri sem tók á móti hópnum og sagði frá munum föður síns. Eftir það var haldið í matsal og borðuð fiskisúpa að hætti húsmóður með heimabökuðu brauði.  Að því loknu haldið til Laugarbakka á ný.

Næsta dag var gangan stóra á dagskrá. Haldið var á nokkrum bílum til Hvammstanga og þar upp í gegnum bæinn. Þar er tjaldsvæði bæjarins og einnig gömul falleg kirkja. Þar beið leiðsögumaðurinn hópsins. Hann sagði frá kirkjunni sem var áður bæjarkirkjan á Hvammstanga. Hún var síðan aflögð en endurvígð fyrir nokkrum árum. Kirkjan var tekið af grunninum og grunnurinn endurunnin og hún síðan sett saman að nýju spýtu fyrir spýtu. Kirkjan hefur aldrei verið máluð að innan og er því afar óvenjuleg hvað það varðar. Síðan var lagt af stað upp fyrir efstu bæi en vegarspotti liggur langleiðina upp að Káraborg sem er mikill útsýnisstaður. Gönguhópurinn lagði síðan af stað, fyrst á Káraborg þaðan sem sást vel til Stranda og út á Skaga og inn á heiðar. Þaðan lá svo leiðin yfir Vatnsnesið með nesti og góðan útbúnað.

RRM sumarferð3Örfáir gengu ekki heilsu sinnar vegna. Þau áttu góðan dag á Hvammstanga. Gönguhópurinn kom svo síðdegis niður að kirkjustaðnum Breiðabólstað og átti sögustund í kirkjunni. Á göngunni bar það helst til tíðinda að einn úr hópnum valdi tvo stóra skafla til leiðar sinnar og skrikaði ekki fótur en á blautum grasbala datt kappinn hins vegar kylliflatur! Frá Breiðabólstað lá leiðin að gömlu endurgerðu hlöðnu steinhúsi að Klömbrum, þar sem forfeður klúbbfélagans og göngugarpsins Láru V. Júlíusdóttur bjuggu á árum áður.

Að þessu loknu fór hópurinn ýmist í sund eða heim á hótel í sturtu.  Dásamlegt veður var þennan dag og naut fólk útivistarinnar afar vel.

Kvöldverður var borðaður að Laugarbakka með tilheyrandi huggulegheitum. Að honum loknum var farið í kennslustofu úti í skólaálmu og þar slegin upp skemmtun að hætti rótarýklúbbsins. Tríó með Tryggva Pálssyni, Þórhalli Runólfssyni og Ólafi Jónssyni spilaði á gítara og leiddi hópinn í fjöldasöng. Mikið sungið og sagðar sögur inn á milli. Ljúft og notalegt kvöld.

Sumarferðinni lauk með morgunverði sunnudaginn 30. júní. Að því búnu hélt fólk ýmist heim á leið eða skoðaði sig betur um í héraði á grundvelli góðra ábendinga frá heimafólki.

Það virtist koma fólki almennt á óvart hvað þetta landssvæði hefur upp á mikið að bjóða og greinilegt að fáir höfðu farið af þjóðvegi 1 til að kanna svæðið.