Fréttir

27.5.2013

Rótarý URR-ar

URR-3

Í tæpan áratug hafa ýmsir rótarýklúbbar boðið nemendum í grunnskólum í heimabyggð klúbbanna upp á námskeið í ræðulist, Unglinganámskeið Rótarý í Ræðulist eða URR. Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg hafði frumkvæði að þessu verkefni og útbjó námsefnkið. 

Í hnotskurn eru markmið rótarýhreyfingarinnar að efla bræðralag og veita þjónustu. Rótarýklúbbar og rótarýfélagar um heim allan leita leiða til að örva og leggja rækt við þjónustuhugsjónina svo hún verði grundvöllur góðra verka. Klúbbarnir styðja við verkefni nær og fjær með fjárframlögum, leggja hönd á plóg í verðugum samfélagsverkefnum sem þeir þróa sjálfir eða leggja verkefnum annarra lið með vinnu sinni. Öll sem reynt hafa vita að slíkt starf er ótrúlega gefandi. 

URR-2Veturinn 2004-2005 ákvað Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg að þróa námskeið í ræðulist fyrir unglinga. Klúbbfélagarnir Thomas Möller og Inga Jóna Þórðardóttir báru hitann og þungann af verkefninu en auk þess lagði klúbbfélaginn Svava Johansen hönd á plóg. Námskeiðið var prufukeyrt í Hagaskóla í Reykjavík og vakti mikla ánægju. 

Fljótt kom í ljós að skólastjórnendur og nemendur í grunnskólum um land allt höfðu áhuga á sams konar fræðslu og þjálfun. Samfélagsnefnd rótarýumdæmisins falaðist eftir námsefninu fyrir aðra rótarýklúbba. Jafnframt var Thomas Möller, annar af aðalhöfundum námsefnisins, fenginn til að þjálfa rótarýfélaga sem leiðbeinendur. Fyrsta þjálfunarnámskeiðið var haldið í október 2005. 

Hundruð unglinga um land allt hafa notið góðs af þessu jákvæða sjálfboðaliðsstarfi rótarý og URR-námskeiðunum. Unglingarnir hafa öðlast sjálfstraust til að standa frammi fyrir hópi og tjá sig um valið efni. Þannig búa unglingarnir sig betur undir lífið. Sem dæmi um áhugann má nefna að Rótarýklúbburinn Görðum hefur gengist fyrir URR-námskeiðum fyrir nemendur í 9. eða 10. bekk Garðaskóla í Garðabæ hvert einasta ár síðan 2006. 

URR-6URR-9URR-8

URR-4URR-5URR-7

URR-11URR-10