Fréttir

6.5.2013

Endurkoma Sigríðar

Sigríður SnæbjörnsdóttirSigríður Snæbjörnsdóttir hefur á ný gengið til liðs við Rótarýklúbbinn Reykjavík-Miðborg. Sigríður hætti í klúbbnum fljótlega eftir að hún tók við starfi forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja 2002 og tók að sinna dagleum störfum suður með sjó. Hún sagði forstjórastarfinu lausu snemma vors 2013 og lætur af störfum innan skamms. 

Sigríður Snæbjörnsdóttir lauk B.Sc.-prófi í hjúkrun 1982 og M.Sc.-prófi í sjúkrahúss- og heilbrigðisstjórnun 1984 við University of Wisconsin, Madison í Bandaríkjunum. Hún á að baki farsælan starfsferil innan íslenska heilbrigðiskerfisins að námi loknu. Hún var hjúkrunarframkvæmdastjóri á Landspítala-háskólasjúkrahúsi 1985-1988. Þá tók við starf hjúkrunarforstjóra á Borgarspítala og síðar Sjúkrahúss Reykjavíkur 1988-2000. Hún var forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands 2001-2002 uns hún tók við forstjórastarfi við Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Sigríður tók sér leyfi frá forstjórastarfinu 2006-2007 þegar hún gegndi starfi verkefnisstjóra hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Malaví í Afríku.

Sigríður hefur gegnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum á starfsferli sínum, þ.á m. sem formaður stjórnar Kabbameinsfélags Íslands frá 2008.

Sigríður er gift Sigurði Guðmundssyni, forseta heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og fyrrverandi landlækni. Þau eiga þrjú uppkomin börn og átta barnabörn.