Fréttir

4.3.2013

Heimsókn í Hverfisgalleríið

Hverfisgallerí 4-3-2013 6Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg heimsótti Hverfisgalleríið 4. mars 2013. Heimsóknin var í boði Eddu Jónsdóttur, eins af eigendum gallerísins, sem jafnframt er félagi í rótarýklúbbnum.

Á fundinum greindi Edda frá tilurð gallerísins. Marteinn Tryggvason Tausen sagði frá daglegri starfsemi. Loks sagði Sigurður Árni Sigurðsson frá verkunum sem hann sýnir í galleríinu um þessar mundir. 

Eftirfarandi frétt birtist um galleríið á Mbl.is 9. janúar 2013 (myndirnar eru frá rótarýfundinum):

Hverfisgallerí 4-3-2013 5Nýtt myndlistargallerí hefur rekstur að Hverfisgötu 4 í lok febrúar og verður fyrsta sýningin á verkum Sigurðar Árna Sigurðssonar. Mun það heita Hverfisgallerí og er samstarfsverkefni að hálfu í eigu i8 gallerís við Tryggvagötu og að hálfu í eigu fjárfesta tengdra Arev verðbréfafyrirtæki.

Hverfisgallerí 4-3-2013 4Þrátt fyrir hlut i8 mun Hverfisgallerí verða rekið sem algerlega sjálfstæð stofnun og hefur verið samið við tólf listamenn um að vinna með galleríinu og er ekki fyrirhugað að bæta öðrum við þann lista í nánustu framtíð. Meðal listamannanna eru, auk Sigurðar Árna, þau Hildur Bjarnadóttir, Guðjón Ketilsson, Harpa Árnadóttir og Kristinn E. Hrafnsson. Marteinn Tryggvason Tausen hefur verið ráðinn til að reka galleríið en auk þess að setja upp sýningar með listamönnum gallerísins og erlendum gestalistamönnum, mun Hverfisgallerí taka vönduð myndverk virtra listamanna í endursölu.

Hverfisgallerí 4-3-2013 3Edda Jónsdóttir stofnaði i8 gallerí fyrir 17 árum en dró sig í hlé frá rekstrinum fyrir nokkrum árum þegar Börkur Arnarson sonur hennar tók við galleríinu. Hún segir hugmyndina um Hverfisgallerí hafa lifað í nokkur ár. Í hópi listamannanna sem unnið verður með er að finna fleiri málara og skúlptúrista en hjá i8, og að sumu leyti hefðbundnari notkun miðla í listinni. Edda segir marga viðskiptavini hafa viljað sjá verk eftir fleiri listamenn en hún sýndi.

Hverfisgallerí 4-3-2013 2„Þótt fólk hafi keypt og notið konseptverka eftir listamenn okkar þá vildu margir einnig skoða og eignast verk eftir góða listamenn sem vinna með málverk og skúlptúra. Margir vandaðir listamenn hafa ekki haft samanstað hjá galleríi, sem er synd. Þeir yngstu eiga oft auðveldara með að koma sér sjálfir á framfæri, en listamenn sem eru orðnir vel mótaðir hafa margir enga gallerista að vinna með.

 

Ég hafði áhuga á að vinna með góðum listamönnum sem gaman væri að eiga samstarf við,“ segir hún.

Edda segir að galleríið byrji á að vinna með hæfilega mörgum listamönnum. Marteinn og Edda bera sameiginlega ábyrgð á vali þessa hóps og vali verka í galleríið.

Hverfisgallerí 4-3-2013 1Varðandi verk eldri listamanna í endursölu, segir hún þau eingöngu hafa áhuga á mjög góðum verkum. „Það verður áhugavert að sjá þau í galleríinu í samræðu við verk samtímalistamannanna sem við vinnum með,“ segir hún.