Gönguferð um Grjótaþorp
.jpg)
Nokkur hópur félaga í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg lét ekki hráslagalegt veður aftra sér frá því að ganga um Grjótaþorpið í Reykjavík undir leiðsögn klúbbfélagans Guðjóns Friðrikssonar, sagnfræðings. Safnast var saman fyrir framan Kaffi Reykjavík. Þar er útilistaverk Krisins E. Hrafnssonar Héðan, hingað og þangað. Verkið sýnir miðpunkt Reykjavíkur. Guðjón sýndi hópnum grjóthleðslu á bak við húsið sem eitt sinn varði það fyrir ágangi sjávar. Síðan var gengið upp í Grjótaþorp, staldrað við nokkur hús og fróðleik miðlað.
Gönguferðinni lauk í Unuhúsi en þar búa klúbbfélaginn Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur og kona hans Guðbjörg Garðarsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur. Gestur greindi frá sjónarmiðum sínum varðandi varðveislu og nýtingu gamalla húsa og viðhaldi og breytingum á Unuhúsi. Loks sýndu hjónin klúbbfélögum króka og kima í þessu sögufræga húsi.