Fréttir

6.7.2012

Sumarferð 2012

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Miðborg fór í sína árlegu sumarferð 28. júní - 1. júlí 2012. Þetta var 15. sumarferð klúbbsins (sjá lista yfir ferðirnar). Að þessu sinni lá leiðin á sunnanvert Snæfellsnes. Ferðin var skipulögð af ferðanefnd klúbbsins. Í henni sitja Margrét Guðmundsdóttir, formaður, Erna Bryndís Halldórsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjörnsdóttir. Um 40 manns tóku þátt í ferðinni, þar af fimm börn og unglingar. Þórunn hefur tekið saman stutta ferðalýsingu.

Ferðanefnd RRMFimmtudaginn 28. júní fór fólk að tínast á gististaðinn að Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi. Þegar hópurinn var að mestu kominn var borin fram ljúffeng kjúklingasúpa með brauði og á eftir skyrterta að hætti hússins. Fylgst var með HM í sjónvarpinu og mismikil ánægja með að senda Þjóðverja heim. Að leik loknum var haldið á vit ævintýra með langferðabifreið í eigu Ólafs Eggertssonar staðarhaldara sem ók okkur niður í Skógarnesfjörur en þar hófst gönguferð að rústum aldagamalla minja um verslunarstað og skipakomur. Þarna var rekin verslun frá Stykkishólmi m.a. frá verslun Riis sem enn má sjá merkta í Stykkishólmi. Gengið var um Löngufjörur og fengu ferðalangar að fræðast um þær og hversu hestamenn njóta þess að fara þessa leið jafnvel alla leið að Búðum.

Hópur í sumarferðAð morgni föstudagins 29. júní var byrjað á morgunverði sem var stórglæsilegur og kom fólki vel á óvart. Að því loknu var haldið í Gullborgarhelli og aftur var Ólafur tilbúinn með bifreið sína og fræðsluna. Til að fara í Gullborgarhelli þarf að hafa leiðsögumann enda er hellirinn kominn á náttúruminjaskrá. Tölverð ganga er að hellismunnanum og síðan tekur við gróft hraun í hellismunnanum og eftir það myrkur svo fólk var vopnað vasaljósum, höfuðljósum og göngustöfum. Innst í hellinum hefur verið lokað af með keðju til að verja dropasteininn langa sem þar er fyrir ágangi. Þessi hellir fannst ekki fyrr en 1957. Að þessu loknu var ekið að Syðri–Rauðamel og að volgri laug sem þar er í námunda við bæinn en hún er kölluð Sturlungalaug þar sem talið er að þeir Sturlungar hafi notað hana til baða auk annarra öldum saman. Eftir að fólk hafði slappað aðeins af var farið að Eldborg og hafin ganga upp að henni og sumir fóru alla leið upp á gígbarmin en þaðan má sjá um undirlendi Mýra- og Kolbeinstaðahrepps allt niður að sjó við Haffjarðará.

Hljómsveit HeimisSetið í sól fyrir utan Laugagerðisskóla og sumir í sund fram að kvöldverði. „Happy hour“ með leik sem Erna Bryndís Halldórsdóttir undirbjó en þá voru málshættir klipptir sundur og átti fólk að finna réttan endi eða upphaf og deila saman sætum við matarborðið! Súpa, fiskréttur og eplakaka sem allt smakkaðist vel. Tríóið Heimir Sindrason og makarnir spiluðu létt lög og kom Ólafur sem fjórði maður verulega á óvart í léttu sprelli.

Næsta morgun var morgunverður og síðan undirbúin gönguferðin á Hafursfellið en Lára hafði veg og vanda að því að fá gönguupplýsingar hjá fólkinu í Dalsmynni. Farið upp að Hafursfelli og þaðan gengið í áföngum upp á fjallið þar sem sumir hættu og gengu til baka en megin þorri hópsins fór alla leið og náði hinu ægifagra útsýni yfir Faxaflóa og vestur á Snæfellsjökul. Má ætla að farið hafi verið í yfir 550 metra hæð en hæsti tindur fjallsins er í yfir 700 metrum. Að göngu lokinni var setið og sólað sig og sumir í sundlaugina fram að hinni víðfrægu „Happy hour“ en Erna Bryndís undirbjó skemmtileiki og nú voru menn merktir með þekktum persónum á bakið og áttu að spyrja þar til þeir finndu út hverjir þeir voru þetta kvöld.

Geir H. HaardeGengið til kvöldverðar: súpa og þrenns lags kjötréttir og súkkulaðiterta í eftirrétt. Aftur sungið og gantast með Heimi og mökum! En nú tók Geir H. Haarde nokkur lög með þeim, m.a. Volare.

Á sunnudagsmorgni 1. júlí var síðan lagt upp kl. 10.00 og ekið að Gerðubergi sem er talið lengsta stuðlaberg á Íslandi. Ferðafélagar gengu um þetta fallega svæði. Þaðan skroppið að Rauðamel og litið eftir ölkeldunni sem þar er en hún var þurr. Kirkjan lokuð en útsýni fagurt. Þaðan var svo haldið í heimsóknir til vina okkar og félaga þeirra Ellenar Ingvadóttur og Jóns Bergmundssonar og maka við Langá. Þar eiga þau sumarhús og liggja lóðir þeirra hlið við hlið. Mjög skemmtileg heimsókn og áhugaverð. Gestgjafar frábærir.