Fréttir

6.3.2011

Á klúbbfundi á Suður-Jótlandi

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Miðborg og Þórhallur maður hennar heimsóttu Suður-Jótland í Danmörku fyrir skömmu. Þórunn notaði tækifærið og heimsótti rótarýklúbbinn í Tønder. Tønder er lítill vinalegur bær skammt suður af Esbjerg.ÞS í Tönder
Þórunn segir svo frá: „Ég ákvað að skrifa þeim á netinu og spyrjast fyrir um hvort ég væri velkomin til þeirra og fékk mjög jákvætt svar. Nokkrum dögum seinna fékk ég á ný póst frá þeim með fyrirspurn um hvort ég gæti talað á fundinum þann 14. febrúar um Ísland. Það var auðsótt. Ég tók með mér myndir frá Íslandi sem ég dreifði á fundarborðin. Fundinn sóttu um 35 félagar af 46. Fundurinn hófst með borðhaldi og svo setningu forseta, Birgit Thye-Petersen. Þarna höfðum við fánaskipti og fluttum kveðjur frá klúbbum okkar. Þennan dag átti alþjóðanefnd að sjá um ræðumann svo ég rak svona á fjörur þeirra. Farið var yfir nokkur erindi og næstu fundi. Einnig var fyrirspurnum beint til einstakra félaga um mál sem þeir höfðu tekið að sér. Má þar nefna söfnunarbauka sem þau hafa á nokkrum stöðum í Tønder. Síðan var sungið sameiginlega ættjarðarlag. Það sögðu þau venju. Það kom svo að erindi mínu sem ég var með á slæðum og flutti svo yfirlit um samskipti þjóðanna og rætur í menningu og vék svo að nútímanum og því sem hér hefur gerst á undanförnum árum. Eftir það fékk ég fjölda spurninga og eina ábendingu. Ég hafði nefnilega ekki minnst á okkar frábæra handboltalið! Fundurinn stóð í tæpar tvær klst. Og eftir það fundaði stjórnin. Ég var leyst út með gjöfum eftir mjög ánæjulega samveru.“