Fréttir

1.7.2010

Velheppnuð sumarferð

Gönguklúbbur 2010

 

Árleg sumarferð klúbbsins var farin dagana 24.-27. júní til Borgarfjarðar eystri. Alls tóku 37 félagar og makar þátt í ferðinni ásamt þremur börnum/unglingum og fjórum hundum. Ferðin var skipulögð af ferðanefndinni.

 

Þetta er í 14 sinn sem ferðanefndin skipuleggur sumarferð klúbbsins. Eiga margir klúbbfélagar skemmtilegar minningar úr þessum ferðum. Almennt var góður rómur gerður að ferðinni að þessu sinni, enda var veðrið bjart og fagurt og Borgarfjörður eystri og Víkurnar heillandi landssvæði. Skipulögð dagskrá hófst að kvöldi fimmtudagsins 22. júní með staðarkynningu. Daginn eftir skoðaði hópurinn fuglabjargið við höfnina og gekk síðan yfir í Brúnavík í blíðskaparveðri og til baka aftur. Að kvöldverði loknum skoðuðu flestir tómthúsið Lindarbakka og Kjarvalsstofu, horfðu á stutta kvikmynd með svipmyndum úr Bakkagerði 1965-1985 og litu á erlent sirkusfólk sem tróð upp. Á laugardeginum var gengið úr Vatnsskarði í Stórurð sem er stórfengleg brotabergsurð og ein af náttúruperlum Íslands. Er óhætt að fullyrða að urðin lætur engan ósnortin. Helmingur af hópnum gekk sömu leið til baka en hinn helmingurinn fikarði sig meðfram hinum stórfenglegu Dyrfjöllum, yfir Mjódalsvarp og niður í Bakkagerði. Hljómsveit klúbbsins leiddi almennan söng yfir kvöldverðarborðum auk þess sem nokkrir úr hópi klúbbfélaga, maka og skyldmenna tróðu upp. Þá birtist Magni, poppsonur Bakkagerðis óvænt og söng tvö lög. Hann og félagar héldu einmitt tónleika síðar um kvöldið í félagsheimili staðarins og litu nokkrir klúbbfélagar og makar þar við.

Með því að fylgja eftirfarandi slóð má sjá nokkrar myndir sem Gunnar Stefánsson, maki Kristínar Rafnar, tók í ferðinni (myndir)