Fréttir
  • Sungið við raust á velheppnaðri hátíð.

16.12.2013

Glæsileg 30 ára afmælishátíð

Þess var minnst sl. laugardagskvöld með glæsilegum hátíðarkvöldverði og dagskrá á Grand Hótel Reykjavík að hinn 12. desember voru 30 ár liðin frá stofnun Rótarýklúbbsins Reykjavík-Breiðholt.

Félagar og makar þeirra fjölmenntu til afmælishátíðarinnar og nutu þar ánægjulegrar samverustundar sem stóð fram undir miðnætti með fjölbreyttum dagskráratriðum, þar sem rifjuð var upp saga klúbbsins, félagar heiðraðir, minnst látinna félaga og slegið á léttari strengi.Veislustjórinn flytur hvatningarorð. Veislustjóri var Jón L. Árnason. Í upphafi var haldinn rótarýfundur og hófst hann með samsöng allra viðstaddra. Sungið var nýtt kvæði Hinriks Bjarnasonar um hinn upprétta rótarýmann, „Homo erectus rotaryensis“ við lagið „Undir bláhimni.“ Sjá textann hér.

Forseti klúbbsins setur hátíðina.Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti klúbbsins flutti setningarræðu og rifjaði upp persónulegar minningar frá veru sinni í kúbbnum frá því að hann varð stofnfélagi 37 ára gamall.

„Og nú hef ég verið í klúbbnum í 30 ár og þakka fyrir að ég sé hér ennþá“, sagði Vilhjálmur. „Niðurstaða mín er þessi: Það skiptir máli að mæta á fundi. Það að mæta á fundi er grundvöllur þess að skilningur okkar á hlutverki Rótarý vex, einnig aukin kynni við aðra Rótarýfélaga, sem skapa félaga- eða vináttutengsl, og síðast en ekki sist höfum við á þessum sameiginlega vettvangi tækifæri til að láta gott af okkur leiða.“

Paul Harris útnefning. Ingvar, Sigurður, Vilhjálmur, Valgeir og Markús.Þessu næst gerði Vilhjálmur grein fyrir útnefningu fjögurra Paul Harris félaga fyrir farsæl og góð störf í þágu klúbbsins. Þau eru Ingvar Pálsson, Sigríður K. Ingvarsdóttir, Sigurður Bjarnason og Valgeir Ástráðsson. Áður hafa 32 félagar fengið Paul Harris útnefningu, þar af eru 23 í klúbbnum nú. Vilhjálmur tilkynnti ennfremur að Markús Örn Antonsson, einn af stofnendum klúbbsins og forseti á öðru starfsári hans, sem áður hefur fengið Paul Harris útnefningu, hlyti nú Paul Harris safír útnefningu fyrir frábær störf í þágu klúbbsins í samfellt 30 ár.Friðrik Alexandersson spilaði undir fjöldasöng.

Sigurlaug H. Svavarsdóttir.Í lok hins formlega rótarýfundar þakkaði Vilhjálmur hátíðarnefndinni fyrir afar góð störf við undirbúning afmælisfundarins. Í nefndinni áttu sæti Sigurlaug H. Svavarsdóttir, formaður, ásamt þeim Hrafni Pálssyni, Sigurði Þorkelssyni og Viðari Ólafssyni.

Lesið ræðu Vilhjálms.

Hinrik Bjarnason flutti hátíðarræðu. Hann minntist í upphafi á skuldbindingu ungtemplara, þegar hann  gekk í barnastúkuna Fyrirmyndina nr. 83 á Stokkseyri. Gæslumaður hennar var séra Árelíus Níelsson.Hinrik Bjarnason.

„Ég hef undirgengist ýmsar aðrar síðan, allt frá fermingarheiti til fjórprófs okkar rótarýmanna, sem er í sjálfu sér skuldbinding ef við viljum svo vera láta,“ sagði Hinrik. „Mér hefur orðið ljóst hve stutt er milli skuldbindingarinnar og bænarinnar, og bænin er mér nokkuð hugleikin. Bænina iðka allir á einn eða annan hátt, hún er án efa í forgöngu allra trúarbragða, fólk þarf á henni að halda og grípur til hennar í stóru og smáu, þótt trúin á mátt hennar kunni að vera misvísandi í upphafi. Það er sama hvern eða hvað er verið að ákalla, bænin er alltaf einkasamtal hvers og eins við sjálfan sig, meðvituð eða ómeðvituð tilraun til þess að auka sínum innra manni afl og þor. Bænin er dæmi um það, sem við getum rætt hljóðlega við þennan eða þessa, sem við mætum í speglinum í einrúmi snyrtingarinnar að morgni dags: “Jæja heillin! Heldurðu að þetta verði nú ekki allt í lagi hjá okkur í dag?”  Lesið ræðuna í heild.

Þessu næst var sýnd 20 mínútna heimildarmynd, sem Markús Örn Antonsson hefur gert um störf klúbbsins í 30 ár. Að henni lokinni skemmtu þeir félagarnir Davíð Jónsson og  Stefán Stefánsson með söng sínum og léttu spaugi og þátttöku viðstaddra í sal.Söngur og spaug um allan sal.

Sverrir Ólafsson.Sverrir Ólafsson flutti atriði sem hann nefndi „Upprifjun á viðureign klúbbskáldanna Sverris Ólafssonar og Stefáns Aðalsteinssonar.“ Þeir félagar og hagyrðingar „skiptust oft á skotum“ í bundnu máli á fundum klúbbsins, öllum viðstöddum til ómældrar skemmtunar. Lesið pistil Sverris.

„Það er mikið starf að vera kona rótarýmanns“ var yfirskriftin á frásögn í gamansömum tón, sem  Þórunn Magnúsdóttur flutti um þátttöku sína með eiginmanninum í rótarýviðburðum. Þórunn er formaður Inner Wheel Breiðholt. Lesið frásögnina.Þórunn Magnúsdóttir.

Séra Kristján Búason, einn af stofnendum klúbbsins, minntist látinna félaga. Þeir eru níu; Jón Stefán Rafnsson, Guðmundur Rúnar Bjarnleifsson, Þorsteinn Elton Jónsson, Magnús Ólafsson, Hreinn Hjartarson, Georg Valdimar Ólafsson, Stefán Aðalsteinsson, Jón Böðvarsson og Ólafur Einar Ólafsson. Í inngangsorðum sínum sagði Kristján:

“Hinir föllnu félagar voru valdir og kallaðir eins og við sem eftir lifum – bæði fyrrverandi félagar og núverandi – til þjónustu við rótarýhugsjónina vegna forystu á sínu sviði og/eða vegna þess að orð fór af þeim sem góðum félögum og fulltrúum fyrir sína starfsgrein á vettvangi þjóðlífsins.

Minningarathöfn.Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt átti því láni að fagna að hafa innan sinna vébanda fulltrúa mjög ólíkra starfsgreina, sem endurspegluðu eftirtektarverða breidd af vettvangi samfélagsins. Séreinkenni Rótarýhreyfingarinnar eru jú þau, að menn veljast til þáttöku á grundvelli starfsgreina.“ Lesið ávarp Kristjáns í heild.

Afmælishátíðinni lauk með því að Hrafn Pálsson afhenti stofnfélögum, sem enn starfa í klúbbnum, viðurkenningarskjöl. Stofnfélagar klúbbsins fyrir 30 árum voru 29. Af þeim eru 13 félagar enn starfandi.Stofnfélagar heiðraðir.

                                                                          Texti Markús Örn Antonsson. Myndir Markús og Friðrik Alexandersson