Ræður og greinar
Rótarýferð til Hveragerðis
Rótarýferð til Hveragerðis
Ég vil byrja á að óska félögum og aðstandendum í Rótarýklúbbi Reykjavík-Breiðholt hjartanlega til hamingju með þrjátíu ára afmælið.
Mér finnst eins og gerst hafi í gær, eins og stendur í frægu kvæði. Lífið er eins og andartak eða e.t.v. má líkja lífinu við lauk maður flettir einu laufi í einu og grætur stundum.
Fyrir 30 árum vorum við Guðmundur stödd í þvottahúsinu í kjallaranum í húsinu okkar í Seljahverfinu, með okkur var Kristján Búason. Við vorum þarna að sinna búverkum, búa í haginn fyrir komandi vetur. Við vorum að skera niður nautakjöt og pakka. Ef ég man rétt opnuðum við líka eðal rabarbaravínflösku heimabruggað, má segja beint af býli, lífrænt ræktað í eigin garði eins og flottast er að segja í dag. Við skáluðum náttúrlega fyrir kjötinu af bola og því að Kristján kynnti þarna fyrir Guðmundi fyrirhugaða stofnun Rótarýklúbbs í Breiðholtinu og hvatti hann til að gerast stofnfélagi með sér. Ég sá að Guðmundur var hugsi yfir þessu. Jákvætt svar gaf hann svo Kristjáni nokkru seinna og sér hann ábyggilega ekki eftir því.
Þetta var bara inngangur, en nú kemur það sem ég ætlaði að fjalla um og gerðist fyrir nokkuð mörgum árum, löngu áður en konur gengu til liðs við hópinn.
Við hjónin lögðum land undir fót og fórum á Rótarýþing sem Rótarýklúbbur Mosfellsbæjar hélt á hótel Örk í Hveragerði. Börnin okkar þrjú í öruggu skjóli og við svo frí og frjáls. Við gengum tignarlega eftir planinu vel klædd með ferðatösku og gerðum nágrönnunum upp þær hugsanir að við værum að skreppa til útlanda fyrst við værum laus og liðug, kannski vorum við bara liðug. Við komu okkar á Örkina var konunum afhent ilmvatnsglas svo þær gætu ilmað eins og nýútsprungnar rósir á heitum sumardegi. Síðan var þeim boðið í skoðunarferð um Mosfellsbæ og sveit. Við fórum í tveim rútum og byrjuðum að skoða Mosfellskirkju og hlustuðum við þar á mikinn fróðleik skólastjórans í grunnskóla Mosfellsbæjar. Síðan var ekið um sveitina og var skólastjórinn bráðskemmtilegur gæt í ferðinni. Í rútunni sat ég hjá ágætis konu frá Ísafirði, en hún hafði einn leiðinlegan galla henni var mjög tamt að sofna í bíl enda sagði hún að krakkarnir sínir segðu: aumingja pabbi að ferðast með þér. Það hlaut að vera leiðinlegt að ferðast með steinsofandi konu. Í hádeginu var okkur boðið í hádegisverð á Hlégarði, steiktur skötuselur og hvítvín með matnum, eftir matinn var kaffi og líkjör. Á móti mér við borðið settist skólastjórinn skemmtilegi og aðstoðarmaður hans, við hliðina á mér settist einhver ókunnur maður, hann kynnti sig ekkert sérstaklega, ég átti sennileg að þekkja hann og var ég næstum búin að spyrja hann hvort hann væri bílstjórinn á hinni rútunni, en sem pen kona Rótarýmanns gerði ég það ekki sem betur fer, en komst að því eftir öðrum leiðum að þetta var maður úr bæjarstjórn sem hélt þetta hádegisverðarboð. Mér fannst konurnar renna til mín öfundaraugum yfir öllum þessum herrum kringum mig, en ég gat bara ekkert að þessu gert. Eftir þessar ljúfu veitingar allir orðnir örlítið mjúkir og skrafhreifnir og konan frá Ísafirði átti enn auðveldara með svefn, var haldið að dælustöð hitaveitunnar á Reykjum. Þar komumst við að öllum sannleikanum um holu nr.13. Okkur var sagt að því lengra sem borað væri niður yrði vatnið sterkara þ.e. meira romm í því. Þessu trúði enginn nema kannski skiptinemarnir sem höfðu tröllatrú á leyndardómum Íslands. Eftir þessar veitingar hafði skólastjórinn vinur okkar ekki lengur kjark eða vilja til að yfirgefa okkur, en ekki stóð til að hann færi með okkur að Nesjavallavirkjun, en þangað fór hann samt til að fræða okkur um náttúru landsins eða bara náttúruna svona yfirleitt. Á Nesjavöllum fengum við brauðsnittur og rósavín til að skola þeim niður með, þá sagði skólastjórinn: Það er mikið starf að vera kona Rótarýmanns. Og til Hveragerðis var aftur haldið. Þar var tekið á móti okkur með rósum, okkur fannst við vissulega vera mikil númer. Við höfðum frá mörgu að segja eftir þessa ferð. Einn eiginmaðurinn spurðist fyrir hvort þessi bráðskemmtilegi og eftir því myndarlegi skólastjóri væri örugglega farinn aftur til Mosfellsbæjar, honum létti þegar hann frétti að rútan hefði keyrt hann til síns heima.
Næsta dag var ýmislegt gert til að skemmta okkur meðan menn okkar funduðu. Þar var tískusýning léttir drykkir og kirkjuferð í rest fyrir bæði kynin. Síðan var farið að huga að betri fötunum því næst á dagskrá var flottur kvöldverður með mikilli dagskrá sem enda átti með dansi. Tveir vinir úr Rótarýklúbbnum okkar báðu okkur um húsaskjól við að skipta um föt, því þeir voru herbergislausir, og ekki þægilegt að troðast í smókinginn úti í bíl. Ég var snögg í kjólinn og var fullklædd þegar herramennirnir komu. Annar skellti sér inn á baðherbergi og fór að hafa fataskipti. Ég dró fram stúdentssmóking mannsins míns sem passaði miklu betur núna heldur en árið1962 því allt var haft svo vel við vöxt í þá daga. Stolt af mínum manni tók ég fram skyrtuna sem ég hafði lagt mikla vinnu í að strauja fyrir ferðina, hjálpaði honum að hneppa og krækti fyrir hann þverslaufunni. Hvar eru ermahnapparnir spurði minn maður. Ég fylltist skelfingu, ermahnapparnir söng í höfðinu á mér, náttúrlega heima í skúffu, ímynd mín sem hin fullkomna Rótarýeiginkona hrundi til grunna og áður en tími vannst til frekari umræðna þaut út af baðherberginu vinur okkar á smókingskyrtunni með handleggi á lofti og spurði í ofboði hvort við værum með auka ermahnappa. Nú voru góð ráð dýr, hvað átti ég að gera við þessa menn. Ég leitaði dauðaleit í öllum hirslum herbergisins að nál og tvinna eða bara nælum, en fann ekkert nema Biblíur á ýmsum tungumálum. Allt í einu fékk ég góða hugmynd, ég þaut niður í gestamóttölu og bað um heftara, nú skyldi ég hefta mennina saman, þ.e.a.s. ermarnar, en þetta var fátækt hótel, það átti engan heftara ekki nál, tvinna eða nælur og meðan ég stóð þarna kom maður ofan af lofti á harða hlaupum og spurði stúlkuna hvort hún ætti auka ermahnappa. Stúlkan horfði á okkur ráðvillt en ég snéri mér að manninum og spurði hann ráða hvað ég ætti að gera við mína tvo menn sem biðu ermahnappalausir. Maðurinn var snöggur að finna ráð, láttu þá bretta upp skyrtuermarnar, nógu hátt þá virka þær eins og vöðvar svo verðum við allir eins og Rambó. En Rambó er eins og við munum leikarinn Silvester Stallone, brúnaþungur náungi og mjög alvörugefinn og ekki vitund líkur nokkrum Rotarýmanni, nema að helst væru það vöðvarnir. Þetta var gert og seinna um kvöldið bauðst mér nál og tvinni en þá neitaði minn Rambó með öllu að láta ermarnar niður bara töff með sína vöðva. Kvöldið var algjört æði og lýsi ég því ekki frekar, en eitt veit ég og tek ég hér upp orð vinar míns skólastjórans að það er mikið starf að vera kona Rótarýmanns.