Saga klúbbsins

Rótarýklúbburinn Reykjavík - Austurbær

Nokkur orð um stofnun hans og störf
Úr Rótarýhreygingin á Íslandi 50 ára

Í ársbyrjun 1963 kom Einar Bjarnason, þá-verandi ríkisendurskoðandi, síðar prófessor, til mín og spurðist fyrir um það, hvort ég vildi hjálpa til að stofna nýjan rótarýklúbb í Reykjavík, en Einar var þá umdæmisstjóri rótarýhreyfingarinnar á Íslandi. Hann minntist á veru mína í Rótarýklúbbi Siglufjarðar, á meðan ég bjó þar, og hvatti mig til að taka þátt í undirbúningi þessa nýja klúbbs.

Einar var fylginn sér í þessu máli sem öðrum, og áður en ég var búinn að gefa jákvætt svar við málaleitan hans, sagðist hann koma aftur fljótlega til mín með þá dr. Árna Árnason lækni, Tómas forstjóra Tómasson í Ölgerðinni og Helga Elíasson fræðslumálastjóra til að ræða frekar um stofnun nýja klúbbsins, en þessum mönnum hafði Rótarýklúbbur Reykjavíkur falið að athuga, hvort ekki væri unnt að stofna annan klúbb í Reykjavík.

Framangreindir heiðursmenn komu nokkru síðar til mín í febrúar. Í þeim mánuði og þó sérstaklega í marzmánuði voru frekari möguleikar á fyrrnefndri klúbbstofnun ræddir á ný. Ýmsir mætir menn bættust nú í umræðu hópinn, og urðum við nokkru síðar stofnendur klúbbsins Rótarýklúbburinn Reykjavík- Austurbær.

Ég minnist sérstaklega þeirra Eiríks Eylands deildarstjóra, sem þá var enn í Rótarýklúbbi Akureyrar, Björns Sveinbjörnssonar verkfræðings, Tómasar Helgasonar prófessors, Zophoníasar Pálssonar skipulagsstjóra, Stefáns G. Björnssonar forstjóra, Páls Sigurðssonar læknis, síðar ráðuneytisstjóra, Bárðar Daníelssonar verkfræðings, Jónasar Sigurðssonar skólastjóra, Péturs Pétussonar forstjóra, Gunnars Schram ritstjóra og síðar prófessors, Þorsteins Einarssonar íþróttafulltrúa, Geirs Þorsteinssonar forstjóra, Jónasar Jónssonar forstjóra, Gunnars Skaptasonar tannlæknis. Kristjáns Gunnarssonar fræðslustjóra, Loga Einarssonar hæstaréttardómara, Hjálmars Finnssonar forstjóra, Stefáns Hilmarssonar bankastjóra, Sveins Zöega forstjóra, Kristjáns Kristjánssonar forstjóra frá Akureyri, en hann hafði verið rótarýfélagi þar, Agnars Breiðfjörðs forstjóra, Hreins Pálssonar forstjóra, Sverris Þorbjörnssonar forstjóra, Gústafs E. Pálssonar borgarverkfræðings og Guðmundar St. Gíslasonar málarameistara. Tveir af stofnendunum, Stefán Hilmarsson og Sveinn Zöega, sögðu sig úr klúbbnum, og var eftirsjá að þeim báðum.

Stofnfundur Rótarýklúbbsins Reykjavík - Austurbær var haldinn að Hótel Borg þriðjudaginn 9. apríl 1963. Þá voru eftirtaldir félagar kjörnir í stjórn: Forseti Jón Kjartansson, varaforseti Kristján Kristjánsson, ritari Björn Sveinbjörnsson, gjaldkeri Zophonías Pálsson, stallari Eirík Eylands.

Að loknum stofnfundinum var 1. stjórn-arfundurinn haldinn, einnig að Hótel Borg 5. hæð. Hófst hann kl. 16.30. Þar var rætt um möguleika á fundarstað og inntöku- og árgjöld. Einar umdæmisstjóri sat fundinn og veitti ýmsar upplýsingar og ráðleggingar. Fyrsti reglulegi fundurinn eftir stofnfund var haldinn í Þjóðleikhúskjallaranum 18. apríl 1963 kl. 12.15. Þar var samþykkt, að inntökugjald skyldi vera 500. kr. og árgjald 1000 kr.

Á þessum fundi var skipað í eftirtaldar nefndir: Starfsþjónustunefnd formaður Hreinn Pálsson, þjóðmálanefnd formaður Sverrir Þorbjörnsson, alþjóðanefnd formaður Gunnar Schram, starfsgreinanefnd formaður Tómas Helgason og félagsnefnd formaður Stefán G. Björnsson. Fyrstu endurskoðendur voru kjörnir Logi Einarsson og Hjálmar Finnsson.

Þann 18. apríl s. á. var undirrituð á stjórnarfundi beiðni um inntöku í Rotary International. Stofnhátíð klúbbsins var haldinn í Þjóðleikhúskjallaranum 8. nóvember 1963. Hún var fjölsótt og ánægjuleg í alla staði. Umdæmisstjóri var þá orðinn Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri. Hann og kona hans, frú Lára Árnadóttir, voru heiðursgestir hátíðarinnar, svo og Einar Bjarnason og kona hans, Margrét Jensdóttir.

Ég minnist þess nú, þegar ég rita um klúbbinn okkar og lít til baka, að marzmánuður 1963 var sérlega góður mánuður, mildur og hlýr, meðalhiti hans var 4,7 stig, þá heitasti marz í 34 ár. Þessi veðurblíða hafði góð áhrif á okkur, sem unnum að stofnun klúbbsins. Ég minnist þess einnig, eins og að framan er að vikið, að þetta voru miklir sómamenn. sem hvöttu okkur til þess að stofna þennan klúbb. Helgi Elíasson er nú einn á lífi þeirra fjórmenninga.

Það sem vakti fyrir þeim, sem áttu frum-kvæði að stofnun klúbbs okkar, var annars vegar að fjölga þeim mönnum, sem vilja lifa og starfa í anda Rotary og hins vegar að byggja upp hvíldarstað, þar sem hinir nýju rótarýfélagar gætu hitzt einu sinni í viku, ræðzt við, matazt og kynnzt hver öðrum.

Allar stjórnir klúbbs okkar hafa leitazt við að sinna þessu hlutverki. Hvað viðkemur kynningunni, þá segi ég fyrir mitt leyti, að ég hefi eignazt innan okkar klúbbs góða vini á þessum árum, og innan erlendra klúbba góða og eftirminnilega kunningja. Þessa vini og kunningja tel ég að ég hefði ekki eignazt á lífsleiðinni án Rotary. Ég veit, að fjölmargir rótarýfélagar hafa sömu sögu að segja. Hlýtt hand tak og glaðlegt viðmót geta haft meiri áhrif en maður gerir sér í fljótu bragði ljóst. Smávegis vinahót eru eins og smápeningar. þeir eru að vísu ekki mikils virði hver fyrir sig, en safnast þegar saman kemur og verða þá að fjársjóði.

Á fundunum hjá okkur hafa oft verið á borð bornar margs konar kræsingar, en við höfum einnig á þessum árum notið hins talaða orðs og haft gott af. Á fundi hefi ég alltaf sótt fræðslu, ánægju og hvíld. Ég trúi ekki öðru en félagar mínir geti tekið undir þessa játningu mína. Þá minni eg á, að árlega hafa verið hjá okkur hinir svokölluðu dætrafundir og sonafundir. Hafa þeir í senn aukið ánægju okkar félaganna sem og gestanna, sem hafa verið á "öllum aldri". Þá eigum við d ýrmætar minningar frá þeim fundum og samkomum, þar sem konur okkar hafa verið heiðursgestir - á slíkum stundum er á ferð ein stór rótarýfjölskylda.

Klúbbur okkar hefur árlega boðið til há-degisverðarfundar erlendum stúdentum, sem stunda nám við Háskóla Íslands. Á þeim fundum er alþjóðlegt yfirbragð, og ánægjulegt hefur verið að kynnast sjónarmiðum hinna erlendu gesta. Ýmislegt fleira hefur verið aðhafzt og framkvæmt í klúbbnum, þótt ekki verði tíundað hér.

Það yrði of langt mál að telja alla þá, er gegnt hafa embættum í klúbbnum, en þeir, sem setið hafa í stjórn klúbbsins s. 1. 21 ár, eiga hver og einn skilið beztu þakkir fyrir vel unnin störf. Einnig minnist ég með þakklæti allra þeirra, sem hafa frætt okkur á fundum, sýnt okkur myndir og skyggnur og hvað það nú allt heitir. Hafi þeir allir heila þökk og þá ekki sízt félagi okkar Hjálmar Finnsson forstjóri fyrir gott fordæmi, en hann hefur mætt 100% frá stofn-fundi til þessa dags. S. 1. 10 ár hefur Bárður Daníelsson einnig mætt 100%. Er það honum til sóma og okkur til eftirbreytni.

Í klúbbnum okkar eru nú, þegar þetta er ritað, 68 félagar. Ég hefi ekki orðið var við, að nokkur okkar hafi séð eftir að tengjast rótarýhreyfingunni, kenningum hennar og lífsmynztri. Ef okkur tekst að tileinka okkur þá tillitssemi og heiðarleika, sem er uppi staða og ívaf grundvallarkenninga Rotary, höfum við ekki verið þar innandyra til einskis. Ég minni einnig á, að Rotary International er að mörgu leyti stórveldi í heiminum, þó án venjulegra vopna, lætur gott af sér leiða, varpar víða birtu á leið þeirra hundruða þúsunda, sem starfa undir rótarýmerkinu og á leið margra annarra.

Ég lýk þessari grein með því að minnast eftirtalinna félaga okkar, sem látnir eru:

Agnars Breiðfjörðs forstjóra, Guðmundar St. Gíslasonar málarameistara. Gústafs E. Pálssonar borgarverkfræðings, Hreins Pálssonar forstjóra, Kristjáns Kristjánssonar forstjóra, Sverris Þorbjörnssonar forstjóra, Ásgeirs Magnússonar forstjóra, Baldvins Sveinbjörnssonar lyfsala, Hannesar J. Magnússonar fyrrv. skólastjóra, Svavars Pálssonar forstjóra, Sveins Benediktssonar forstjóra og Sveins B. Valfells forstjóra. Allir voru þessir ágætu menn góðir félagar, og er þeirra sárt saknað.

Jón Kjartansson