Fréttir

26.9.2010

Mögnuð berjaferð að baki

Í gær fóru félagar í Rótarýklúbbi Reykjavík Austurbæ í árlega haustferð sem lengi verður í minni höfð. Þátttaka var mjög góð. 

Berjaferð 2010Hist var við Skarfabakka og þaðan farið á Kjarvalstaði. Þá lá leiðin í Hörpuna þar sem innviðir voru skoðaðir og  okkar ástsælu söngvarar, félagi okkar Bergþór Pálsson og Diddú sungu lög eftir Sigfús Halldórsson. Undirleikari var enginn annar en Jónas Ingimundarson.

Eftir að hafa þegið veitingar var farið að Gvendarbrunnunum þar sem hópnum var veitt fræðsla með vínsmökkunnarívafi. Loks hélt mannskapurinn aftur niður á Skarfabakka og fór þaðan með Viðeyjarferjunni út í Viðey þar sem umsjónarmaður bauð mannskapinn velkominn.  Í Viðeyjarstofu svignuðu borð undan kræsingum og ekki spillti undurfagurt umhverfi matarlystinni. Áður en haldið var heim var minning um John Lennon heiðruð með heimsókn að friðarsúlu Yoko Ono.

Undirbúningur og skipulagning hinnar svokölluðu Berjaferðar var í höndum skemmtinefndar og þar var sannarlega valinn maður í hverju sæti.

Skemmtinefnd í ár skipa þau Svanhildur Konráðsdóttir, menningar- og ferðmálastjóri Reykjavíkurborgar en hún er formaður, Bergþór Pálsson, söngvari, Gyða Björnsdóttir, sérfræðingur, Guðmundur Þorgeirsson, læknir og Þórður Sverrisson, forstjóri.

Fyrir hönd stjórnar og félaga allra í Rótarýklúbbi Reykjavík Austurbær eru þeim færðar bestu þakkir.