Saga klúbbsins

Úr sögu Rótarýklúbbs Neskaupsstaðar

Kafli úr Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára

Rótarýklúbbur Neskaupstaðar var stofnaður vegna forgöngu Rótarýklúbbs Reykjavíkur. Gunnari Ólafssyni, skólastjóra barnaskólans, var fyrst ritað bréf og hann beðinn að kanna möguleikana á stofnun rótarýklúbbs í Neskaupstað, en það kom fyrir ekki. Næsta skref var, að leitað var til Gissurar Ó. Erlingssonar póstmeistara. er brást skjótt við og hóaði saman nokkrum mönnum til að kanna málið, en það leiddi til þess, að ákveðið var að stofna klúbb, og segir svo í fyrstu fundargerð:

"Stofnfundur Rótarýklúbbs Neskaupstaðar var haldinn 13. júní 1965 í Tónabæ kl. 1 1/2 e. h. Til fundarins hafði boðað dr. Árni Árnason, erindreki Rótarýsambandsins. Hafði hann haft samband við nokkra menn í Neskaupstað, sem síðan höfðu talað við við forystumenn starfshópa á staðnum og boðað þá á fundinn.

Dr. Árni Árnason flutti ræðu, þar sem hann lýsti starfsemi rótarýklúbba hérlendis og erlendis. Hann sagði frá starfsemi fyrsta rótarýklúbbs í heiminum og þróun rótarýhreyfingarinnar. Einnig lýsti hann ýtarlega tilgangi þessara samtaka." Stjórn var svo kjörin, og var hún þannig skipuð:

Ófeigur Eiríksson bæjarfógeti formaður
Gissur Ó. Erlingsson póstmeistari varaformaður
Haraldur Guðmundsson prentsmiðjustjóri ritari
Björn Björnsson kaupmaður gjaldkeri
Árni Sigurðsson sóknarprestur stallari

Samþykkt var, að nafn klúbbsins væri Rótarýklúbbur Neskaupstaðar, en að klúbbsvæðið tæki yfir Neskaupstað og Norðfjarðarhrepp .

Stjórn þessi sat svo til 1. júlí 1967, samkvæmt ákvörðun umdæmisstjóra. vegna þess að stofnbréf klúbbsins var ekki komið fyrir þann tíma, sem stjórnarskipti hefðu átt að verða (1. júlí 1966).

Fullgildingarhátíð var haldin 16. ágúst 1966 og voru þar mættir, auk klúbbfélaga og þeirra maka, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, Sigurgeir Jónsson bæjarfógeti í Kópavogi, Tómas Tómasson forstjóri og frú frá Rótarýklúbbi Reykjavíkur og Carl B. Olsen stórkaupmaður frá sama klúbbi.

Umdæmisstjóri afhenti þar fullgildingarskjalið, sem er dagsett 2. maí 1966. Tómas Tómasson afhenti gjöf frá Rótarýklúbbi Reykjavíkur, fundargerðabók bundna í skinn með gylltri áletrun, jafnframt því sem Tómas afhenti forseta forsetakeðju sem gjöf frá sér og konu sinni.

Það má segja, að eftir komu þeirra félaga komst fastara form á allt klúbbstarfið í anda rótarýhreyfingarinnar, þótt erfitt reyndist fyrstu árin að halda klúbbnum gangandi, því að margir af þeim, sem gengu fyrst í klúbbinn, höfðu ekki gert sér fulla grein fyrir því, hvers aðild að klúbbnum krafðist af þeim. Þannig fækkaði félögum fljótlega úr 22 og niður í 16 félaga, og var þá komið að takmörkum þess, að klúbburinn gæti starfað. Allir voru þó ákveðnir í að þrauka, en flýta sér hægt með að fá nýja félaga í klúbbinn, svo að hann óx hægt og sígandi, en öruggt. Samstaða varð mjög góð með félögum, og allur andi, sem þar sveif yfir vötnum, var sannur rótarýandi. Verkefni komu svo af sjálfu sér.

Áhugi klúbbfélaga beindist fyrst í stað einkum að safnamálum. náttúruverndar-málum og umhverfismálum. Umræður á fundum klúbbsins um varðveislu á einum af fyrstu vélbátum. sem kom til Norðf jarðar, varð til þess að koma því máli í höfn, og var báturinn Hrólfur Gautreksson tekinn til viðgerðar og er nú varðveittur í húsi.

Stór skriða féll úr fjallinu inn og upp af bænum og gerði þar ljótt og stórt sár í gróður fjallsins. Rótarýfélagar tóku sig til og báru á sjálfum sér bæði fræ og áburð upp fjallið og græddu sárið að mestu á þremur árum. Í mörg ár hefur verið farið hér upp í fjallið á vorin og plantað þar skógi ásamt Skógræktarfélagi Neskaupstaðar. Mun þetta nú nema nokkrum tugum þúsunda plantna, sem við höfum gróðursett þar, og vonandi verður þessu starfi haldið áfram þar til fjallið verður að mestu skógi klætt.

Farið er tvisvar á ári á Elliheimilið og vistfólki skemmt með hljóðfæraslætti, upplestri, skuggamyndum o. fl.

Þegar unglingar útskrifuðust úr Gagn-fræðaskólanum hér, veitti klúbburinn bókaverðlaun. ein fyrir bestu einkunn í íslensku og önnur fyrir mestu framfarir á síðasta ári í stærðfræði og eðlisfræði.

Í félagi við Egilsstaðaklúbbinn reisturn við útsýnisskífu á Fjarðarheiðarbrún. þar sem útsýni er talið fegurst yfir Fljótsdalshérað og umhverfi.

Hér á Austurlandi eru aðeins tveir rótarýklúbbar, okkar klúbbur og Egilstaðaklúbburinn, svo að ekki höfum við gert mikið að því að heimsækja aðra klúbba, þar sem um langan veg er að fara. Þó hefur verið farið í heimsókn til Rótarýklúbbs Húsavíkur, en aftur á móti hefur okkar klúbbur og Egilsstaðaklúbburinn heimsótt hvor annan nokkuð reglulega einu sinni á ári, þótt fallið hafi úr ár.

Einn þáttur í fundarhöldum okkar hefur verið ákaflega vinsæll, en það er konufundur, sem við höldum árlega að Hallormsstað. Við förum seinnipart laugardags upp að Hallormsstað og höldum þar fund um kvöldið, sem stendur mun lengur og er með öðru sniði en venjulegir fundir. Gist er að Hallormsstað um nóttina, en á sunnudagsmorguninn hittumst við svo við morgunverðarborðið. og ef veður er gott, skoðum við Héraðið á sunnudaginn, svona í heimleiðinni.

Árið !968 fór þáverandi forseti okkar, Gissur O. Erlingsson, sem leiðsögumaður sex ungra manna, er boðið var í kynnis för til Bandaríkja Norður-Ameríku á vegum Rotary Foundation, og 1978 þegar sams konar boð, barst um að senda sex ungmenni til Astralíu á vegum Rotary Foundation, vorum við svo heppnir, að sá sem við tilnefndum til fararinnar, Svavar Stef-ánsson, sóknarprestur okkar, varð fyrir valinu sem einn af þessum sex. Svavar gerðist svo síðar góður rótarýfélagi í klúbbnum.

Rótarýklúbbur Neskaupstaðar sendir Rótarýklúbbi Reykjavíkur hugheilar rótarýárnaðaróskir á hálfrar aldar afmælinu.

Björn Björnsson.