Fréttir
  • Olga Lísa

31.10.2011

Reynsla af Rótarý

Bakþankar í Austurgluggann

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá boð um að ganga í Rótarý hreyfinguna sl. vetur. Síðan þá hef ég mætt á fund einu sinni í viku, hitt félaga mína í klúbbnum, hlustað á upplestur, ljóðalestur og fræðst um allskyns samtök, fyrirtæki og stofnanir í nærsamfélagi mínu. Einkar gefandi og notaleg kvöldstund sem ég hlakka alltaf til að upplifa.

Stundum fáum við boð í fyrirtæki og er það ekki síður fróðlegt og líður mér seint úr minni leiðsögnin sem við fengum um Síldarvinnsluna sl. vor. Fyrir viku mættu tveir nemendahópar úr Verkmenntaskóla Austurlands til okkar á fund og kynntu fyrir okkur verkefni um dvergvöxt og klónun. Mjög áhugaverð fræðsluerindi sem nemendur í erfðafræði notuðu sem fjáröflun til að fjármagna heimsóknir í fyrirtæki sem sinna erfðafærði rannsóknum í Reykjavík.

Í þessari viku heimsóttu fimm rótarýfélagar frá Ástralíu klúbbinn minn, en eitt af megin markmiðum Rótarý er að tengja fólk saman, ekki síst frá ólíkum löndum og menningarheimum. Þar er einnig leitast eftir að klúbbmeðlimir komi úr sem fjölbreyttustu starfstéttum, þannig er lærdómsríkt að kynnast ólíkum hlutverkum meðlima. Ástralarnir fræddu okkur um uppruna sinn og þau landsvæði sem þau koma frá í Ástralíu. Hópurinn var á Íslandi í þrjár vikur og heimsótti rótarýklúbba vítt og breytt um landið. Þau höfðu á orði hvað matur hér væri ferskur og landið einstaklega fallegt og tært og hvergi hefðu þau fengið betra vatn. Ísland er jú eitt auðugasta land í heimi hvað varðar vatnsbúskap.

Olga Lísa

Olga Lísa í Galtarey á Breiðafirði

Ég fékk einnig tækifæri til að sýna þeim Verkmenntaskóla Austurlands og var gaman að bera okkar skóla saman við þeirra en í hópnum voru skólastjóri og kennari. Samtal á milli heimsálfa er ómetanlegt, fróðlegt og gefandi. Þátttaka í jákvæðum félagsskap í nærumhverfinu gefur aðra vídd í tilveruna og er mikilvægt mótvægi við hversdaginn.

Olga Lísa Garðarsdóttir
s
kólameistari VA