Heimsókn í Listasel
Erla Axelsdóttir listakona leiddi okkur um lundinn sinn ljúfa og fallega og sagði okkur frá því þegar foreldrar hennar keyptu landið og byrjuðu trjárækt hér árið 1943 en og þá var landið einungis melar og móar og herbúðir um alla heiðina. Landið nefndu þau Selmörk. Í dag er landið skógi vaxinn unaðsreitur þar sem sjá má fallegar styttur eftir Axel föður Erlu og kómísk og hugkvæm listaverk bónda hennar Guðfinns Kjartanssonar sem vísa til gamalla orðtækja eins og Sestur í helgan stein, Hrókur alls fagnaðar og Þar liggur hundur grafinn. Allt um kring skartaði landið sínum fegurstu haustlitum.
Eftir gönguferðina tók félagi okkar Gulli á móti okkur með ilmandi íslenskri kjötsúpu sem fólk gerði góð skil og naut samverunnar í fallega listaselinu hennar Erlu Axelsdóttur.
Erla sagði okkur svo frá sjálfri sér, list sinni og vinnustofu. Hún er fædd árið 1948 og stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík og í Skidmore, Saratoga Springs í N.Y. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1979 en þær eru margar síðan þá . Erla var einn stofnenda Art-Hún en Art-Hún var fyrsta starfsemi sinnar tegundar þar sem listamenn voru með sínar vinnustofur og gallerí á sama stað.Erla hefur einnig dvalið í París við list sína en í nokkur skipti hefur hún fengið afnot af Kjarvalsstofu á Cite des International Arts. Fyrir 5 árum réðust þau hjónin svo í að byggja þetta fallega hús sem hýsir vinnustofu Erlu og nefndu það Listasel. Stundum breytist svo listasel í skáksel þegar bóndinn heldur hér skákmót.
Erla bæði sýndi okkur og sagði frá myndunum sínum. Vinnuaðferðir hennar byggjast á blandaðri tækni og grafík og hún notar bæði liti, tjöru, gull og olíu. Mótívin er oftast nærmyndir úr náttúrunni og inní þau vilja flettast lóðin sem hún fann í París og minntu hana á manneskjur.
Knútur bregður á leik og er sestur í helgan stein.
Erla segir frá.
Sungin voru nokkur lög undir vaskri stjórn kórstjórans.