Fréttir

10.9.2012

Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012

Palli HelgaFélagi okkar Páll Helgason, tónlistarmaður og kórstjóri var sæmdur viðurkenningunni Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012 á bæjarhátíðinni Í túninu heima í lok ágúst. Við í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar óskum honum hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.

 

Palli HelgaÁ mos.is kemur fram að  Páll Helgason tónlistarmaður hafi verið valinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012. Páll hefur átt langan, fjölbreyttan og farsælan feril í tónlist. Hann hóf tónlistarferilinn í fæðingarbæ sínum Akureyri rétt eftir tvítugt. Þá spilaði hann á gítar og bassa m.a. með hljómsveit Ingimars Eydal á hótel KEA. Páll stundaði síðar nám við Tónlistarskóla Mosfellshrepps undir stjórn Ólafs Vignis Albertssonar og lauk þaðan 8.stigi í tónfræðum. Hann kenndi ennfremur tónlist við Klébergsskóla um árabil.

Páll hefur verið afkastamikill í kórastarfi og komið að stofnun fjölda kóra. Þar má nefna Álafosskórinn, Mosfellskórinn, Vorboða – kór eldri borgara í Mosfellsbæ, Landsvirkjunarkórinn og Karlakór Kjalnesinga. Blómlegt söngstarf þrífst í öllum þessum kórum í dag. Páll söng í Karlakórnum Stefni undir stjórn Lárusar heitins Sveinssonar um nokkra hríð. Þá hefur hann verið organisti meðal annars í Brautarholtskirkju og Saurbæjarkirkju og Reynivallakirkju.