Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012
Félagi okkar Páll Helgason, tónlistarmaður og kórstjóri var sæmdur viðurkenningunni Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012 á bæjarhátíðinni Í túninu heima í lok ágúst. Við í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar óskum honum hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.
Á mos.is kemur fram að Páll Helgason tónlistarmaður hafi verið valinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012. Páll hefur átt langan, fjölbreyttan og farsælan feril í tónlist. Hann hóf tónlistarferilinn í fæðingarbæ sínum Akureyri rétt eftir tvítugt. Þá spilaði hann á gítar og bassa m.a. með hljómsveit Ingimars Eydal á hótel KEA. Páll stundaði síðar nám við Tónlistarskóla Mosfellshrepps undir stjórn Ólafs Vignis Albertssonar og lauk þaðan 8.stigi í tónfræðum. Hann kenndi ennfremur tónlist við Klébergsskóla um árabil.
Páll hefur verið afkastamikill í kórastarfi og komið að stofnun fjölda kóra. Þar má nefna Álafosskórinn, Mosfellskórinn, Vorboða – kór eldri borgara í Mosfellsbæ, Landsvirkjunarkórinn og Karlakór Kjalnesinga. Blómlegt söngstarf þrífst í öllum þessum kórum í dag. Páll söng í Karlakórnum Stefni undir stjórn Lárusar heitins Sveinssonar um nokkra hríð. Þá hefur hann verið organisti meðal annars í Brautarholtskirkju og Saurbæjarkirkju og Reynivallakirkju.