Jeppaferðir klúbbsins

Jeppaferðir Rótarýklúbbs Keflavíkur

Rótarýfélagar í jeppaferð á hálendinu.Á árunum fyrir 1990 höfðu félagar í Rótarýklúbbi Keflavíkur farið nokkrar fjallaferðir á rútum, enda voru í klúbbnum margir sem stundað höfðu slíkar ferðir um árabil. Árið 1990 kom upp sú hugmynd í klúbbnum, að gaman væri að fara í helgarferð um hálendið á einkajeppum, en þá áttu margir félagar góða jeppa til slíkra ferða. Strax í upphafi var ákveðið að leiðir yrðu valdar með tilliti til þess að óbreyttir jeppar gætu tekið þátt í ferðinni. Tekið var vel í þessa hugmynd og var fyrsta ferðin farin um mánaðamótin september / október það ár. Farið var snemma á laugardagsmorgni og haldið í Landmannalaugar um Sigöldu á um 10 jeppum. Er menn höfðu komið sér fyrir í skála var farið í gönguferð í Grænagil. Að henni lokinni fóru sumir í laugina og slöppuðu af. Eftir grillmáltíð var haldin kvöldvaka. Margir höfðu undirbúið skemmtiatriði og sungið var við gítarundirleik. Daginn eftir var haldið heim á leið um Dómadal og farið um Mógilshnjúka í Reykjadali og yfir Markarfljót við Laufafell og suður Syðri fjallabaksleið um Langvíuhraun. Í þessari ferð myndaðist það form sem átti eftir að vera á þessum ferðum á næstu árum. Farið var um mánaðamótin september / október. Fararstjóri í ferðunum var undirritaður. Reynt var að hafa CB talstöð í hverjum bíl og lýsti fararstjóri staðháttum og leiðum. Félögum sem ekki áttu jeppa var boðið far og sumir leigðu sér jeppa til ferðanna. Flestar ferðirnar tengdust fjallabaksleiðunum syðri og nyrðri og voru gististaðir Landmannalaugar, Hvanngil og Hrauneyjar. Rótarýfélagar í jeppaferð á hálendinu.Margar leiðir eru á þessu svæði og fyrir utan fallabaksleiðirnar var farið um Emstrur, Mógilshöða, Tindfjallahring, Ölduselsleið og Rauðufossafjöll svo eitthvað sé nefnt. Einnig var farið um Gnjúpverja- og Skeiðamannaafrétti, Kerlingafjöll og gist í Setrinu skála 4x4 klúbbsins. Tvær ferðir eru sérstaklega minnisverðar. Árið 1994 var haldið í Veiðivötn og þaðan í Jökulheima. Eftir stuttan stans þar var farið yfir Tungná sem oftast er talsvert vatnsmikil, en á þessum árstíma oft fær venjulegum jeppum. Það gekk áfallalaust yfir ána og var haldið upp á fjallgarðinn milli Langasjávar og Tungnár sem heitir Tungnárfjallgarður. Þegar þangað var komið hafði snjóað umtalsvert og var færi orðið þungt fyrir óbreytta jeppa. Við Breiðbak, sem er hæsti tindur Tungnárfjalla 1.018 metrar, var færið orðið þannig að betur útbúnu jepparnir drógu þá óbreyttu, svo ferðin sóttist fremur seint. Þaðan var haldið að Sveinstindi við enda Langasjávar, niður á nyrðri fjallabaksleið og í Landmannalaugar. Rótarýfélagar í jeppaferð á hálendinu.Snjór var talsverður á allri leiðinni og var ekki komið í skála fyrr en um níu. Menn voru þreyttir en ánægðir með langa og erfiða dagsferð frá Keflavík að morgni. Árið 1997 var haldið á Kjalveg og ekið til Hveravalla. Þaðan var haldið yfir Blöndu, sem er venjulega mikið vatnsfall, en við höfðum haft fréttir af því að hún væri fær. Gekk það vel og einnig að komast yfir Ströngukvísl, sem oft er líka vatnsmikil. Haldið var í Ingólfsskála sem er í eigu Skagfirðinga og er norðvestur af Hofsjökli. Þaðan var haldið norður fyrir Sævar ReynissonHofsjökul í Laugafell og áfram suður Sprengisand í Nýjadal og gist þar. Þetta var langur og viðburðaríkur dagur. Daginn eftir héldu ævintýrin áfram og var haldið að Sóleyjarhöfða við Þjórsá, en þar er gamalt vað á ánni. Fyrir neðan höfðann breiðir áin úr sér og er eins og hafsjór yfir að líta, um 300 metra breið. Maður var látinn vaða ána á undan bílunum og allur flotinn alls 12 bílar keyrðu yfir. Gekk það að mestu áfallalaust. Einn bíll festist í ánni og tók nokkurn tíma að koma honum að landi. Síðan var haldið niður Þjórsárver, Norðurleit, Gljúfurleit og niður á þjóðveg við Sultartangavirkjun. Þetta var mikil ævintýraferð. Alls voru farnar 11 ferðir á 12 árum, og hætt var við eina ferð vegna veðurs. Fæstir voru bílarnir 8 en flestir 14. Fjöldi var mestur 45.

Sævar Reynisson