Lög klúbbsins

SÉRLÖG RÓTARÝKLÚBBS KEFLAVÍKUR

1.      grein   Gildissvið og skilgreiningar

Sérlög þessi eru sett með vísan til 17. gr. grundvallarlaga Rótarýklúbbs Keflavíkur frá 27.09.2012 og eru þeim til fyllingar. Grundvallarlögin og sérlögin ber að skoða sem eina heild.

 

Í sérlögum þessum hafa orðin hér á eftir þá merkingu sem hér segir nema annað leiði augljóslega af samhenginu:

 

a)    Stjórn:                            Stjórn klúbbsins.

b)    Stjórnarmaður:             Stjórnarmaður í klúbbnum.

c)     Félagi:                             Félagi annar en heiðursfélagi í klúbbnum.

d)    RI:                                   Rotary International.

e)     Ár:                                   12 mánaða tímabil sem hefst 1. júlí.

f)     Fráfarandi forseti:        Fyrrverandi forseti klúbbsins er síðast lét af störfum.

 

2.      grein   Stjórn

 

Stjórn klúbbsins skipa sex félagar, þ.e. forseti, verðandi forseti sem jafnframt er varaforseti, ritari, gjaldkeri, stallari og fráfarandi forseti.

 

3.      grein   Stjórnarkjör

 

1.     Forseti klúbbsins skal á fyrsta klúbbfundi í nóvember ár hvert leita eftir tilnefningum félaga um stjórnarmenn, þ.e. forseta,  ritara, gjaldkera og stallara. Tilnefning skal vera skrifleg og afhent ritara eigi síðar en 10 dögum síðar. Hver félagi má tilnefna einn mann í hvert embætti. Tilnefningar er berast skulu skráðar á kjörseðil í stafrófsröð fyrir hvert embætti fyrir sig sem lagður er fram og kynntur á kjörfundi þar sem fram fer atkvæðagreiðsla. Þeir frambjóðendur í embætti forseta,  ritara, gjaldkera og stallara er flest atkvæði fá skulu lýstir kjörnir í viðkomandi embætti. Sá félagi sem þannig er kjörinn forseti nefnist tilnefndur forseti. Á því ári sem hefst 1. júlí eftir kjör hans nefnist hann verðandi forseti og er þá jafnframt varaforseti klúbbsins. Hann tekur síðan við sem forseti 1. júlí þar á eftir.

2.     Stjórn klúbbsins gerir tillögur um varamenn í stjórn og tvo skoðunarmenn reikninga og skal einnig kjósa þá á kjörfundi ár hvert.

3.     Stjórnarmenn sem kosnir eru skv. lið 1. ásamt fráfarandi forseta mynda stjórn klúbbins og tekur hún við stjórn klúbbsins á fyrsta fundi í júlímánuði sem jafnframt er aðalfundur klúbbsins.

4.     Forfallist stjórnarmaður skulu aðrir stjórnarmenn velja eftirmann/menn.

5.     Forfallist verðandi stjórnarmaður skulu aðrir verðandi stjórnarmenn velja eftirmann/menn.

 

 

4.      grein   Skyldur stjórnar- og annarra embættismanna

 

1.     Forseti. Forseti stýrir klúbb- og stjórnarfundum. Hann er málsvari klúbbsins og sinnir öðrum þeim skyldum sem venjulega fylgja embætti forseta.

2.     Varaforseti –verðandi forseti. Varaforseti stýrir klúbb- og stjórnarfundum í fjarveru forseta og sinnir öðrum þeim skyldum sem venjulega fylgja embætti varaforseta.

3.     Ritari. Ritari annast allar bréfaskriftir, heldur félagaskrá, sendir út tilkynningar frá stjórn og nefndum klúbbsins og skráir fundargerðir klúbb- og stjórnarfunda og varðveitir þær ásamt fundargerðum nefnda. Ritari hefur umsjón með gerð fréttabréfs klúbbsins þegar stjórn ákveður að gefa út fréttabréf og sendir það til klúbbfélaga, annarra klúbba í umdæminu, umdæmisstjóra og annarra skv. ákvörðun stjórnar. Hann útbýr og sendir til RI eftirtaldar skýrslur:

3.1    Misserisskýrslu 1. janúar og 1. júlí ár hvert ásamt árgjöldum félaga sem þá eru í klúbbnum.

3.2     Breytingar á félagaskrá og starfsgreinum.

3.3    Tilkynningar um stjórnarkjör eigi síðar 31. desember ár hvert.

3.4    Önnur skjöl og tilkynningar sem RI kann að mæla fyrir um.

3.5    Áskriftargjald fyrir Rotary Norden.

Ritari sendir umdæmisstjóra:

3.6    Samrit tilkynninga til RI

3.7    Tilkynningar um breytingar á fundarstað og tíma.

Eitt samrit af öllum ofangreindum skjölum skal varðveitt í skjalasafni klúbbsins.

Ritari skráir upplýsingar um nýja félaga og þá er hætta, allar mætingar klúbbfélaga á klúbbfundi, nefndarfundi eða á aðra viðburði er gefa mætingu á vef Íslenska Rótarýumdæmisins. Hann skráir einnig mætingar annarra rótarýfélaga sem taka þátt í fundum eða öðrum viðburðum á vegum klúbbsins. Skráning skal framkvæmd sem fyrst eftir hvern viðburð og eigi síðar en innan 15 daga frá síðasta fundi mánaðar. Ritari skal einnig sinna öðrum skyldum sem venjulega fylgja embætti ritara.

4.     Gjaldkeri. Gjaldkeri ber ábyrgð á öllum sjóðum klúbbsins og gerir grein fyrir þeim árlega svo og hvenær sem stjórn óskar eftir. Þá skal hann sinna öðrum þeim skyldum sem venjulega fylgja embætti gjaldkera, sjá einnig 12. grein. Við starfslok skal gjaldkeri afhenda viðtakandi gjaldkera eða viðtakandi forseta alla sjóði klúbbsins, sjóðsbækur og aðrar eigur klúbbsins

5.     Stallari. Stallari undirbýr fundi og sér m.a. um að salarkynni og nauðsynlegur búnaður sé til staðar. Hann tekur við greiðslum frá gestum og þeim félögum sem ekki greiða fast mánaðargjald með greiðslukorti og gengur frá uppgjöri eftir hvern fund m.a. með upplýsingum um heildarfjölda matargesta. Hann er ritara til aðstoðar við umsjón með mætingum og við skráningu þeirra. Stallari tekur á móti gestum sem sækja fundi, sér um að þeir skrái nöfn sín í gestabók klúbbsins og kynnir þá fyrir klúbbfélögum. Hann varðveitir og heldur skrá um fána og aðra muni klúbbsins og sinnir þeim skyldum öðrum sem venjulega fylgja embætti stallara og sem forseti eða stjórn mæla fyrir um.

6.     Fráfarandi og fyrrverandi forsetar. Fráfarandi forseti situr í stjórn klúbbsins árið eftir að hann lætur af störfum. Hann stýrir klúbb- og stjórnarfundum í fjarveru forseta ef varaforseti er einnig forfallaður og sinnir öðrum störfum að ósk forseta. Ef forseti, varaforseti og fráfarandi forseti eru allir forfallaðir skal sá  fyrrverandi forseti er síðast lét af störfum og næst til annast fundarstjórn.

7.     Skjalavörður. Stjórn skipar skjalavörð, einn eða fleiri. Skjalavörður varðveitir fundargerðarbækur og öll skjöl klúbbsins önnur en þau sem hverju sinni eru í vörslu stjórnar. Hann sinnir að öðru leyti þeim störfum sem forseti eða stjórn fela honum.

 

 

5.      grein   Fundir

 

1.      Kjörfundur er fyrsti fundur í desember ár hvert. Á honum skal kjósa stjórn og skoðunarmenn reikninga næsta starfsárs, sbr 3. grein. Á kjörfundi skal einnig kjósa í stjórn sjóðsins Suður með sjó í samræmi við ákvæði í reglugerð hans.

2.     Aðalfundur er fyrsti fundur í júlí ár hvert. Á aðalfundi skal forseti gera grein fyrir ársskýrslu stjórnar. Gjaldkeri skal leggja fram endurskoðaðan ársreikning til samþykktar og skýra hann. Í ársreikningi skal gera grein fyrir hverjum sjóði fyrir sig, þ.e. rekstrarsjóði, þjónustuverkefnasjóði og sjóðnum Suður með sjó. Ritari leggur fram og skýrir sína ársskýrslu og stallari gefur skýrslu um fána og aðra muni í eigu klúbbsins. Eintak af skýrslum þessum og ársreikningum skal skjalavörður varðveita. Heimilt er að fresta framlagningu og afgreiðslu ársreiknings um mest tvo fundi.

Ný stjórn tekur við störfum á aðalfundinum og leggur fram fjárhagsáætlun fyrir starfsárið og tillögu að félagsgjaldi til samþykktar.

3.     Reglulega fundi klúbbsins skal halda á hverjum fimmtudegi kl. 18:30. Tilkynna skal klúbbfélögum í tæka tíð breytingar á fundartíma eða að fundur falli niður. Halda skal skrá yfir mætingar eða fjarveru klúbbfélaga annarra en heiðursfélaga (eða félaga án mætingarskyldu skv. grundvallarlögum klúbbsins) á klúbbfundum. Það telst mæting ef klúbbfélagi er viðstaddur 60% af fundartíma klúbbsins eða annars rótarýklúbbs eða eins og kveðið er á um í grein 9, lið 1 og 2 í grundvallarlögum klúbbsins.

4.     Allir klúbbfundir eru ályktunarfærir í öllum málum þegar a.m.k. þriðjungur félaga eru á fundi. Sjá þó ákvæði um lagabreytingar í grein 16.

5.     Stjórnarfundi skal að jafnaði halda mánaðarlega. Auk þess skal halda stjórnarfundi ef forseti ákveður eða tveir aðrir stjórnarmenn óska þess.

6.     Stjórnarfundir eru ályktunarfærir ef meirihluti stjórnarmanna er á fundi. Afl atkvæða ræður úrslitum. Atkvæði forseta sker úr ef atkvæði eru jöfn.

7.     Stefnt skal að því að árlega verði haldnir fjölskyldufundir, makafundir, árshátíð eða skemmtifundir og að klúbbfélagar fari saman í ferðalag.

 

 

6.      grein   Félagsgjöld

 

Stjórn gerir tillögu um félagsgjald sem innheimt er mánaðarlega sbr. nánara ákvæði í 12. grein.  Nýir félagar greiða félagsgjald frá þeim tíma sem þeir eru teknir inn í klúbbinn. Nýir félagar greiða ekki inntökugjald.

 

 

 

 

 

 

7.      grein   Framkvæmd kosninga

 

Atkvæðagreiðslur um málefni klúbbsins skulu fara fram með handauppréttingu nema kosning stjórnarmanna, skoðunarmanna reikninga og í stjórn sjóðsins Suður með sjó sem skal vera skrifleg. Stjórn getur ákveðið að atkvæðagreiðslur um ákveðin mál verði skriflegar.

 

 

8.      grein   Þjónustuleiðirnar fimm

 

Þjónustuleiðirnar fimm marka hugsjónalega og verklega umgjörð um starfsemi klúbbsins, sbr. 5. grein í grundvallarlögum hans. Þær eru klúbbþjónustan, starfsgreinaþjónustan, samfélagsþjónustan, alþjóðaþjónustan og ungmennaþjónustan. Klúbburinn skal taka mið af öllum þessum þjónustuleiðum í starfi sínu.

 

 

9.      grein   Nefndir

 

Klúbbnefndum er ætlað á grundvelli þjónustuleiðanna fimm  að vinna að því að uppfylla markmið klúbbsins bæði til lengri og skemmri tíma. Verðandi forseti, forseti og fráfarandi forseti skulu vinna saman til að tryggja samfellu í stjórnun klúbbsins og áætlanagerð. Þegar mögulegt er skulu nefndarmenn skipaðir til allt að þriggja ára til að tryggja samfellu. Verðandi forseti skal velja félaga í nefndir í stað þeirra er hætta, skipa nefndarformenn og stjórna fundum fyrir upphaf starfsársins til að skipuleggja starfið. Mælt er með að nefndarformaður hafi áður setið í viðkomandi nefnd. Fastanefndir skulu vera:

 

·         Klúbbþjónustunefnd. Nefndin ber ábyrgð á klúbbþjónustustörfum og skal samræma störf þeirra nefnda sem skipaðar eru til að fjalla um einstaka þætti klúbbþjónustunnar. Stjórn klúbbsins getur falið nefndinni að hafa umsjón með fundarefni í júlí, nóvember og mars.

Klúbbþjónustunefnd hefur yfirumsjón með starfi eftirtalinna fastanefnda:

o    Félagavalsnefnd. Nefndin skal koma á og innleiða leiðir til að ná til nýrra félaga og að halda þeim í klúbbnum.

o    Starfsgreinanefnd. Nefndin skal gera skrá yfir þær starfsgreinar í umdæmi klúbbsins sem talið er að átt gætu fulltrúa í klúbbnum og hverjar þeirra eiga fulltrúa í klúbbnum. Nefndin skal endurskoða starfsgreinaskrána reglulega í samráði við stjórn og benda á mikilvægar starfsgreinar sem ekki eiga fulltrúa í klúbbnum. Við gerð starfgreinaskrár skal farið eftir reglum og leiðbeiningum RI og tekið mið af starfgreinaskrá RI.

o    Félagakynningarnefnd. Nefndin skal vinna að nánari kynnum, samskiptum og tengslum félaganna og huga sérstaklega að nýjum félögum.

o    Framkvæmdanefnd. Nefndin skal stýra viðburðum sem stuðla að öflugu klúbbstarfi.

o    Rótarýfræðslunefnd. Nefndin skal vinna að því að rótarýfélagar, nýir sem eldri, fái fræðslu um réttindi og skyldur sem fylgja aðild að rótarýklúbbi og haldgóða fræðslu um rótarýmál almennt, svo sem um sögu Rótarý og markmið og starfsemi rótarýklúbba og RI.

·         Starfsþjónustunefnd. Nefndin skal sjá um að klúbbfélagar haldi fræðsluerindi um starfsgrein sína svo félagar fái innsýn í og skilning á starfi hvers annars og á því þjónustuhlutverki sem hver félagi gegnir í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Stjórn klúbbsins getur falið nefndinni að hafa umsjón með fundarefni í ágúst, desember og apríl.

·         Þjóðmálanefnd. Nefndin skal sjá um að helstu mál bæjarfélaga á starfssvæði klúbbsins og þjóðfélagsins verði jafnan kynnt fyrir félögum og leggja fram tillögur um hvernig klúbbfélagar geta best lagt þessum málum lið. Stjórn klúbbsins getur falið nefndinni að hafa umsjón með fundarefni í september og maí.

Þjóðmálanefnd hefur yfirumsjón með starfi eftirtalinna fastanefnda:

o    Kynningarnefnd. Nefndin skal gera áætlun um kynningu meðal almennings um Rótarý og á þjónustuverkefnum klúbbsins og starfi og fylgja henni eftir.

o    Þjónustunefnd. Nefndinni er ætlað að taka saman hugmyndir um þjónustuverkefni tengd fræðslu-, mannúðar- og atvinnumálum sem þarf að sinna á starfssvæði klúbbsins eða erlendis og koma þeim í framkvæmd.

·         Alþjóðanefnd. Nefndin skal sjá um að félagar verði fræddir um viðhorf Rótarý til alþjóðamála og á hvern hátt Rótarýfélagsskapurinn og einstakir félagar geta best stuðlað að og eflt velvild og gagnkvæman skilning milli þjóða. Stjórn klúbbsins getur falið nefndinni að hafa umsjón með fundarefni í febrúar og júní.

Alþjóðanefnd hefur yfirumsjón með starfi Rótarýsjóðsnefndar.

·         Rótarýsjóðsnefnd. Nefndin skal vinna að stuðningi við Rótarýsjóðinn bæði með beinum framlögum félaga og annarri fjáröflunarstarfsemi.

 

·           Ungmennaþjónustunefnd. Nefndin skal kynna fyrir klúbbfélögum og ungu fólki störf og verkefni sem Rótarýhreyfingin vinnur að og tengjast ungmennum svo sem nemendaskiptum, ungmennaskiptum, sumarbúðum, námsstyrkjum, Rotaract, RYLA, námshópaskiptum o.fl. Nefndin skal hvetja félaga og ungmenni til þátttöku í þessu starfi og hafa yfirumsjón með þeim ungmennaverkefnum sem klúbburinn ákveðjur að ráðast eða taka þátt í og þeim nefndum er kunna að verða skipaðar vegna slíkra verkefna. Nefndin er tengiliður við ungmennaþjónustu- og æskulýðsnefndir íslenska rótarýumdæmisins. Stjórn klúbbsins getur falið nefndinni að hafa umsjón með fundarefni í janúar og október.

 

Forseta og stjórn er heimilt að skipa nefndir um sérstök verkefni eftir þörfum.

 

a)       Forseti klúbbsins er í krafti embættis síns sjálfskipaður í allar nefndir klúbbsins með full réttindi nefndarmanns og skal fylgjast með því að þær ræki skyldur sínar. Hann getur kvatt nefndir til að sitja stjórnarfundi.

b)       Hver nefnd skal sinna verkefnum í samræmi við ákvæði þessara sérlaga auk þeirra verkefna sem þeim eru falin af forseta eða stjórn. Sérverkefni hverrar nefndar skulu tilgreind í erindisbréfi forseta til nefndarmanna. Hafi nefnd ekki sérstaka heimild skal hún ekki setja verkefni í framkvæmd nema hafa áður kynnt verkefnið fyrir stjórn og fengið heimild hennar. Nefndir skulu að öðru leyti starfa eftir þeim reglum sem þeim eru settar af RI.

c)       Nefndarformaður er ábyrgur fyrir starfi nefndarinnar og að haldnir séu fundir reglulega. Hann fylgist með og stýrir nefndarstarfinu og upplýsir stjórn um starfið.

 

 

10.  grein   Skyldur nefnda

 

Forseti skal yfirfara og endurskoða skyldur allra nefnda fyrir hans starfsár og styðjast við viðeigandi skilgreiningar frá RI. Þjónustunefndin skal í sínu starfi taka mið af Starfsgreinaþjónustunni, Samfélagsþjónustunni og Alþjóðaþjónustunni.

 

Hverri  nefnd skal í upphafi árs markaður ákveðinn starfsrammi þar sem tilgreind eru markmið og starfsáætlun til að vinna að á árinu. Verðandi forseti skal setja það á oddinn að útbúa markmið og starfsáætlanir fyrir nefndir klúbbsins og kynna stjórn fyrir upphaf ársins.

 

 

11.  grein   Undanþága frá fundarsókn

 

Stjórn er heimilt að veita félaga undanþágu frá fundarsókn í mest tólf mánuði hafi hann óskað eftir því skriflega með rökstuðningi er stjórnin metur gildan, sjá einnig ákvæði í 9. grein grundvallarlaga klúbbsins.

 

 

12.  grein   Fjármál

 

1.     Stjórn skal fyrir upphaf hvers fjárhagsárs gera fjárhagsáætlun, þ.e. áætlun um tekjur og gjöld. Útgjöldum ber að halda innan ramma áætlunarinnar nema tillaga stjórnar um breytingar verði samþykkt á klúbbfundi. Fjárhagsáætlun skal sundurliðuð þannig að hún sýni annars vegar útgjöld vegna venjulegrar starfsemi klúbbsins og hins vegar útgjöld vegna þjónustuverkefna.

2.     Félagsgjald skal ákveðið með hliðsjón af fjárhagsáætlun og innifelur árgjald klúbbsins, gjöld til RI og umdæmis, áskrift að Rotary Norden og matarkostnað.

3.     Gjaldkeri skal varðveita fé klúbbsins á bankareikningi samkvæmt ákvörðun stjórnar. Fénu skal skipt í tvo sjóði, þ.e. rekstrarsjóð og sjóð vegna þjónustuverkefna.

4.     Gjaldkeri eða annar stjórnarmaður til þess valinn skal sjá um greiðslu reikninga en áður skulu tveir stjórnarmenn samþykkja þá með áritun sinni.

5.     Kjörnir skoðunarmenn skulu yfirfara og árita ársreikning klúbbsins.

6.     Fjárhagsár klúbbsins er frá 1. júlí til 30. júní. Félagsgjald skal innheimta mánaðarlega. Greiðsla árgjalda til RI og áskriftargjald vegna Rotary Norden skal greiða 1. júlí og 1. janúar ár hvert miðað við fjölda klúbbfélaga á þeim tíma.

7.     Sjóðurinn Suður með sjó er eign Rótarýklúbbs Keflavíkur og um hann gildir sérstök reglugerð.

 

 

 

13.  grein   Val nýrra félaga

 

1.     Félagar í klúbbnum geta komið tillögu um nýjan félaga skriflega til stjórnar og  tekur ritari við henni fyrir hönd stjórnarinnar. Aðrir rótarýklúbbar geta borið fram tillögu um að félagar eða fyrrverandi félagar í þeirra klúbbi verði gerðir að félögum í klúbbnum. Tillögur um nýja félaga eru trúnaðarmál svo lengi sem kveðið er á um í lögum þessum.

2.     Stjórn klúbbsins gengur úr skugga um að sá er gerð er tillaga um uppfylli kröfur sem gerðar eru til nýrra félaga í grundvallarlögum rótarýklúbba.

3.     Stjórn klúbbsins samþykkir eða synjar tillögunni innan 30 daga frá því hún kemur fram og lætur ritari þann sem tillöguna bar fram vita af niðurstöðunni.

4.     Samþykki stjórn klúbbsins tillögu um nýjan félaga þá skal viðkomandi fræddur um markmið Rótarý og um réttindi og skyldur rótarýfélaga. Þá er viðkomandi beðinn um að undirrita inntökublað og að heimila að nafn hans/hennar ásamt starfsgrein verði kynnt félögum í klúbbnum.

5.     Hafi stjórn klúbbsins ekki borist skrifleg rökstudd andmæli frá félögum í klúbbnum (öðrum en heiðursfélögum) við inntöku viðkomandi innan sjö daga frá því tillagan var kynnt telst hann/hún rétt kjörinn félagi í klúbbnum.

Hafi stjórnin fengið andmæli við framkomna tillögu um nýjan félaga skulu greidd atkvæði um hana á næsta stjórnarfundi. Ef tillagan er samþykkt þrátt fyrir fram komin andmæli þá telst viðkomandi rétt kjörinn félagi í klúbbnum.

6.     Í framhaldi af kjörinu sér forseti um inntöku hins nýja félaga og að honum sé afhent fræðsluefni um Rótarý fyrir nýja félaga. Forseti eða ritari skulu tilkynna RI inngöngu hins nýja félaga. Forseti skal einnig tilnefna klúbbfélaga til að aðstoða hinn nýja félaga við að aðlagast klúbbstarfinu og jafnframt fela honum verkefni er tengist starfi klúbbsins.

7.     Enginn félagi má utan klúbbsins skýra frá neinu er varðar tilnefningar eða atkvæðagreiðslu um inntöku félaga í klúbbinn.

8.     Klúbburinn getur samkvæmt tillögu stjórnar valið heiðursfélaga í samræmi við grundvallarlög klúbbsins.

 

14.  grein   Tillögur

 

Málefni eða tillögur sem fela í sér skuldbindingu fyrir klúbbinn skulu ekki bornar upp á fundi fyrr en stjórn klúbbsins hefur fjallað um þær. Komi slík mál fyrir fund án vitundar stjórnar skal þeim umræðulaust vísað til hennar.

 

Samskota má ekki leita og hjálparbeiðnir má ekki bera fram í klúbbnum eða á vegum hans nema með samþykki stjórnar.

 

15.  grein   Ýmislegt

 

·         Fundarsköp: Stjórn klúbbsins setur reglur um fundarsköp. Skal í þeim stefnt að því að gera fundina ánægjulega, aðlaðandi og fróðlega fyrir félaga og gesti.

·         Krabbameinsfélag Keflavíkur: Rótarýklúbbur Keflavíkur er verndari Krabbameinsfélags Keflavíkur.

 

 

16.  grein   Lagabreytingar

 

Tillögur um lagabreytingar skulu vera skriflegar og skal stjórn klúbbsins senda öllum félögum þær í pósti eða tölvupósti eða dreifa á klúbbfundi a.m.k. einni viku áður en þær koma til umræðu. Hafa skal tvær umræður um breytingarnar. Í fundarboði skal tilkynna sérstaklega ef umræður/atkvæðagreiðsla  um lagabreytingar eru á dagskrá.

 

Lögum þessum má breyta á hvaða reglulegum klúbbfundi sem er, sé meirihluti félaga viðstaddur, og með atkvæðum 2/3 hluta viðstaddra. Breytingar á lögunum skulu vera í samræmi við grundvallarlög Rótarýklúbbs Keflavíkur og grundvallar- og sérlög RI.

 

Eldri sérlög.klúbbsins tóku gildi  hinn 1. janúar 1968. Heildarendurskoðun laganna var samþykkt 6. febrúar 1986. Breytingar á þeim sérlögum varðandi Nónvörðu og Verðlaunanefnd var samþykkt 8. ágúst 1996. Breytingar á nokkrum greinum voru samþykktar á fundi í klúbbnum þann 4. mars 2004.

Sérlög þessi voru samþykkt á fundi Rótarýklúbbs Keflavíkur 6. maí 2010. Þá var m.a. gerð sú breyting að ákvæði um Sjóðinn Suður með sjó voru tekin út og samin og samþykkt sérstök reglugerð um sjóðinn.

Breytingar á sérlögunum voru samþykktar á fundi í klúbbnum 18.10.2012 til samræmis við breytingar á Grundvallarlögum rótarýklúbba.

.