Fyrsta konan í Rótarýklúbbi Keflavíkur
Öflugt og metnaðarfullt starf
Ég hef verið meðvituð um Rótarý félagsskapinn frá því ég var ung stúlka að stíga mín fyrstu skref í atvinnulífinu hjá Ljósmyndastofu Suðurnesja. Heimir Stígsson ljósmyndari og yfirmaður minn var Rótarý félagi og fundardagar hjá Rótarý fóru ekki framhjá okkur starfsmönnum. Þá var Heimir fínn og strokinn og í sínu fínasta pússi. Þessi félagsskapur var honum sýnilega mikils virði. Þegar mér bauðst að ganga í Rótarýklúbb Keflavíkur fannst mér það upphefð sem bæri að skoða jákvætt. Ég fór á kynningarfund og í framhaldi af því sat ég nokkra Rótarý fundi. Ég setti niður fyrir mér þá kosti og galla sem ég sá samfara því að gerast félagi. Kostirnir voru: öflugt tengslanet (á heimsvísu), skemmtilegur félagsskapur, óendanleg fræðsla og lögleg afsökun fyrir að sleppa við eldamennsku einu sinni í viku. Gallarnir voru: tíðni funda, tímasetning funda (kvöldfundir), skyldumæting og kostnaður. Ég komst að raun um að kostirnir vógu þyngra og ákvað því að sækja um inngöngu. Ég hef ekki séð eftir því. Strax á fyrsta stafsári sannaðist það fyrir mér hvað tengslanetið er mikilvægt og hversu mjög starfsgreinaþátturinn er hafður í heiðri. Félagar mínir í Rótarýklúbbi Keflavíkur samþykktu einróma að 500 þúsund króna afmælisstyrkur klúbbsins skyldi renna óskertur til Bjargarinnar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir, sem ég hafði tilnefnt og mælt fyrir. Ég var fyrsta konan til að ganga í Rótarýklúbb Keflavíkur og eina konan í tæpt ár. Ég fann aldrei fyrir að það truflaði félaga mína, nema síður væri. Þeir voru boðnir og búnir að standa við bakið á mér og stoltir af mér sem félaga. Sjálf var ég alsæl og naut þess að þurfa ekki að deila athyglinni með öðrum konum. Í dag erum við fjórar konur og pláss fyrir miklu fleiri. Við fáum allar óskerta athygli sem og allir klúbbfélagar, sama hvors kyns þeir eru. Ég hef eignast marga góða félaga í klúbbnum mínum og hef mjög gaman af samverustundum með þeim og fjölskyldum þeirra. Það er sérstaklega ánægjulegt hvað Rótarý leggur mikla áherslu á samverustundir með fjölskyldunni. Metnaðarfullt starf er unnið hjá Rótarýhreyfingunni. Ég er stolt af því að tilheyra henni og vona að Rótarýhreyfingin megi vera stolt af störfum mínum í hennar þágu.
Hjördís Árnadóttir, félagi í Rótarýklúbbi Keflavíkur