Saga Rótarýklúbbs Keflavíkur
Stofnun klúbbsins
Rótarýklúbbur Keflavíkur var stofnaður 2. nóvember 1945, sá sjötti sem stofnaður hafði verið á landinu. Á þeim árum tilheyrðu íslensku klúbbarnir danska umdæminu. Þann 1. júlí 1946 var íslenska umdæmið stofnað. Rótarýklúbbur Keflavíkur var nr. 6352 í alþjóða Rótarýhreyfingunni (Rotary International). Meðal þeirra sem að stofnun klúbbsins komu voru Alfreð Gíslason bæjarfógeti, sem fór fyrir hópnum, Bjarni Jónsson, Carl Olsen, Helgi Tómasson, Lúðvík Storr, Tómas Tómasson, Torfi Hjartarson og fleiri heiðursmenn. Félagar á stofnfundi voru samtals þrettán. Stofnfundur og fyrstu fundir voru haldnir í Félagshúsi, sem síðar varð Félagsbíó. Síðar sama ár voru fundirnir fluttir í sal að Hafnargötu 26, en þar ráku hjónin Guðný og Eyjólfur Ásberg mötuneyti, kaffistofu og gistihús. Í fundargerðarbókum Rótarýklúbbs Keflavíkur er staðurinn nefndur “Hótel Gullfoss”. Fyrsti forseti Rótarýklúbbs Keflavíkur var Alfreð Gíslason, hann var í því embætti í tvö ár. Alfreð varð síðar umdæmisstjóri Rótarýumdæmisins á Íslandi, starfsárið 1953 til 1954. Þann 8. febrúar 1946 voru fundirnir færðir í Sjálfstæðishúsið sem stóð við Hafnargötu 46.
24. júlí 1946 fékk klúbburinn fullgildingarskírteini, en þá höfðu fjórir nýir félagar bæst í hópinn og fjöldi félaga orðinn sautján.
Félagar í meira en 50 ár
Einn þessara frumherja, Jóhann Pétursson mætir enn í dag, sextíu og einu ári síðar, á alla þá fundi sem hann getur og er eftir því tekið ef hann mætir ekki. Jóhann varð síðar forseti klúbbsins árið 1959-1960 og umdæmisstjóri starfsárið 1976 til 1977.
Einn annar félagi hefur starfað í klúbbnum í yfir fimmtíu ár, en það er Gunnar Sveinsson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri. Hann hefur verið félagi í 55 ár.
Skálað í vatni
Á 39. fundi þann september 1946 var tekinn upp sá siður sem enn er viðhafður, við fundarsetningu rísa félagar og gestir úr sætum og skála fyrir fósturjörðinni í vatni. Á þessum tímamótafundi var einnig tekin í notkun fundarbjalla, sú sama og enn er notuð. Merki Rótarýklúbbs Keflavíkur hannaði Kristinn Reyr, en hann var félagi í Rótarýklúbbi Keflavíkur. Á tímabilinu frá 1950 til 2000 endurspeglaði félagsstarfið mannlíf á Suðurnesjum. Fundir voru haldnir í betri veitingahúsum bæjarins. Rótarýklúbbur Keflavíkur hefur því auðgað mannlífið og hefur margur félaginn lagt sitt af mörkum til góðra mála. Félagar hafa komið úr flestum starfsgreinum á Suðurnesjum. Félagar hafa miðlað þekkingu og fróðleik til félagsmanna og íbúa á Suðurnesjum. Fundarefnið er ávallt tilhlökkunarefni félaga sem leggja mikið á sig fyrir áhugavert og vandað fundarefni.
Leiðsögn um Suðurnes
Rótarýklúbbur Keflavíkur stóð fyrir útgáfu bókarinnar Suður með sjó - leiðsögn um Suðurnes, sem fyrst var gefin út 1988. Það voru þeir félagar Jón Böðvarsson, fyrrv. skólameistari og fræðimaður, Jón Tómasson, Páll Jónsson og Heimir Stígsson sem umsjón höfðum með útgáfunni. Í framhaldi af því stofnaði Rótarýklúbbur Keflavíkur styrktarsjóð undir heitinu "Suður með sjó" en hann byggði á afrakstri af útgáfu bókarinnar. Frumkvöðlar á Suðurnesjum hafa hlotið styrki úr sjóðnum og er sérstök nefnd sem starfar eftir skipulagsskrá sem samþykkt var við stofnun sjóðsins. Í undirbúningi er að endurskoða bókina og gefa hana út að nýju, enda er í bókinni mikill og merkilegur fróðleikur um Suðurnes.
Verkefni
Félagar í Rótarýklúbbi Keflavíkur stóðu fyrir stofnun Björgunarsveitarinnar Stakks á sínum tíma. Einnig er klúbburinn verndari Krabbameinsfélags Suðurnesja og styrktaraðili Bjargarinnar - athvarfs fyrir fólk með geðraskanir.
Haustferðir og gróðursetning
Á hverju hausti er farin helgarferð. Síðastliðið haust var farið í jeppaferð um hálendi Íslands undir leiðsögn Sævars Reynissonar. Ferðin eins og fyrri ferðir var ógleymanleg. Einnig hefur klúbburinn farið í utanlandsferðir, síðast til Færeyja. Hópur félagsmanna og maka tekur einnig árlega þátt í golfmóti Rótarýmanna og einn félagi okkar er í mótorhjólaklúbbi Rótarý. Árlega stendur Rótarýklúbbur Keflavíkur fyrir gróðursetningardegi undir forystu Konráðs Lúðvíkssonar. Afrakstur áratuga gróðursetningar félagsmanna blasir við öllum sem leið eiga að Rósaselsvötnum, einnig hafa félagar komið að öðrum verkefnum á Reykjanesi.
Nemendaskipti
Vegna nálægðar Rótarýklúbbs Keflavíkur við alþjóðaflugvöllinn gegnir klúbburinn mikilvægu hlutverki í móttöku gesta sem koma til landsins á vegum Rótarýhreyfíngarinnar. Hlutverkið er félagsmönnum tilhlökkunarefni ár hvert, og hafa gestirnir kynnt þar margan fróðleikinn. Heimili Rótarýfélaga hafa ávallt verið opin þeim gestum sem á vegum Rótarýhreyfingarinnar koma. Rótarýklúbbur Keflavíkur hefur tekið þátt í nemandaskiptum sem skipulögð hafa verið á vegum Rótarýhreyfingarinnar. Íslensk ungmenni hafa átt ógleymanlega dvöl í fjarlægu landi og erlend ungmenni hér á landi. Rótarýhreyfingin veitir árlega íslenskum námsmönnum styrki til náms erlendis. Það er okkur Rótarýfélögum fagnaðarefni þegar styrkþegar árum eða áratugum síðar mæta á fund hjá okkur til að flytja erindi sem tengist starfi þeirra eða áhugamáli.
Rotary International, fjáraflanir og félagar
Einn okkar félaga, Ómar Steindórsson var árið 2001 kjörinn til setu í framkvæmdastjórn alþjóða Rótarýhreyfingarinnar frá árinu 2002 til 2004. Þessu krefjandi verkefni skilað Ómar með miklum ágætum þannig að eftir var tekið. Naut hann þar dyggrar aðstoðar eiginkonu sinnar Guðlaugar Jóhannsdóttur. Ómar var umdæmistjóri 1989 til 1990. Síðastliðin ár hefur Rótarýklúbbur Keflavíkur staðið fyrir árlegu veglegu Fiskikvöldi til fjáröflunar fyrir góðgerðarmál undir stjórn þeirra félaga Loga Þormóðssonar og Hallgríms Arthúrssonar. Starfsárið 2004 til 2005 gekk Hjördís Árnadóttir fyrst kvenna í klúbbinn (skoða grein). Í dag eru fjórar konur í klúbbnum og hefur þátttaka kvenna í klúbbstarfi nú auðgað félagsstarfið. Í nóvember 2005 fögnuðu félagar í Rótarýklúbbi Keflavíkur 60 ára afmæli klúbbsins í veglegum afmælisfagnaði í Bláa lóninu að viðstöddum félagsmönnum og fjölda góðra gesta.
Fjöldi félaga
Starfsárið 2009 til 2010 er fjöldi félaga 43, þar af eru þrír heiðursfélagar, en það eru heiðursmennirnir Jóhann Pétursson, Gunnar Sveinsson og Halldór Ibsen. Heildarfjöldi heiðursfélaga frá stofnun klúbbsins er ellefu. Fundir Rótarýklúbbs Keflavíkur eru haldnir á Flughótelinu alla fimmtudaga kl. 19:00. Forseti Rótarýklúbbs Keflavíkur 2009 - 2010 er Erlingur J Leifsson mailto:ejl@internet.is.