Saga klúbbsins

Rótarýklúbbur Ísafjarðar

Úr Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára

Rótarýklúbbur Ísafjarðar var stofnaður 20. október 1937, og var stofnfundur klúbbsins haldinn á heimili Jónasar Tómassonar bóksala og konu hans, frú Önnu Ingvarsdóttur, að Hafnarstræti 2. Voru fundir haldnir á heimili þeirra þar til í maí 1939. Fundurinn var "boðaður að tilhlutan Rótarýklúbbs Reykjavíkur í þeim tilgan!li, að sams konar klúbbur yrði stofnaður á Isafirði".

Fundinn sóttu sem stofnendur eftirtaldir menn:

Bárður G. Tómasson skipa verkfræðingur
Elías J. Pálsson verksmiðjueigandi
Halldór Halldórsson bankastjóri
Jón Auðunn Jónsson forstjóri
Jónas Tómasson bóksali
Ketill Guðmundsson kaupfélagsstjóri
Kristján Arinbjarnar héraðslæknir
Kristján Jónsson erindreki
Matthías Sveinsson kaupmaður
Ólafur Guðmundsson forstjóri
Óskar Borg lögfræðingur
Rögnvaldur Jónsson skipstjóri
Sigurður Dahlmann símastjóri
Sigurgeir Sigurðsson prófastur og
Torfi Hjartarson bæjarfógeti .

Í fundargerð stofnfundar segir m. a.:

"Framsögu hafði Sigurgeir Sigurðsson prófastur. Rakti hann allan gang undirbún-ingsstarfsins, skýrði frá hver væru markmið rótarýklúbba og frá helztu atriðum úr alþjóðalögum þeirra. Ennfremur las hann upp árnaðaróskir, er stofnfundi bárust í símskeyti frá kapt. Ipsen í Varde, sem frummælandi skýrði frá að verið hefði hér á ferð s.L sumar á vegum Rotary International, Óskaði frummælandi öllum viðstöddum til hamingju með stofnun þessa klúbbs og kvaðst vonast til, að klúbburinn ætti langt og heillaríkt starf fyrir höndum. Mæltist frummælandi því næst til, að gengið yrði til skriflegra kosninga á stjórn klúbbsins, en gat þess jafnframt, að hann bæðist undan kosningu í stjórn hans vegna væntanlegrar fjarveru erlendis mikinn hluta vetrar."

Í fyrstu stjórn klúbbsins voru kosnir:

Forseti: Halldór Halldórsson
Varaforseti: Torfi Hjartarson
Ritari: Sigurður Dahlmann
Gjaldkeri: Jónas Tómasson
Stallari: Óskar Borg

Að lokinni stjórnarkosningu las forseti uppkast að sérlögum fyrir klúbbinn, sem samþykkt var á fundinum.

Á öðrum fundi klúbbsins skýrði forseti frá gjöf, sem klúbbnum hafði borizt, "en gjöfin var stór borð-flaggstöng með klofnum íslenzkum fána og klúbbmerkjum Reykjavíkurklúbbsins" . Gjöfinni fylgdu beztu heillaóskir til klúbbsins á Ísafirði. Einnig bárust heillaóskir einstakra klúbbmeðlima. Hafði forseti beðið forseta Rótarýklúbbs Reykjavíkur, dr. med. Helga Tómasson yfirlækni, að flytja klúbbfélögum í Reykjavík beztu þakkir fyrir gjöfina og árnaðaróskir. Ennfremur hafði hann sent kapt. Ipsen kveðju klúbbsins og þakkir fyrir sendar árnaðaróskir .

Mótun klúbbstarfsins

Þegar klúbburinn hafði starfað í hálft ár, hóf forseti umræðu um klúbbstarfið og komst þá svo að orði:

"Ég gat þess á fundi hér í þessum Rótarýklúbbi nokkru eftir að hann var stofnaður, að enginn okkar meðlimanna. hvorki hinnar kjörnu stjórnar eða annarra meðlima hans, værum svo kunnugir starfs-háttum slíkra klúbba, að við myndum þá strax geta tekið upp fast form á félagsskapnum. Hefði stjórnin því komið sér saman um að bíða átekta um ákvörðun frekara skipulags klúbbsins og starfsháttu, unz fyrir lægju þær upplýsingar í þessu efni, er stjórnin gæti stuðzt við um frekari ákvarðanir."

"Þá gat forseti þess, að hann hefði nú átt kost á að sitja fundi Rótarýklúbbs Reykjavíkur og á þann hátt bæði sjá, hvernig fundir færu fram og fá upplýsingar mætra manna þar um starfstilhögun rótarýklúbba. Rómaði forseti mjög þær viðtökur, er hann hafði hlotið hjá Reykjavíkurklúbbnum."

Af því, sem hér kemur fram, er ljóst, að ný hreyfing var að nema hér land, sem félagsmenn höfðu lítil kynni haft af áður. Klúbbfélagar voru þó allir fullir áhuga að efla klúbbstarfið, og fékk það fljótlega á sig fastara form. Á 11. fundi skipaði stjórnin í fastanefndir klúbbsins og ákvað, í hvaða röð félagarnir tækju að sér flutning erinda á fundum.

Á þeim fundi gerði ritari að tillögu sinni, "að klúbburinn reyndi að fá því framgengt, að klukku landsmanna yrði flýtt um tvo tíma á ári hverju mánuðina maí - ágúst og þá með sérstöku tilliti til Ísafjarðar, þar sem skrifstofu- og verzlunarfólk ýmist svæfi, hvíldist inni eða væri að vinnu sinni á þeim tíma, er sólar nyti". Tillagan góðar undirtektir á fundinum, og var þeim Guðmundi G. Hagalín og Torfa Hjartarsyni falið að taka málið upp í bæjarstjórn og leita eftir stuðningi hennar.

Ekki er kunnugt um, að hugmyndir um sérstakan sumartíma hafi verið komnar fram áður, en sú nýbreytni var tekin upp fljótlega á eftir og var svo í mörg ár. Hugmynd klúbbfélaga um sérstakan sumartíma virðist því strax hafa fengið góðan hljómgrunn.

Stofnskrárhátíð klúbbsins

Sumarið 1938 kom Steingrímur Jónsson, forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur, í heimsókn til Ísafjarðar ásamt fjórum félögum úr Reykjavíkurklúbbnum. Voru þeir á leið til Akureyrar með skipi til að undirbúa þar stofnun nýs klúbbs. Að loknum fundi var gestunum fylgt á skipsfjöl, eins og þá var venja, þegar góða gesti bar að garði.

Stofnskrárhátíð klúbbsins var svo haldin á heimili Jónasar Tómassonar og konu hans 4. júlí 1939. Í tilefni af hátíðinni voru mætt sem fulltrúar 75. rótarýumdæmisins (Danmörk og Ísland), T. C. Thomsen umdæmisstjóri og frú, forseti og fyrrv. forseti Reykjavíkurklúbbsins, þeir Carl Olsen stórkaupmaður og Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri og frú, þá og frá Reykjavíkurklúbbnum Benedikt Gröndal verkfræðingur og frú. Ennfremur var mættur frá Siglufjarðarklúbbnum Friðrik Hjartar skóla-stjóri.

Boð um þátttöku í hátíðinni var sent til allra klúbba í 75. umdæmi, ennfremur til nokkurra norskra og sænskra og þeirra klúbba, er sent höfðu klúbbnum árnaðaróskir í tilefni stofnskrárhátíðarinnar, en fjöldi heillaóska barst klúbbnum í tilefni há tíðarinnar.

Umdæmisstjórinn T. C. Thomsen afhenti stofnbréfið, sem dagsett var 17. apríl 1939, og var klúbburinn nr. 5013. CarlOIsen afhenti sem gjöf frá Rótarýklúbbi Reykjavíkur vandaða gestabók innbundna í hákarlsskráp. Var bæði efni og vinna íslenzkt. Friðrik Hjartar afhenti íslenzkan fána á stöng sem gjöf frá Rótarýklúbbi Siglufjarðar.

Eftir hádegi fóru klúbbfélagar ásamt konum sínum og gestum í stutta ferð út úr bænum, en hátíðinni lauk með tedrykkju í Góðtemplarahúsinu. Þar fór frú Thomsen með kvæði og söng tvö lög. Forseti klúbbsins, Halldór Halldórsson, afhenti frú Thomsen armband sem minningargjöf frá klúbbnum, en gestum og frúm félagsmanna pappírshnífa með áletraðri dagsetningu.

Að hátíðinni lokinni héldu gestirnir áfram för sinni með skipi til Siglufjarðar, og var stofnskrárhátíð Siglufjarðarklúbbsins haldin næsta dag.

Starf klúbbsins í 47 ár

Rótarýklúbbur Ísafjarðar hefir nú senn starfað í 47 ár. Stofnendur klúbbsins eru nú allir fallnir frá, nema Torfi Hjartarson, fyrrv. bæjarstjóri og tollstjóri, sem ennþá starfar í Rótarýklúbbi Reykjavíkur. Stofnendurnir störfuðu mislengi í klúbbnum af ýmsum ástæðum, en flestir þeirra tóku þátt í starfi hans um langt árabil. Lengst starfaði Ólafur Guðmundsson, og var hann kjörinn heiðursfélagi árið 1977, þegar klúbburinn hafði starfað í 40 ár. Séra Sigurgeir Sigurðsson, aðalhvatamaður að stofnum klúbbsins, var kjörinn heiðursfélagi 1939, er hann tók við biskupsembætti. Einn af félögum klúbbsins, Kjartan J. Jóhannsson, gegndi starfi umdæmis st jóra starfsárið 1951 - 1952.

Klúbburinn er ennþá sá eini á Vestfjörðum. Fjarlægð hans frá öðrum klúbbum hefir á vissan hátt sett svip sinn á starf hans og verið Þrándur í Götu samskipta við aðra rótarýfélaga. Hins ber þó að geta, að brottfluttir félagar Ísafjarðarklúbbsins hafa átt sinn þátt í stofnun klúbba í sínum nýju heimkynnum. Fyrstu forsetar klúbbanna í Hafnarfirði (1946), Vestmannaeyjum (1955) og Kópavogi (1961) voru t. d. allir fyrrverandi félagar Ísafjarðarklúbbsins.

Stofnendur klúbbsins gerðu sér strax grein fyrir því, að þeir yrðu fyrst og fremst að treysta á eigið frumkvæði í sambandi við dagskrá á fundum og lausn þeirra verkefna, sem klúbburinn tæki sér fyrir hendur. Á 47 ára starfsferli hefir klúbburinn haldið 2300 fundi. Hafa þar verið tekin til umfjöllunar hin ólíklegustu málefni, eins og að líkum lætur. Hefur klúbburinn lengst af notið þess að hafa innan sinna vébanda ágæta fyrirlesara, sem hafa sett svip sinn á klúbbfundina, því að gestafyrirlesarar hafa verið heldur fátíðir af fyrrgreindum ástæðum. En e. t. v. hefur Ólafur Guðmundsson gefið tóninn um stefnu hans, þegar hann sagði á fundi 2. nóvember 1938: "ÞÓ að rótarýfélagar temji sér þjónustu í þágu alls mannkyns, þá ætti hver klúbbur fyrst og fremst að starfa í þágu síns bæjarfélags, reyna að prýða bæinn sinn og hlúa að atvinnuvegum hans."

Trúir þessum hugmyndum hafa rót-arýfélagar á Ísafirði alla tíð reynt að leggja þeim málum lið, sem horft hafa til heilla fyrir bæjarfélagið, bætt gætu mannlífið eða fegrað umhverfið. Hafa þessi mál sett svip sinn á umræður á fundum, og hefir síðan verið reynt að fylgja þeim málum eftir, þe~ar ástæða hefir verið til.

Arið 1941 hafði stjórnin t. d. forgöngu um söfnun hlutafjár í Flugfélagi Íslands h. f. til þess að bæta samgöngur í lofti til Ísafjarðar, og keyptu allir klúbbfélagar hluti í félaginu.

Vorið 1943 var flutt erindi í klúbbnum um skógrækt, en tilefnið var grein í "The Rotarian", aprílhefti 1940, sem nefndist:

"Plant a Tree", Skýrði ræðumaður frá trjá-ræktarstarfsemi forseta R. 1. og gróðursetningu fjölda vináttu trjáa á ferðalögum þeirra. Paul Harris plantaði tré hjá heimili sínu fyrir hvern vin, sem féll frá. Erindi þetta varð kveikjan að stofnun Skógræktarfélags Ísafjarðar og skógræktinni í Stórurð, hlíðinni fyrir ofan Ísafjarðarkaupstað. Á fjórum áratugum hefur vaxið þar upp fallegur trjáreitur, sem ýmsir klúbbfélagar hafa hlúð að á þessu tímabili. Einnig hefur klúbburinn unnið að uppgræðslu í bæjarlandinu, þar sem sár hafa mynd azt í viðkvæman gróður vegna ýmissa framkvæmda.

Á liðnu sumri setti klúbburinn upp sjónskífu á Arnarnesi til minningar um tvo nýlátna félaga klúbbsins og ánægju fyrir bæjarbúa og aðra, sem bæinn gista.

Á sama hátt og umræður um skógrækt urðu kveikjan að stofnun Skógræktarfélagsins og gróskumikilli skógrækt í Stórurð, urðu umræður um tónleikahald á Ísafirði til þess tveimur áratugum síðar, að keyptur var vandaður konsert-flygill í bæinn. Ræðumaður þá upplýs ti, að ekki væru lengur tök á að fá góða listamenn til bæjarins, þar sem nothæft hljóðfæri væri ekki til staðar. Var því ákveðið að fella niður árs-hátíð klúbbsins það árið, en efna þess í stað til söfnunar til kaupa á vönduðu hljóðfæri, sem afhent var Tónlistarfélaginu litlu síðar.

Með ýmsum hætti hefir klúbburinn lagt ísfirzkri æsku lið. Árið 1967 beitti hann sér fyrir breyttri kennsluskipan í verknámsdeild gagnfræðaskólans. Hann hefir staðið fyrir starfsfræðsludegi og starfskynningu, kynningu á störfum Sameinuðu þjóðanna í gagnfræðaskólanum og stuðlað að nemendaskiptum. Þá má geta þess, að klúbburinn hefir gefið tæki og bókakost til sjúkrahúss og elliheimilis og ýmiss konar glaðning til vistrnanna þessara stofnana.

Rótarýfélagar spyrja oft sjálfa sig, hvað lítill klúbbur geti lagt af mörkum til alþjóðaþjónustu. Í fljótu bragði virðist ekki vera um margt að ræða, en það hefir þráfaldlega komið í ljós, að litli klúbburinn getur haft sín áhrif, ef rétt tækifæri eru hagnýtt.

Í maí 1952 færðu Islendingar fiskveiði-landhelgi sína út í 4 sjómílur. Útfærslunni var mótmælt af þeim þjóðum, sem stundað höfðu veiðar á svæðinu, en engum mótað gerðum var þó beitt gegn Íslendingum af hálfu stjórnvalda þessara landa. Hins vegar ákváðu brezkir togaraeigendur og fiskkaupmenn að setja bann á löndun íslenzks fisks í Bretlandi, og brezk blöð héldu upp áróðri, sem var mjög andsnúinn hagsmunum Íslendinga. Fyrirsjáanlegt var, að ráðstafanir þessar gætu haft alvarleg áhrif á efnahag Íslendinga, en á þessum tíma seldist um fjórðungur botnfiskafla Íslendinga á brezkum markaði.

Miklar umræður urðu um þetta mál á fundi Rótarýklúbbs Ísafjarðar. Í framhaldi af þeim ritaði forseti klúbbsins langt og vinsamlegt bréf til 24 rótarýklúbba í brezkum hafnarbæjum og skýrði málstað okkar. Benti hann m. a. á, að Íslendingum væru einnig bannaðar veiðar innan 4 sjómílna lögsögunnar á sama hátt og hinum erlendu þjóðum. Þetta bréf varð auðvitað ekki til að leysa þessa viðkvæmu deilu. Samkomulag um lausn hennar náðist fyrir tilstuðlan Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu haustið 1956, en það varð til þess að rótarýfélagar okkar í 24 brezkum hafnarbæjum sáu málið í öðru ljósi en áður. Hlaut forseti klúbbsins verðugt lof fyrir framtak sitt og tilraun sína til að glæða skilning meðal þjóða (Rotary fifty years of service, Illinois. U. S. A., 1954, bls. 85-87).

Þessi upptalning verður látin nægja sem lítið sýnishorn þeirra verkefna, sem klúbburinn hefir unnið að á liðnum árum. Eins og áður er sagt, hafa ísfirzkir rótarýfélagar reynt að leggja öllum góðum málum lið, sem til heilla hafa horft fyrir bæjarfélagið og íbúa þess, og unnið að þjónustuhugsjóninni, eftir því sem tækifæri hafa gefizt á hverjum tíma.