Fréttir
  • Rótarýklúbbur Ísafjarðar með mökum

20.10.2012

Rótarýklúbbur Ísafjarðar 75 ára

Rótarýklúbbur Ísafjarðar fagnar 75 ára afmæli laugardaginn 20. október. Það var sumarið 1937 sem umdæmisstjóri dönsku Rótarýklúbbanna, E. Ipsen, var á ferð hér á landi til að heimsækja Rótarýklúbb Reykjavíkur, sem þá var eini klúbbur landsins. Reykjavíkurklúbburinn hafði starfað í þrjú ár og var Ipsen að undirbúa stofnun fleiri klúbba hér á landi. Eftir heimsókn til Reykjavíku lá leið hans til Ísafjarðar þar sem hann átti fund með heimamönnum og var meðal annarra gesta, Árni Friðriksson fiskifræðingur. Ísfirðingar þurftu ekki mikla hvatningu við þar sem Rótarýklúbbur Ísafjarðar var stofnaðu 20. október 1937 á heimili Jónasar Tómassonar bóksala og konu hans Önnu Ingvarsdóttur. Voru fundir næstu tvö árin haldin á heimili þeirra hjóna eða í sumarbústað þeirra í Tunguskógi.

Stofnun klúbbsins var athyglisverð fyrir þær sakir að á þessum tíma var pólitíkin hatrömm á Ísafirði, enda bærinn kallaður „Rauði bærinn“. Stofnun klúbbsins var söguleg þar sem hann var stofnaður þvert á pólitískar skoðanir, sem margir hefðu talið ómögulegt á þeim tíma. Klúbburinn gaf mönnum kost á því að hittast á hlutlausum velli án tillits til pólitískra skoðana.
Margir merkir félagar hafa verið í Rótarýklúbbi Ísafjarðar og má nefna að þrír félagar hafa gengt æðstu stöðu hreyfingarinnar á Íslandi sem umdæmisstjórar; en þeir eru Kjartan J. Jóhannsson læknir, Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður og Kristján Haraldsson orkubússtjóri.

Rótarýklúbbur Ísafjarðar með mökumRótarýmenn halda fund vikulega þar sem hin ólíkustu málefni eru kynnt, af félögum eða gestum sem boðið er til fundar. Margir hafa fengið tækifæri til að kynna hugðarefni sín sem oft hafa orðið að framfaramálum fyrir samfélagið. Hér skal getið fundar þar sem Jóhann Gunnar Ólafsson kvaddi félaga sína eftir 25 ár í klúbbnum og minntist í erindi sem hann flutti við tækifærið að það væri einkum tvennt sem honum lægi á hjarta þegar hann nú kvaddi Ísafjörð; að bæjarrútstir Helga Hrólfssonar á Eyrartúni og gömlu verslunarhúsin í Neðstakaupstað yrðu varðveitt frá eyðileggingu. Það væri sín síðasta og eina ósk til samborgara sinna, er hann hyrfi héðan, að þessum gersemum yrði ekki spillt.

Gunnar H. Jónsson var forseti klúbbsins á þeim tíma og ásamt tveimur öðrum rótarýfélögum, Jóni Páli Halldórssyni og Guðmundi Sveinssyni, tóku þessum hvatningarorðum sýslumans af alvöru og sameiginlega stóðu þeir fyrir öflun fjárs til að standa undir endurbyggingu verslunarhúsanna í Neðstakaupstað, og stýra þeim framkvæmdum.
Klúbburinn stóð fyrir söfnun hlutafjár við stofnun Flugfélags Íslands árið 1941, til að bæta samgöngur í lofti til Ísafjarðar. Erindi sem Baldur Johnsen, héraðslæknir hélt um skógrækt varð kveikjan að stofnun Skógræktarfélagi Ísafjarðar 1944. Vorið 1957 stofnaði klúbburinn Blóðgjafasveit Ísafjarðar í framhaldi af erindi sem Úlfur Gunnarson yfirlæknir hélt á Rótarýfundi. Á fimmtíu ára afmæli klúbbsins stóðu félagar fyrir örnefnamerkingu við þjóðveginn við Skutulsfjörð árið 1987. Nú stendur yfir endurnýjun þessara skilta og stefnt að því að ný skilti ásamt kynningarbækling á örnefnum verði tilbúið að vori komandi. Klúbburinn setti upp útsýniskífu á Arnarnesi og vinnur við að setja veglegar merkingar á sögufræg hús í bænum. Kúbburinn hefur í gegnum tíðina beitt sér fyrir hinum ýmsu framfaramálum í bæjarfélaginu sem ekki verða tíunduð hér.

Í tilefni dagsins heldur Rótarýklúbbur Ísafjarðar hátíðarfund í Edinborgarhúsinu á afmælisdaginn þar sem margt verður gert til að fagna þessum áfanga.

Stytt og endursagt úr grein Jóns Páls Halldórssonar í blaði Rótarýklúbbs Ísafjarðar, „Hörpu hafsins“ sem gefið var út í tilefni umdæmsiþings sem haldið var á Ísafirði í september 2012.