Fréttir
  • Kristján tekur við af Tryggva
  • Saltfiskur a la Espanja
  • Gestir á fundi Rótarýklúbbs Ísafjarðar

17.7.2012

Nýr umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi

Kristján Haraldsson tekur við sem umdæmisstjóri

Félagar í Rótarýklúbbi Ísafjarðar héldu síðasta fund starfsársins fimmtudaginn 5. júlí í Skíðaskálanum í Tungudal. Mikið stóð til þar sem félagi í klúbbnum, Kristján Haraldsson tók við stöðu umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi af Tryggva Pálssyni. Kristján er þriðji meðlimur klúbbsins frá upphafi sem gengt hefur stöðu umdæmisstjóra hreyfingarinnar.

 

Fyrir fundinn var klúbbfélögum ásamt eiginkonum boðið í samkvæmi til Kristjáns og eiginkonu hans, Halldóru, að heimili þeirra við Seljalandsveg. Þar voru mættir gestir á vegum umdæmisins sem sóttu félaga í Rótarýklúbbi Ísfjarðar heim í tilefni hátíðarinnar.  Fulltrúar umdæmisins voru eftirfarandi:

Tryggvi Pálsson fv. umdæmisstjóri (2011-2012) og eiginkona hans Rannveig Gunnarsdóttir.       (Rkl. Reykjavík-Austurbær)

Sveinn H. Skúlason fv. umdæmisstjóri (2009-2010) og eiginkona hans Sólveig Erlendsdóttir.      (Rkl. Reykjavík Breiðholt)

Ellen Ingvadóttir fv. umdæmisstjóri (2008-2009) og eiginmaður hennar Þorsteinn Ingi Kragh.    (Rkl. Reykjavík Miðborg)

Björn Bjarndal Jónsson verðandi umdæmisstjóri (2013-2014) og eiginkona hans Jóhanna Róbertsdóttir.   (Rkl. Selfoss)

David Pitt fv. forseti Rkl. Reykjavík Austurbær og eiginkona hans Svala Pitt Lárusdóttir.

Það lagðist allt á eitt að gera samkvæmið skemmtilegt, gestrisni húsbænda þar sem borðin svignuðu undan veitingum, góður félagsskapur og spegilsléttur Skutulsfjörður baðaður í síðdegisskini miðsumarsólar. Mjög góð stemming og fjörlegar umræður voru þar sem menn stöldruðu ýmist við inn í eldhúsi, stofu eða gengu út á svalir í sumarblíðuna.

Eftir tveggja tíma ánægjulega samkomu var farið út í rútu sem keyrði hópinn til fundar upp í Tungudal. Þar hafði Skíðafélag Ísfirðinga skipulagt málsverð upp á spænskan máta, undir verkstjórn  stallara klúbbsins, Jóhanni Króknes Torfasyni. Boðið var upp á þrennskonar saltfiskrétti og síðan ljóst og dökkt vínberjasaft til að skola því niður. Til að undirstrika stemminguna spilaði Sunna Karen Einarsdóttir undir á hljómborð..

Tryggvi hélt stutta tölu þar sem hann ræddi Rótarýmálefni og rifjaði upp skemmtilegt ár sem umdæmisstjóri, áður en hann krýndi Kristján Haraldsson með keðju umdæmisstjóra. Eftir stutt ávarp nýskipaðs umdæmisstjóra var slegið á léttar nótur þar sem sumir tefldu djarft fram á hengiflugi umræðu um viðkvæm málefni félagatölu í Rótarýklúbbi Ísafjarðar. Sitt sýnist hverjum í þeim málum og var það fyrsta verk nýkjörins forseta klúbbsins að kæla glóðir meininga og færa umræðuna þangað sem öruggara stig er undir fæti.

Hafi einhverja fjaðrir verið ýfðar með röngum strokum, var það sem dögg fyrir sólu þegar ljúfir tónar fylltu skíðaskálann, úr fiðlu Unu Sveinbjarnardóttir . Eldheitir og tilfinningaríkir dansar  gömlu meistaranna vöktu upp allt það besta sem bærist í hjörtum sem fundið geta til.  Að lokum spilaði Sunna Karen undir fjöldasöng og óhætt að segja að glaður og hreifur hópur hafi yfirgefið Tungudal þetta ylhýra bjarta sumarkvöld þar sem birkið og fjalldrapinn grær.

 

Vestfirskri vináttu unnum,
og vandleg´a að geym´ana kunnum.
En ef konur nú sækja,
í klúbb vorn að krækja,
þá kannski við tækjum við Nunnum.

Viðar Konráðsson