Rótarýklúbbur Ísafjarðar Örnefnaskilti
Örnefnaskilti yfirfarin
Rótarýklúbbur Ísafjarðar stóð fyrir örnefnamerkingum á síðustu öld við þjóðveginn frá Súðavík, gegnum Ísafjörð og út á Óshlíðarveg. Alls voru 25 skilti með örnefnum komið fyrir og þrátt fyrir að klúbburinn hafi áður yfirfarið þau var komið að allsherjar lagfæringu á skiltunum. Bæði hafa veður og vindar unnið þeim ógagn og eins hefur vegstæði breyst töluvert á mörgum stöðum og skiltin því komin langt frá þjóðveginum. Það var því ákveðið að halda í vinnuferð fimmtudaginn 14. júní, sækja öll skiltin, yfirfara þau og koma þeim fyrir á nýjan leik við vegkantinn.
Vegagerðin bauðst til að koma nýjum staurum fyrir og því þurfti bara að merkja hvar þeir ættu að vera og taka hnit á staðsetningum. Það var karlmannlegur hópur sem mætti á Silfurtorgi, vopnaðir járnkörlum og vinnuvettlingum. Haldið var af stað á fjórum bílum eftir að verkfræðilega skipulagningu vinnunnar. Markmiðið var að ná öllum staurum upp og vera mættir í grill hjá Gunnu Siggu um kvöldmatarleytið.
Eins og oft vill verða var unnið meira af kappi en forsjá og lentu þeir sem merkja áttu fyrir Vegagerðina í töluverðum vandræðum með að finna staðina þar sem gömlu skiltin höfðu verið rifin upp. Það gustaði af mönnum og allir vildu vera verkstjórar. Enda gekk vinnan hratt og vel fyrir sig og voru allir mættir á Rótarýfund klukkan sjö.
Ljúffengu lambakjötinu var skolað niður með spænskum vinberjasafa sem lagðist einkar vel í mannskapinn. Í portinu í Vestrahúsinu skein sólin og yljaði Rótarýmönnum ásamt berjasafanaum, að innan sem utan. Fundarefnið var skipulagning umdæmisþings sem klúbburinn heldur í september og var í höndum Gísla Jóns Hjaltasonar, yfirskipuleggjanda hátíðarinnar.