Fréttir

4.6.2012

Klúbbþing hjá Rótarýklúbbi Ísafjarðar

Rótaryklúbbur Ísafjarðar hélt klúbbþing í húsnæði Orkubús Vestfjarða fimmtudaginn 19. apríl 2012. Eftir ljúffenga íslenska kjötsúpu settust menn í kringum fundarborðið til að vinna stefnumótun fyrir klúbbinn fyrir komandi starfsár.

Klúbbþing Rótarýklúbbs Ísafjarðar

Rótarýklúbbur Ísafjarðar hélt klúbbþing í húsnæði Orkubús Vestfjarða fimmtudaginn 19. apríl 2012.Eftir ljúffenga íslenska kjötsúpu settust menn í kringum fundarborðið til að vinna stefnumótun fyrir klúbbinn fyrir komandi starfsár.

OV 1

Verkefni

Klúbburinn hefur veitt verðlaun við útskrift í Grunnskóla Ísafjarðar og var ákveðið að halda því verkefni áfram. Hugmyndir komu upp um að klúbburinn tæki að sér samfélagsverkefni þar sem horft væri sérstaklega til íbúa af erlendu bergi brotin. Fundurinn beindi því til stjórnar að kanna hugmyndir um að styðja við íþrótta- og tónslistastarf í bænum, en talið er að börn nýbúa beri skarðan hlut frá borði þegar kemur að því að njóta þeirrar þjónustu sem boðið er upp á hér í bænum.

Einnig kom sú hugmynd upp að bjóða fólki af tilteknu þjóðerni til fundar til að kynnast menningu þeirra í t.d. mat og tónlist. Þetta gætu verið þjóðarkvöld og væri hægt að skipuleggja í samstarfi við fjölmennustu hópana, t.d. Pólverjum og Tælendingum. Bent var á að hægt væri að sækja um mótframlag frá umdæminu til slíkra verka.

Unnið verður áfram að trjáræktarverkefni klúbbsins og ákveðið að kalla félaga á vinnufund til að lagfæra skilti sem klúbburinn setti upp fyrir allnokkru síðan með örnefnum í nágrenni Ísafjarðar.

Rótarýsjóðurinn

Fundurinn lagði til að klúbbfélagar væru hvattir til að leggja Rotarysjóðnum til fjármuni, a.m.k. $ 50 á hvern félaga. Rotaryklúbbur Ísafjarðar hefur ávallt verið reiðubúinn til að taka þá í starfi Group Study Exchange.

Félagaþróun

Félagar voru sammála að stærð klúbbsins væri góð, rúmlega 20 virkir félagar. Einhverjir eru á útleið þessa dagana og því rétt að bæta við nýjum félögum. Í ljós kom á fundinum að það væri ekki vandamál og töluverður áhugi væri fyrir inngöngu í klúbbinn í samfélaginu. Spurst hefur út að þetta sé góður klúbbur, skemmtilegir og áhugaverðir fundir og einstakur félagsskapur. Þessar upplýsingar glöddu hjörtu fundarmanna.

ov 3

Mikið hefur verið þrýst á okkar litla klúbb að bjóða konum að ganga í hann, og hefur sú pressa að mestu komið utan frá. Hluti fundarmanna virtist þó vera á þeirri skoðun að ekki væri ástæða til að hrófla við því andrúmi og menningu sem ríkti á fundum klúbbsins. Það hefði ekkert með almenna afstöðu til kvenna að gera enda bera félagar fulla virðingu fyrir konum og þeirra viðhorfum. Klúbburinn hefur ávallt boðið konur velkomnar á fundi klúbbsins enda engin spurning um að slíkt bæti hópinn. Hitt er svo annað mál hvort rétt sé að láta eftir utanaðkomandi þrýsting með það hverjum við bjóðum í klúbbinn okkar. Ákveðið var þó að gerð yrði leynileg atkvæðagreiðsla meðal félaga um málefnið, enda eru ákafir stuðningsmenn meðal okkar um að konum verði boðið inn.

Sýnileiki klúbbstarfsins

Rotaryklúbbur Ísfjarðar mun stefna að því að gera starfið sýnilegra í framtíðinni. Heimasíðunni verður sinnt betur þar sem settar verða allar upplýsingar um fundi, starfið og það sem er á döfinni. Netstjóri hefur verið ráðinn til fimm ára, Jóhann Ólafson, en klúbbfélagar mun skrifa efni og senda honum til að setja efni inn á síðuna.

Allir félagar munu fara í myndatöku í H-prent til að setja myndir inn á heimasíðuna. Samið hefur verið við ljósmyndara um að taka myndirnar.

Mikilvægt er að nota heimasíðuna fyrir komandi umdæmisþing sem haldið verður á Ísafirði í September. Setja inn allar upplýsingar sem geta nýst gestum okkar sem vonandi munu fjölmenna hingað og eiga með okkur góðar stundir við „spegil sléttan poll“

Fjármál og stjórnun

Lögð áhersla á að ársreikningum sé skilað í ágúst og ný stjórn kynni rekstraráætlun samhliða því. Mikilvægt er að við stjórnarskipti fylgi þekking og reynsla til viðtakenda frá þeim sem skila af sér. Tryggja þarf við hver stjórnarskipti að stjórnarmenn þekki skyldur sýnar og ábyrgð og séu í stakk búnir til að takast á við verkefni klúbbsins. Fagmennska og hefðir og regluverk eru óaðskiljanlegir frá góðu klúbbstarfi.