Fréttir
  • 3X

16.4.2012

Rótarýklúbbur Ísafjarðar heimsækir 3X Technology

Rótarýklúbbi Ísafjarðar var boðið í heimsókn til tæknifyrirtækisins 3X Technology 29. mars 2012.

Rótarýklúbbi Ísafjarðar var nýlega boðið í heimsókn til tæknifyrirtækisins 3X Technology.  Boðið var upp á gúllassúpu ásamt kaffisopa en erindi fundarins var í höndum Karls Ásgeirssonar, rekstrarstjóra og Alberts Högnasonar, hönnunarstjóra fyrirtækisins.3X heimsókn 2

Þeir félagar fóru yfir sögu fyrirtækisins. Nú vinna um 40 manns hjá fyrirtækinu og ársvelta þess er um hálfur milljarður króna.
Náið samstarf, sérstaklega við rækjuiðnaðinn á staðnum, var grunnurinn að velgengni 3X Technology sem fyrst hét reyndar 3X Stál.  Nafninu var breytt og gert alþjóðlegra árið 2008 enda stærsti hluti af markaði fyrirtækisins erlendis.

Fyrirtækið hefur alla tíð stundað mikið þróunar- og rannsóknarstarf sem er lykill að velgengni þess.  Fyrirtækið fékk sitt fyrsta einkaleyfi skráð á síðasta ári. Eins hefur fyrirtækið fengið skrásett vörumerkið Rotex sem stendur fyrir búnað sem 3X Technology hefur þróað. Rotex er notað við blóðgun, uppþíðingu á frosnum fiski og lageringu á rækju. 
Fyrirtækið á í nánu samstarfi við Marel og Skagann þar sem lausnir 3X Technology  eru notaðar í heildarlausnir þessara fyrirtækja.

3X heimsókn 3Fyrirlestur þeirra félaga féll í góðan jarðveg Rótarýmanna og ekki var laust við að menn fylltust trausti og tiltrú á bænum sínum með jafn öflugt tæknifyrirtæki og 3X Technology.  Starfsemin er hátæknileg enda vinna margir tæknimenntaðir menn við vöruþróun.  Verkefnastaða fyrirtækisins er góð í dag, framleiðslan hefur ekki undan.
Nú er leitast við að fjölga iðnaðarmönnum til að auka afkastagetu fyrirtækisins. 
3X Technology hefur verið í samstarfi við Menntaskólann á Ísafirði í áraraðir með menntun tækni- og iðnaðarmanna á Ísafirði.

Það var þó ekki fyrr en þeir félagar sýndu Rótarýfélögum húsnæði og starfsemi fyrirtækisins að menn lyftu brúnum fyrir alvöru.  Bak við læstar dyr, í myrkri, unnu tæki allan sólahringinn við að framleiða íhluti í hátæknibúnað, án þess að mannshöndin kæmi nálægt því.  Tölvustýrðir rennibekkir og skurðarvél, sem sker stálplötur með sandblönduðu vatni, marra þarna óþreytandi við framleiðslu nótt sem nýtan dag.  Menn rak hreinlega í rogastans yfir tækninni.3X heimsókn 4

 
Á skrifstofunni var mönnum sýndur tölvubúnaður sem notaður er til hönnunar og stýringar á framleiðslu fyrirtækisins. Enn fremur voru sýndar teikningar af risabúnaði sem seldur hefur verið um allan heim. Hægt er að hringja inn í gegnum internetið og þjónusta viðskiptavini ef eitthvað kemur upp á.  Reyndar bilar búnaður frá 3X ekki en hægt er að tengja sig við hann og laga ef slíkt myndi gerast þó að tækin séu í Kína og tæknimaðurinn á Ísafirði.

Framleiðslurými fyrirtækisins er risavaxið og heildarlengd  smiðjunnar eru 90 metrar.  Fyrirtækið er í glæsilegu húsnæði við Sindragötu á Ísfirði en framleiðslan hefur enn og aftur sprengt það utan af sér og leitað er leiða til að stækka það.  Maður er bara montinn af svona glæsilegu fyrirtæki og gekk út fullur af tiltrú á samfélagi sem fær notið slíkrar starfsemi.

Við Rótarýmenn þökkum 3X Technology mönnum móttökurnar.