Saga klúbbsins

Ágrip af sögu klúbbsins

Stofnun klúbbsins:

Rótarýklúbbur Borgarness var stofnaður 14. september 1952.

Frumkvæði að stofnun hans kom frá Rótarýklúbbi Akraness og vann Ólafur B. Björnsson ritstjóri mest að málinu, en auk hans áttu þáverandi umdæmisstjóri, sr. Friðrik A. Friðriksson á Húsavík og tveir fyrrverandi umdæmisstjórar, dr. Helgi Tómasson og sr. Óskar J. Þorláksson, drjúgan hlut að undirbúningi ásamt heimamönnum. Stofnendur klúbbsins voru 23.

Í fyrstu stjórn klúbbsins áttu sæti:

Forseti: Magnús Á. Jónsson sparisjóðsstjóri
Ritari: Ásgeir Þ. Ólafsson dýralæknir
Gjaldkeri: Finnbogi Guðlaugsson forstjóri
Stallari: Marinó Sigurðsson bakarameistari
Varaforseti: Leó Júlíusson sóknarprestur.

Klúbburinn fékk samþykkta aðild að Rotary International 21. mars 1953, Fullgildingarhátíð og afhending stofnskjals var haldin 30. maí 1953. Þar mætti fjöldi félaga úr Rótarýklúbbunum á Akranesi, Selfossi, Sauðárkróki og Keflavík til að samfagna félögum hins nýja klúbbs. Var samkoman bæði hátíðleg og minnisstæð, að sögn þeirra er hana sóttu.

Í upphafi voru félagar í klúbbnum, eins og hreyfingunni yfirleitt, eingöngu karlmenn, en á jólafundi  20. desember 1994 varð Anna Björk Bjarnadóttir  fyrst kvenna til þess að ganga í klúbbinn og síðan hafa fleiri fylgt hennar fordæmi.

Starfsemi klúbbsins:

Lengst af hefur starf klúbbsins í meginatriðum byggst á vikulegum fundum með erindum, umræðum og kynningu félaga á starfsgrein þeirra og verkefnum, svo og umfjöllun um margvísleg hagsmunamál héraðsbúa, en einnig hafa menn utan klúbbs, rótarýfélagar og aðrir, oft komið og flutt fróðleg og athyglisverð erindi. Yfirleitt hefur árlega verið haldin árshátið eða Þorrablót, sem einkum á fyrri árum klúbbsins var ein glæsilegasta samkoma í bænum með fjölda gesta, auk félaga og maka þeirra, en nokkrum sinnum verið í samvinnu við föðurklúbbinn á Akranesi. Einnig hefur verið og er margvísleg önnur starfsemi, sem eiginkonur félaga og börn þeirra hafa tekið og taka þátt í s.s. leikhús- tónleika- og skemmtiferðir. Yfir sumartímann hafa félagar oft átt fundi utan hefðbundins fundarstaðar; sótt heim félaga í sveitinni, skroppið í berjamó, fjallgöngu eða náttúruskoðun, ellegar komið við á veitingastað.  Nefna má "sona og dætrafundi" á fyrsta sumardag þar sem saman koma til gleðskapar börn og barnabörn félaga,  Sameiginlegir fundir með grann-klúbbum, oftast á Akranesi, en einnig á Selfossi  og Sauðárkróki voru lengi fastir liðir og nokkrum sinnum sameiginlegar samkomur klúbba á Vesturlandi í sambandi við afmæli þeirra, hátíðafundi eða önnur tilefni. Fyrr á árum gekkst klúbburinn árlega fyrir skemmtiferð með eldri borgurum. Voru félagar leiðsögumenn, en klúbburinn stóð straum af kostnaði. Er bifreiðum fjölgaði og tilboð fólks um afþreyingu urðu fjölbreyttari varð þessi þörf ekki eins sterk, en íbúafjölgun og fækkun í klúbbnum olli því að framkvæmd verkefnisins var í raun að verða klúbbnum ofviða og því lagðist þessi venja af. Félagar hafa plantað trjám og hlynnt að þeim, bæði á reitum í kauptúninu og svæði er klúbburinn hefur umsjá með við sumardvalarheimili Þroskahjálpar að Holti.
Í tengslum við fimmtíu ára afmælishátíð klúbbsins í september  2002 var efnt til sýningar í  Safnahúsi Borgarfjarðar þar sem sögu  hans, starfi og verkefnum voru gerð skil í myndum og máli.
Þess má geta að klúbburinn hafði frumkvæði og lagði lið við stofnun Rótarýklúbbs í Stykkishólmi, sem nú hefur því miður hætt störfum. Sá klúbbur stóð fyrir stofnun klúbbs í Ólafsvík sem starfar af fullum krafti.

Margar hugmyndir um framfaramál héraðsins s.s. brú á Borgarfjörð, hitaveitu fyrir Borgarnes og friðland í Einkunnum hafa fyrst verið kynntar og ræddar í klúbbnum og oft hafa félagar haft aðstöðu til að veita brautargengi við að koma þeim í framkvæmd. Fegrun umhverfis og bætt umgengni í bænum og nágrenni hefur oft  borið á góma á fundum klúbbsins og hefur sú umræða án efa haft áhrif til breytinga og framfara. Nokkrum sinnum hefur klúbburinn staðið fyrir almennum borgarafundum um sértæk málefni er ofarlega voru á baugi eða brunnu á fólki.

Ingólfssjóður:

Klúbburinn hefur lagt lið ýmsum  mannúðarmálum og stutt einstaklinga sem hafa átt í erfiðleikum, en það hefur jafnan verið venja í Rótarýhreyfingunni að gera verk af því tagi ekki að opinberu umfjöllunarefni. Á vegum klúbbsins er til sérstakur sjóður,  "Ingólfssjóður" sem hefur það hlutverk að veita slíkan stuðning. Hann er kenndur við stofnanda sjóðsins, Ingólf Pétursson hótelstjóra, er var félagi í klúbbnum. Tekjur sjóðsins eru meðal annars frjáls framlög klúbbfélaga, er þeir koma heim eftir velheppnaða utanlandsför. Þess má geta að í janúarmánuði 1995 stóð  klúbburinn fyrir landssöfnun meðal rótarýfélaga vegna snjóflóðs í Súðavík.
Af öðru sem klúbburinn hefur staðið að má nefna, að snemma á starfsferli sínum gaf hann tvívegis út kynningarbækling á ensku fyrir ferðamenn um Borgarfjarðarhérað. Var það fyrsta tilraun af því tagi til kynningar á svæðinu og nýjung á þeim tíma. Félagar unnu að gerð göngustíga að borginni á landnámsjörðinni og prestsetrinu Borg.  Í samstarfi við Lionsklúbb Borgarness var gerð útsýnisskífa sem staðsett er á vatnsgeymi bæjarins.  

Viðurkenningarsjóður:

Lengst af hefur klúbburinn veitt viðurkenningu til nemenda, er skara fram úr í grunnskóla.  Var til þess stofnaður "Viðurkenningarsjóður". Allmörg ár hefur klúbburinn í samstarfi við grunnskólann og stofnanir og fyrirtæki í héraðinu haft forgöngu um starfsfræðslu í héraði fyrir nemendur 10. bekkjar, sem byggst hefur á heimsóknum á vinnustaði og öflun upplýsinga um starfsemi þeirra. Því hefur fylgt gerð og skil verkefna nemenda og hefur árangur þess verið kynntur á sameiginlegum fundi nemenda og klúbbfélaga og veittar viðurkenningar fyrir kynningar er best voru úr garði gerðar.  Hafa þessi tækifæri einnig verið nýtt til að kynna nemendunum Rótarýhreyfinguna; sögu hennar, hugsjónir og starf. 

Rotary International:

Að sjálfsögðu hefur klúbburinn tekið þátt í sameiginlegum verkefnum umdæmis og alþjóðahreyfingar. Framlög hafa reglulega verið greidd í Rótarýsjóðinn og til verkefnisins Polio Plus, sem vinnur að útrýmingu lömunarveiki í heiminum. Á vegum klúbbsins hafa nemendur farið til náms erlendis á grundvelli skiptinema-kerfis Rótarýsjóðsins og hér hafa dvalið útlendir nemendur með sama hætti. Þá hefur verið tekið á móti og greitt fyrir hópum unglinga frá ýmsum löndum, er sótt hafa sumarbúðir hjá æskulýðsnefnd umdæmisins. Hópar frá erlendum rótarýumdæmum, sem komið hafa annað hvort ár í starfshópaskiptum á vegum umdæmisins með stuðningi Rótarýsjóðsins og ferðast um landið hafa notið fyrirgreiðslu. Hefur þeim verið kynnt atvinnulíf og náttúra héraðsins og starfsemi klúbbsins, veittur beini og gisting og komið áleiðis til næsta klúbbs.

Umdæmisstjórar og hvatningarsjóður: 

Fjórir klúbbfélagar hafa gegnt starfi umdæmisstjóra íslenska umdæmisins.

Halldór Sigurðsson sparisjóðsstjóri   1959 - 1960
Guðmundur Sveinsson  skólastjóri     1968 - 1969
Húnbogi Þorsteinsson sveitarstjóri     1985 - 1986
Snorri Þorsteinsson  fræðslustjóri       1999 - 2000

Þau ár er umdæmisstjóri var úr röðum klúbbfélaga kom í hlut klúbbsins að undirbúa og annast formót og umdæmisþing þess árs. Hafa á vegum klúbbsins verið haldin fjögur umdæmisþing; í Bifröst 1960, 1969 og 2000 og Borgarnesi 1986. Í tengslum við umdæmisþing 2000 var á vegum klúbbsins stofnaður sjóður sem nefndur er  "Hvatningarsjóður" og er ætlað að veita viðurkenningar til aðila eða einstaklinga sem lagt hafa marktækan skerf til menningar- lista- eða atvinnulífs á klúbbsvæðinu.  Á fimmtugsafmæli klúbbsins hlaut Snorrastofa í Reykholti viðurkenningu sjóðsins sem merkasta nýjung í menningarlífi héraðsins.

 

Snorri Þorsteinsson tók saman.