Fréttir

13.10.2014

Fræðandi og skemmtilegt umdæmisþing í Garðabæ

Garðbæingar heilsuðu rótarýfólki af öllu landinu á 69. umdæmisþingi Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi, sem haldið var sl. föstudag og laugardag í Vídalínskirkju og í Fjölbrautaskóla Garðabæjar. Rótarýklúbburinn Görðum undir forystu Eiríks Þorbjörnssonar, forseta klúbbsins, og Páls  Hilmarssonar, formanns undirbúningsnefndar, hlaut einróma lof og þakklæti þinggesta fyrir prýðisgóðan undirbúning og glæsilega dagskrá.

Í upphafi setningarathafnar í Vídalínskirkju var tónlistaratriði á dagskrá. Garðakórinn söng nokkur lög undir stjórn Jóhanns Baldvinssonar, organista. Þau Halldóra G. Matthíasdóttir og Ingimundur Sigurpálsson, Rótarýklúbbnum Görðum, voru tilnefnd þingforsetar.

Í setningarávarpi sínu gerði Guðbjörg Alfreðsdóttir grein fyrir meginatriðum í stöðu og starfi Rótarýhreyfingarinnar á heimsvísu og hér á landi um þessar mundir. Nefndi hún m.a. öflugt starf Rótarýsjóðsins að ýmsum mannúðarmálum víða um lönd. Allir rótarýfélagar greiða framlög til sjóðsins. Útrýming lömunarveiki í heiminum er í fyrirrúmi. Önnur mikilvæg viðfangsefni eru friður og úrlausn ágreiningsmála, forvarnir sjúkdóma og meðferð, vatn og hreinlæti, heilbrigði mæðra og barna og grunnmenntun og læsi. Guðbjörg tjáði sig um nauðsyn þess að rótarýfólk hér á landi léti meira að sér kveða í verkefnum fyrir nærsamfélög klúbbanna 30 á Íslandi, sem hafa um 1200 félaga innan sinna vébanda. Þá minnti hún á einkunnarorð alþjóðaforseta hreyfingarinnar „Vörpum ljósi á Rótarý“ og áskorunina sem í þeim felst til klúbbanna um að kynna starfsemi Rótarý fyrir almenningi. Efnt verður til Rótarýdags hér á landi hinn 28. febrúar 2015 og þá munu klúbbarnir varpa ljósi á starfsemi sína og einstök verkefni, hver í sinni heimabyggð.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hélt hátíðarræðu við setningu þingsins. Hann minntist þess að á þessu ári eru liðin 80 ár frá því að Rótarýklúbbur Reykjavíkur var stofnaður að tilstuðlan Knud Zimsen, fyrrum borgarstjóra og Ludvig Storr, stórkaupmanns og ræðismanns Danmerkur. Markaði sá viðburður einnig upphafið að starfi Rótarýhreyfingarinnar hér á landi. Forsetinn sagði Rótarýklúbbana, sem stofnaðir voru víða um land, hafa lagt mikið af mörkum til að sameina fólk í hinum ýmsu byggðarlögum landsins þar sem pólitískir flokkadrættir og sundurlyndi ríkti. Tók það ástand á sig spaugilegar myndir á stundum eins og forsetinn nefndi dæmi um frá æskuárum sínum vestur á fjörðum. Rótarýklúbbar hefðu leitt saman fólk, sem enginn hefði trúað fyrirfram að gæti átt samleið. Hefði það orðið mikil gæfa fyrir ýmis nauðsynjamál sem klúbbarnir hófu að beita sér fyrir í þágu sinnar heimabyggðar, einkum á sviði menningarmála og umhverfismála. Hefði það á sinn hátt verið liður í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

                                                            Myndband með kafla úr ræðu forsetans. Smellið hér

Þá þakkaði forsetinn íslensku rótarýfólki fyrir þátttöku þess í alþjóðastarfi, sem orðið hefði til þess að styrkja orðspor og álit Íslands vítt og breitt um veröldina. Þess skal getið að forsetinn tók sérstaklega á móti þátttakendum í makadagskrá þingsins á Bessastöðum ásamt hinum erlendu gestum þingsins.

Að ræðu forseta Íslands lokinni tóku til máls fulltrúar forseta Rotary International og norrænu rótarýumdæmanna, þau Leila Ritseli frá Finnlandi og Anders Wallin frá Svíþjóð. Lesa meira

Þessu næst var tónlistaratriði. Þórhildur Þorleiksdóttir, nemandi í Tónlistarskóla Garðabæjar lék á trompet. Meðleikari á píanó var Sólveig Anna Jónsdóttir.

Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir, umdæmisstjóri Inner Wheel, flutti kveðjur frá samtökunum, sem eru félagsskapur eiginkvenna rótarýmanna. Svo skemmtilega vildi til að umdæmisþing Inner Wheel var haldið í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ á sama tíma og rótarýþingið. Fram kom í máli Kristjönu að innan alþjóðahreyfingar Inner Wheel færu m.a. fram umræður um afstöðu til hugsanlegrar aðildar karla að samtökunum og almennt nánari samvinnu við Rótarý að verkefnum.

Tilnefndur umdæmisstjóri 2016-2017 var þessu næst kynntur. Guðmundur Jens Þorvarðarson, endurskoðandi og félagi í Rótarýklúbbi Kópavogs, mun gegna embættinu. Guðbjörg Alfreðsdóttir bað þau hjónin Guðmund Jens og Svövu Haraldsdóttur að ganga fram og fékk Guðmundur barmmerki, sem tilnefndir umdæmisstjórar í Rótarý bera.

Að venju var látinna félaga minnst á þinginu. Þeir eru 11 frá síðasta umdæmisþingi. Sr.Friðrik J. Hjartar stjórnaði minningarstundinni en umdæmisstjórinn tendraði kerti í minningu hinna látnu.

Setningarathöfninni lauk síðan með gítarleik Stefáns Páls Sturlusonar nemanda í Tónlistarskóla Garðabæjar.

Kvölddagskrá fór fram í Hönnunarsafni Íslands og í safnaðarheimili Vídalínskirkju.

Lesa meira

Frásögn og myndefni MÖA

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning